Ása Sigríður Þórisdóttir 28. mar. 2020

Mottumars snýst um karla og krabbamein

Fréttablaðið 28. mars 2020

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Verum ávallt vakandi fyrir einkennum krabbameina eins og segir í Mottumarslaginu í ár ættu karlmenn að „tékka á sér“ og vera vakandi fyrir ýmsum breytingum á líkama sínum sem geta verið vísbendingar um krabbamein.

Á Íslandi greinast að meðaltali 832 karlmenn með krabbamein á ári. Það þýðir að daglega greinast að minnsta kosti tveir karlmenn með krabbamein. Um helmingur þeirra er á aldrinum 40-69 ára en flest krabbamein greinast á efri árum eða að meðaltali við 68 ára aldurinn.

Mörg stór skref hafa verið stigin til að bæta þjónustu við þá sem greinast hér á landi. Eitt þeirra er skráning á krabbameinsmeðferðum, til viðbótar við aðra skráningu krabbameina, sem hófst árið 2017 að sænskri fyrirmynd. Markmiðið með skráningunni er að auðvelda eftirlit og mat á gæðum og árangri heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja sem besta krabbameinsmeðferð í hverju tilviki. Um er að ræða samstarfsverkefni Landspítala, Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins og embættis landlæknis. Enn fremur styrkti Lionsklúbburinn Njörður verkefnið myndarlega.

Krabbamein í blöðruhálskirtli – ættu karlar að láta tékka á sér?

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta meinið á Íslandi og hefur verið síðan um aldamótin. Í kringum 1990 var byrjað að nota mælingu á PSA (prostate specific antigen) í blóði til að kanna hvort viðkomandi gæti verið með krabbamein í blöðruhálskirtli. Í tengslum við þessar mælingar hafa greinst mun fleiri krabbamein en jafnframt hefur komið í ljós að mikill hluti krabbameinanna sem uppgötvast er staðbundinn og í svokölluðum dvala (hægvaxandi) og hefðu ekki uppgötvast ef ekki væri fyrir PSA mælinguna.

Skipulögð hópleit að krabbameini í blöðruhálskirtli er ekki framkvæmd hérlendis eða í nágrannalöndum. Karlar yfir fimmtugu geta þó óskað eftir því að láta mæla PSA-gildið hjá heimilis- eða þvagfæralækni. Það er þó ákvörðun sem ekki ætti að taka án þess að kynna sér málið vel þar sem ákvörðunin getur verið flóknari en líklega virðist við fyrstu sýn vegna þess að stór hluti meinanna sem greinast eru staðbundin og hægvaxta.

Vegna þessa hefur Krabbameinsfélagið á síðustu árum unnið að því í samstarfi við Háskólann í Reykjavík að þýða og staðfæra gagnvirkt ákvörðunartæki varðandi skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli, að bandarískri fyrirmynd. Markmiðið með ákvörðunartækinu er að aðstoða karlmenn á aldrinum 50-70 ára að meta kosti og vandkvæði við að láta leita að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli. Ákvörðunartækið er að finna í Karlaklefanum, sérstöku vefsvæði Krabbameinsfélagsins fyrir karla, akvordunartaeki.karlaklefinn.is/

Verum ávallt vakandi fyrir einkennum krabbameina

Eins og segir í Mottumarslaginu í ár ættu karlmenn að „tékka á sér“. Með því er átt við að karlar eigi að vera vakandi fyrir ýmsum breytingum á líkama sínum sem geta verið vísbendingar um krabbamein. Krabbameinsfélagið hvetur alla til að leita til læknis ef eitthvað er öðruvísi en venjulega án skýrra orsaka eða ef einkenni eru langvarandi. Slík einkenni geta til dæmis verið óvenjuleg blæðing, þykkildi eða hnútar, óútskýrt þyngdartap, þrálátur hósti eða hæsi, kyngingarerfiðleikar, breyting á meltingu, hægðum eða þvaglátum, sár sem ekki grær, breytingar á fæðingarblettum, þreyta eða verkir án þess að orsök sé ljós.

Algengustu krabbameinin tengjast lífsstíl

Einn af hverjum þremur karlmönnum getur búist við að greinast með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni og algengustu þrjú meinin eru krabbamein í blöðruhálskirtli, ristli og endaþarmi og lungum. Áður fyrr var magakrabbamein algengast en greiningum á því fækkaði um 90% á tímabilinu frá 1955 til 2017. Stór áhættuþáttur magakrabbameins er mikil neysla á söltuðum og reyktum mat en neysla á slíkum mat snarminnkaði á þessu tímabili og neysla á ávöxtum og grænmeti, sem er verndandi þáttur, jókst.

Til mikils er að vinna með því að temja sér lífsstíl sem dregur úr líkum á að fá krabbamein. Þekktir verndandi þættir gegn krabbameinum eru meðal annars regluleg líkamleg hreyfing, hæfileg líkamsþyngd, tóbaksleysi, takmörkuð neysla á áfengi, söltuðum og reyktum mat, sykruðum drykkjum og rauðu kjöti og mikil neysla á trefjaríkum mat eins og heilkornavörum, ávöxtum, grænmeti og baunum. Hægt er að skoða leiðir til að bæta heilsu og minnka líkur á krabbameinum á mottumars.is undir heilsuráð.

Skipulögð skimun gegn krabbameini í ristli og endaþarmi

Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt fárra krabbameina sem hægt er að finna á frumstigum og jafnvel koma í veg fyrir með því að greina forstig sjúkdómanna. Afar brýnt er að hefja skimun fyrir þessu krabbameini hér á landi en Krabbameinsfélagið og velferðarráðuneytið lögðu mikið fjármagn í undirbúning verkefnisins á árunum 2016 og 2017. Samkvæmt samkomulaginu var stefnt að því að skimun hæfist árið 2017 hjá fólki á aldrinum 60-69 ára en því miður hafa heilbrigðisyfirvöld enn ekki hrint verkefninu í framkvæmd.

Þar til skipulögð hópskimun hefst hér á landi er mælt með að einstaklingar á aldrinum 50-75 ára ræði við heimilis- eða meltingarfæralækni um möguleikann á leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. Í þeim tilvikum þar sem ættingjar hafa greinst með þetta krabbamein getur verið ástæða til að ræða það fyrr.

Við erum öll í þessu saman

Með því að huga vel að sjálfum okkur, fjölskyldu og vinum stuðlum við að betri lífsgæðum og fækkum þeim sem fá krabbamein. Þessi vitneskja byggir á traustum vísindalegum grunni sem hefur meðal annars byggst upp út frá þeim rannsóknum sem almenningur gerir krabbameinsfélögum víða um heim kleift að stunda, með stuðningi sínum við félögin.

Starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir alfarið á stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu. Félagið þakkar Velunnurum félagsins og kaupendum Mottumarssokka um land allt af alhug fyrir stuðninginn.

Óhætt er að segja að Mottumars hafi fallið í skuggann af heimsfaraldri COVID-19 þetta árið. Mánuðurinn hefur verið óvenjulegur hjá okkur öllum en jafnframt tími sem hefur einkennst af samstöðu og samhug. Við höfum nú þegar lært mikið af þessum heimsfaraldri og erum eflaust enn betri í að setja okkur nú í spor þeirra sem glíma við ýmsa sjúkdóma.

Áskoranirnar eru ótalmargar framundan og með samstilltu og samhentu átaki finnum við leiðir til að takast á við þær.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?