Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. jan. 2020

Rannsóknir félagsins á BRCA2 stökkbreytingu og afleiðingum hennar

Árið 1995 tókst stórum alþjóðlegum hópi vísindamanna að finna BRCA2 genið. Í þessum hópi voru vísindamenn bæði frá Krabbameinsfélaginu og Landspítalanum.

Auk þess byggðu íslensku rannsóknirnar á ættagrunni og krabbameinsskráningu hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. 

Árið áður höfðu erlendir vísindamenn staðsett BRCA1 genið, en BRCA er skammstöfun fyrir „BReast CAncer“ og fengu genin þessi nöfn þar sem gallar í þeim auka mjög líkur á brjóstakrabbameini. 

BRCA1 og BRCA2 genin forskrifa fyrir flóknum prótínum sem meðal annars gera við galla (stökkbreytingar) í erfðaefninu (DNA) og gegna lykilhlutverki í vernd líkamans gegn tilteknum krabbameinum. Sumir erfa stökkbreytt BRCA1 eða BRCA2 gen og ef stökkbreytingarnar eru á viðkvæmum stöðum í þessum stóru genum, myndast ekki eðlilegt BRCA prótín í nægilegu magni. Þar með laskast varnargeta líkamans gegn tilteknum krabbameinum. Stökkbreytingar í báðum þessum genum valda krabbameinum í brjóstum kvenna og eggjastokkum og til viðbótar valda stökkbreytingar í BRCA2 geninu hormónatengdum krabbameinum í körlum, þ.e. í brjóstum þeirra og blöðruhálskirtli. 

„BRCA1 stökkbreytingar eru fremur fátíðar á Íslandi, en hins vegar er ein tiltekin BRCA2 stökkbreyting, sem staðsett er framarlega í BRCA2 geninu, óvenju algeng í erfðamengi þjóðarinnar, þótt hún finnist sjaldan hjá öðrum þjóðum, en um 0,7% Íslendinga fæðast með hana,“ segir Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur og deildarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu. 

Áhrif BRCA2 stökkbreytinga hafa verið mikið rannsökuð hjá Krabbameinsfélaginu. Árið 2006 kom í ljós að brjóstakrabbameinsáhætta hjá arfberum „íslensku“ BRCA2 stökkbreytingarinnar hafði fjórfaldast frá árinu 1900, svipað og sést hafði hjá bandarískum konum. Hækkandi áhætta með tímanum bendir til umhverfisáhrifa. 

„Þetta, ásamt því hve konurnar greinast á ólíkum aldri, undirstrikar hve áhættan er ólík á milli kvenna, jafnvel þótt þær séu með sömu BRCA2-stökkbreytinguna. Víða um heim er því unnið að gerð spáforrita fyrir einstaklingsbundna brjóstakrabbameinsáhættu BRCA2 arfbera eftir aldri, út frá þekktum áhættuþáttum úr umhverfi og erfðum. Ef vel tekst til, verður af þessu mikið gagn fyrir konur sem standa frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku, svo sem brottnámi brjósta og/eða eggjastokka, og á hvaða aldri þær ættu að fara í slíkar aðgerðir,“ segir Laufey. 

Verri horfur karla með BRCA2 

Árið 2007 varð Krabbameinsfélagið fyrst í heiminum til að staðfesta að karlar með BRCA2 stökkbreytingu sem fá krabbamein í blöðruhálskirtil hafa umtalsvert verri horfur en aðrir karlar með sama mein. Sambærilegar erlendar niðurstöður komu í kjölfarið. Þess vegna er nú mælt með því að karlar með BRCA2 stökkbreytingar séu undir eftirliti frá 45 ára aldri. 

„Tvær nýlegar rannsóknir okkar á horfum kvenna með brjóstakrabbamein bentu til að konur með meðfædda BRCA2 stökkbreytingu hefðu heldur verri horfur en aðrar konur. En í rannsóknarhópnum voru engar konur sem vissu um stökkbreytingu er þær fóru í meðferð. Lyfjameðferð hafði mjög jákvæð áhrif á horfurnar og er það í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að þegar meðferðin tekur mið af tilvist BRCA2 stökkbreytingar eru horfurnar síst verri en hjá öðrum konum,“ segir Laufey. 

Krabbameinsfélagið stýrir nú norrænni rannsókn á sérstöðu brjóstakrabbameina hjá konum með brjóstakrabbamein og BRCA2 stökkbreytingu. Fyrstu niðurstöður benda til að stökkbreytingin valdi breytingum á eðli meinanna og ef það verður staðfest, geta niðurstöðurnar leitt til bættrar meðferðar hjá arfberum og aukins skilnings á eðli brjóstakrabbameina.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?