Anna Margrét Björnsdóttir 28. apr. 2023

Samkomulag um úthlutun úr Rynkeby­sjóði undirritað

  • Frá vinstri: Valgerður Sigurðardóttir, Rósa Guðbjartsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir
    Frá vinstri: Valgerður Sigurðardóttir, Rósa Guðbjartsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir.

Það var kátt í Skógarhlíðinni á dögunum þegar samningur um úthlutun úr Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna var undirritaður. Sjóðurinn varð til við fjársöfnun Team Rynkeby Ísland á árunum 2017-2021.

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) hefur gert samkomulag við Krabbameinsfélag Íslands og Vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands um meðferð umsókna og úthlutun styrkja úr Rynkebysjóði SKB. Félagið naut eins og áður sagði afraksturs söfnunar Team Rynkeby Ísland á árunum 2017-2021 og sjóðurinn nemur 80 milljónum sem verður varið til rannsókna á krabbameinum hjá börnum. Við úthlutun styrkja úr Rynkebysjóðnum er unnið eftir skipulagsskrá, starfs- og úthlutunarreglum Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands og starfsreglum Vísindaráðs Krabbameinsfélags Íslands eins og við á.

Krabbameinsrannsóknir hafa leitt til mikilla framfara í greiningu og meðferð krabbameina og nauðsynlegt er að tryggja að unnt sé að sinna fjölbreyttum rannsóknum á krabbameinum hérlendis. Það er Krabbameinsfélagi Íslands sönn ánægja að stuðla að því að skapa tækifæri til krabbameinsrannsókna á Íslandi, en Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 2017 úthlutað tæplega 400 milljónum króna til 41 rannsóknarverkefnis.

„Við hjá SKB erum afar þakklát forsvarsmönnum Krabbameinsfélagsins og Vísindasjóðs félagsins fyrir að vera reiðubúin að taka við og meta umsóknir um styrki í Rynkebysjóð SKB,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður stjórnar Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. „Þannig getum við verið fullviss um að rannsóknirnar sem Rynkeby-sjóðurinn fjármagnar standist vísindalegar kröfur og fræðileg viðmið og komi börnum með krabbamein að sem mestu og bestu gagni. Það er afar ánægjulegt að málið sé komið í þennan farveg og fögnum við samstarfinu við Krabbameinsfélagið og Vísindasjóðinn.“

Valgerður Sigurðardóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands, og Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands, taka undir orð Rósu og fagna einnig samstarfinu. „Það er heiður fyrir okkur hjá Krabbameinsfélaginu og Vísindasjóði að vera treyst fyrir þessu hlutverki,“ segir Valgerður. „Með tilkomu Rynkebysjóðs SKB skapast enn fleiri tækifæri fyrir okkar færasta vísindafólk til að rannsaka hvernig fækka megi krabbameinstilfellum og dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein.“


Fleiri nýjar fréttir

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?