Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. okt. 2019

Ekki nota ljósabekki!

Í dag gáfu norrænu geislavarnastofnanirnar út sameiginlega yfirlýsingu gegn notkun ljósabekkja undir yfirskriftinni: „Ekki nota ljósabekki.“ Stofnanirnar hafa varað við notkun ljósabekkja allt frá árinu 2005 vegna hættu á húðkrabbameini.

„Það virðist sem stöðugt þurfi að minna á skaðsemi ljósabekkjanotkunar á húðina, sérstaklega hjá ungu fólki. Það er auðvitað löngu staðfest að notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini, og húð ungmenna er viðkvæmari en okkar sem erum fullorðin. Því er mikilvægt að allir sem fara í ljós átti sig á þessum áhættuþætti,“ segir Guðlaug Birna Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.

Krabbameinsfélagið situr í samstarfshópi ásamt Geislavörnum, Embætti Landlæknis og húðlæknum, sem hefur fylgst með ljósabekkjanotkun á Íslandi frá árinu 2004. Gallup framkvæmir kannanirnar árlega. Árið 2018 höfðu um 8% fullorðinna Íslendinga notað ljósabekk á undangengnum 12 mánuðum. Könnun ársins 2016 sýndi að um 21% ungmenna (12-23 ára) höfðu notað ljósabekk á undangengnum 12 mánuðum. Geislavarnir kynntu meðal annars þessar niðurstöður í erindi um þróun ljósabekkjanotkunar á Íslandi á ráðstefnu Norræna Geislavarnafélagsins (NSFS) í Finnlandi fyrr á þessu ári.

Staðfest er að notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini enda setti Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) ljósabekki í Flokk 1 árið 2009 en í honum eru staðfestir krabbameinsvaldar. Einnig hefur verið sýnt fram á að allri notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini sem og að hættan á húðkrabbameini eykst verulega þegar notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.

Um sólarlampa (ljósabekki) gildir reglugerð 810/2003 um notkun sólarlampa og í lögum nr. 44 frá 2002 um geislavarnir eru ákvæði um að einstaklingum yngri en 18 ára séu óheimil afnot af sólarlömpum í fegrunarskyni á stöðum sem þurfa starfsleyfi svo sem á sólbaðstofum, heilsuræktarstöðvum og íþróttamiðstöðvum. Sambærileg ákvæði eru einnig í lögum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?