Jóhanna Eyrún Torfadóttir 12. nóv. 2019

Margfaldur ávinningur af jurtafæði - málþing næsta föstudag

15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar frá kl. 15:00 til 16:40. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Einn af hverjum fjórum telur að ekkert sé hægt að gera til að koma í veg fyrir krabbamein samkvæmt árlegri skoðanakönnun sem Félag bandarískra krabbameinslækna lætur framkvæma meðal almennings (um 4000 þátttakendur). Rannsóknir síðustu áratuga sýna þó að þetta er ekki rétt og vitað er að hægt er að koma í veg fyrir 30-50% krabbameina með lífsstíl.

Nýleg heilbrigðiskönnun á vegum Gallup sýnir 80% Íslendinga hafa mikinn eða nokkurn áhuga á að breyta lifnaðarháttum á komandi ári. Þegar spurt var hvað viðkomandi myndi helst vilja gera ef aðeins ætti að gera eina breytingu á lifnaðarháttum kom í ljós að 42% vilja hreyfa sig meira og 30% vilja betra mataræði.

Ráðleggingar um mataræði á vegum Embættis landlæknis hafa það að markmiði að landsmenn fái öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Ef við fylgjum þessum ráðleggingunum þá minnkum við einnig líkur á mörgum lífsstílsjúkdómum. Í grunninn snúast þessar ráðleggingar um að borða meira úr jurtaríkinu, þ.e. grænmeti, ávexti, baunir, linsur og heilkornavörur eins og hafra, rúg, bygg og heilhveiti. Á móti er mælt með að takmarka neyslu á rauðu kjöti og þá sérstaklega unnum kjötvörum.

Fæðumynstur „flexitarian“ sem getur haft jákvæð áhrif

Nýverið birtist grein í Lancet eftir alþjóðlegan vísindahóp sem kallast EAT. Þessi hópur hefur á undanförnum 3 árum unnið að því að reikna út hvernig þjóðir heims geta tekist á við aðkallandi vandamál tengd fæðuframboði, kolefnisfótspori matvælaframleiðslu, mataræðistengdum lífsstílsjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum (þ.e. að látast fyrir 75 ára aldur). Á Íslandi er staðan núna þannig að krabbamein er algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla.

Áðurnefndur EAT-hópur hefur sett fram tillögu að fæðumynstri sem getur haft jákvæð áhrif á þær áskoranir sem við stöndum nú frammi fyrir hvað varðar mataræði og heilsu og einnig til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Þetta fæðumynstur, þar sem lögð er enn ríkari áhersla en áður á að minnka kjötneyslu og auka á móti verulega neyslu á fæðutegundum úr jurtaríkinu, kallast „flexitarian“.

Könnun á áhrifaþáttum krabbameina – kjöt, ávextir og grænmeti

Lengi hefur verið vitað að neysla á rauðu kjöti eykur líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi. Það sama á við um litla neyslu á ávöxtum, grænmeti og öðru trefjaríku fæði. Svo virðist sem að margir séu ekki upplýstir um þessa staðreynd.

Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Krabbameinsfélagið í apríl á þessu ári meðal tilviljunarkennds úrtaks úr Þjóðskrá (840 svarendur) kom fram að einungis 17% töldu að mikil neysla á rauðu kjöti hafi áhrif á líkurnar á krabbameini. Mun fleiri eða 44% töldu að þessi áhrif væru lítil. Einnig voru 12% þátttakenda sem töldu að mikil neysla á rauðu kjöti hefði engin áhrif á líkurnar að fá krabbamein.

Nokkuð svipað var uppá teningnum þegar spurt var hvort viðkomandi teldi að lítil neysla á ávöxtum og grænmeti hefði áhrif á líkurnar á að fá krabbamein en einungis um 19% þátttakenda töldu að lítil neysla hefði mikil áhrif á líkurnar á krabbameini.

Málþing næsta föstudag – 15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar kl. 15:00

Föstudaginn 15. nóvember verður haldið málþing á vegum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands þar sem sérfræðingar munu fjalla um næringartengda nýsköpun. Markmiðið með málþinginu er fjalla um stöðu mála og finna leiðir til að stuðla að breytingum sem eru jákvæðar bæði fyrir heilsu og okkar og fyrir umhverfið.

Aðgangur á málþingið er ókeypis. Allir velkomnir. Skráning fer fram hér.


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?