Laufey Tryggvadóttir framkv.stj. Krabbameinsskráar 27. maí 2016

Nýgengi krabbameina og dánartíðni að lækka

  • Starfsfólk Krabbameinsskráarinnar
    Starfsfólk Krabbameinsskráarinnar

Baráttan gegn krabbameinum ber árangur

Frá því að Krabbameinsfélag Íslands hóf að skrá öll krabbamein á Íslandi og fram undir árið 2010 var stöðug hækkun á nýgengi krabbameina þegar horft er á öll mein saman, þótt talsverðar breytingar í báðar áttir hafi verið á sumum meinum. Dæmi um slíkar breytingar eru hratt lækkandi tíðni magakrabbameins en hins vegar hækkandi tíðni krabbameina í lungum, brjóstum og blöðruhálskirtli.

Lækkun í nýgengi krabbameina beggja kynja

Nú má merkja jákvæða þróun í heildartíðni nýgengis krabbameina. Hjá körlum stöðvaðist hækkunin fyrir um það bil sex árum og hefur tíðnin farið lækkandi síðan þá. Hjá konum hefur tíðnin staðið í stað frá aldamótum en merkja má lækkun á allra síðustu árum. Mikilvægar vísbendingar eru því um að þróun nýgengis krabbameina sé loksins að færast í rétta átt.

Dánartíðni beggja kynja lækkar líka

Dánartíðni af völdum krabbameina var aftur á móti nokkuð stöðug frá upphafi og fram til ársins 2000. Hér eru líka góðar fréttir því frá aldamótum hefur dánartíðnin lækkað umtalsvert hjá báðum kynjum.

Linuritnygengni

Myndin sýnir breytingar á nýgengi og dánartíðni fyrir öll mein saman, skipt eftir kynjum. Með aldursstöðlun hefur verið leiðrétt fyrir breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar og eru tölurnar sýndar sem fimm ára hlaupandi meðaltöl.

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 1954 safnað upplýsingum um öll krabbamein sem greinast hjá þjóðinni en upplýsingar um dánarmein komu frá Hagstofu Íslands og Embætti landlæknis.

Orsakir lækkandi nýgengis og dánartíðni

Að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár má rekja stærstan hluta ofanskráðrar lækkunar á dánartíðni hjá konum til þriðjungs lækkunar á dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins síðustu 20 árin. Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein kvenna. Þennan góða árangur má bæði rekja til leitarstarfs Krabbameinsfélagsins og til stórstígra framfara í meðferð við  brjóstakrabbameini. Þetta er gott dæmi um það hverju verður áorkað hjá lítilli þjóð fyrir tilstilli hugsjónastarfs félagasamtaka og hágæða heilbrigðisþjónustu sem nær jafnt til alla þegna þjóðfélagsins. Til viðbótar við brjóstakrabbameinið má einnig sjá nokkra lækkun á dánartíðni af völdum fleiri meina, sérstaklega krabbameina í eggjastokkum og ristli.

Hjá körlum munar mest um 20% lækkun á dánartíðni af völdum krabbameina í lungum og blöðruhálskirtli, en þessi tvö mein eru langstærstu skaðvaldarnir af krabbameinum hjá körlum. Hinn góða árangur varðandi lungnakrabbameinið má þakka áratugalöngu öflugu tóbaksvarnastarfi hjá Krabbameinsfélaginu og Hjartavernd og jafnframt síðustu ár hjá Lýðheilsustöð og Embætti Landlæknis. Stærstan hluta lækkandi dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli má væntanlega skýra með hinni miklu aukningu undanfarinna áratuga á skurðaðgerðum þar sem meinið er fjarlægt með því að nema kirtilinn á brott.

Nánari upplýsingar veitir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands í síma 690 3766 eða á netfangið laufeyt@krabb.is.

 


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?