Ása Sigríður Þórisdóttir 3. jan. 2023

Reyklaust nýtt ár

Grein eftir Ásgeir R. Helgason, sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, sem birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2022.

  • Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu.

Innan Krabbameinsfélagsins er áratuga reynsla af stuðningi við fólk sem vill hætta að reykja. Hægt er að bóka ókeypis samtal við sérfræðinga í reykbindindi, bæði á íslensku, pólsku og ensku. 

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem reykja vilja gjarna hætta, en ekki endilega einmitt núna. Margir kvíða því að takast á við fíknina.

Hér fylgja nokkur heillaráð:

  • Sankaðu að þér lesefni um skaðsemi reykinga og haltu áfram að leita að nýju efni.
  • Í apótekum og víðar fæst mentól munnúði í litlum aflöngum brúsum sem gott er að fitla við og úða annað slagið upp í sig til að fá ferskt bragð.
  • Mentól nefstifti geta líka hjálpað á svipaðan hátt.
  • Í ýmsum heilsubúðum er hægt að kaupa lakkrísrót sem mörgum finnst gott að naga eftir að þeir hætta að reykja. Sagaðu hana gjarnan niður í bita á stærð við sígarettur og hafðu bitana í öskju þar sem þú varst vön/vanur að hafa tóbakið áður.
  • Drekktu mikið af vatni og hreinum ávaxta- og grænmetissafa.
  • Hvernig væri að safna stubbunum og ösku í sultukrukku? Helltu gjarna smávatni yfir og settu lokið á. Opnaðu ef þú færð löngunarkveisur og lyktaðu upp úr krukkunni.
  • Hafðu gjarnan tannbursta og tannkrem við höndina og burstaðu tennurnar nokkrum sinnum á dag.

Nikótínfíkn

í dag er ljóst að móttökutæki fyrir nikótín eru í heilanum. Löngunin til að reykja grundvallast meðal annars á óþægindum sem fylgja því þegar nikótínmóttökutækin fá ekki sína áfyllingu. Þeir sem reykja losa sig undan þeirri áþján með því að reykja.

Þegar nikótínnotkun er hætt, fara nikótínviðtökutækin að hrörna. Æskilegt getur verið að draga úr áhrifum nikótínfráhvarfs fyrstu vikur eða mánuði reykbindindis einkum hjá þeim sem eru mjög sólgnir í nikótín.

Undir slíkum kringumstæðum geta nikótínlyf reynst gott hjálpartæki. Betri árangur næst með sterkari skömmtum ef um er að ræða mikla nikótín fíkn. Ef þú ert í þeim hópi er líklegt að nikótínlyf eins og nikótíntyggjó, plástrar og munnúði geti hjálpað.

Nálastunga

Ef nálastunga hefur eitthvað að segja við tóbakslöngun þá eru áhrifin líklega í gegnum endorfín því nálarnar auka á þéttni þess og annarra efna tengd vellíðan. Nálastunga virkar ekki eins og bólusetning heldur verður að beita henni reglulega.

Vökvakúr

Ef þú ætlar þér að hætta að reykja án þess að nota nikótínlyf er æskilegt að fara á 24 tíma vökvakúr til að flýta fyrir því að nikótínið hverfi úr líkamanum. Drekktu mikið af vatni og sem fjölbreyttast úrval af hreinum ávaxta- og grænmetissafa. Fráhvarfseinkenni eru merki um jákvæða aðlögun að breyttum lífsháttum. Hins vegar eru "timburmenn" alltaf óþægilegir og vökvakúrinn flýtir fyrir bata.

Sálfræðileg fíkn

Allt að helmingur allra langana í tóbak fyrstu vikur reykbindindis eru tengdar umhverfisþáttum. Það getur því reynst nauðsynlegt að sniðganga vissa hluti tímabundið til að draga úr fjölda langana, sérstaklega ef þú ert mjög sólgin(-n) í nikótín og ákveður að nota ekki nikótínlyf. Forðastu tímabundið það sem þú veist að vekur upp sterka löngun í tóbak.

Depurð og streita

Reykingar, depurð og streita tengjast sterkum böndum hjá mörgum. Öll göngum við í gegnum depurð og stress með ákveðnu millibili. Minningin um „þægindin" sem fylgdu því að reykja verður stundum til þess að við látum glepjast til að reykja þegar depurð og erfiðleikar sækja að.

Blekkingin

Höfum það hugfast að minningin um „þægindin" sem fylgdu því að reykja er blekking. Það var óþægilegt að vera með hálftóm nikótínviðtæki og þessi óþægindi hurfu þegar við önduðum að okkur nikótínmettuðum reyk. Það var gott var að losna við fráhvarfseinkennin. Endilega ekki festast í þeim aftur.

Aðstoð

Innan Krabbameinsfélagsins er áratuga reynsla af stuðningi við fólk sem vill hætta að reykja. Í síma 800 4040 eða á radgjof@krabb.is er hægt að bóka ókeypis samtal við sérfræðinga í reykbindindi, bæði á íslensku, pólsku og ensku. 

Gleðilegt nýtt ár og gangi ykkur vel.

  • Grein eftir Ásgeir R. Helgason, sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, sem birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2022.

Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?