Björn Teitsson 4. jún. 2021

Samþykkt um fjárframlag send til yfirvalda

  • Skógarhlíð

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins sem fram fór á Selfossi 29. maí var samþykkt að veita allt að 450 milljónum króna til uppbyggingar nýrrar dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga. Sú samþykkt hefur nú verið send til ráðamanna. 

Krabbameinsfélagið sendi á miðvikudag síðastliðinn, 2. júní, samþykkt aðalfundar félagsins um allt að 450 milljóna framlag til uppbyggingar nýrrar dagdeildar til heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Landspítala, formanni stýrihóps um Nýja Landspítalann sem og aðal- og varamönnum í velferðarnefnd Alþingis. 

Uppbygging nýrrar dagdeildar er bráðnauðsynleg en aðstæður fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk er með öllu óviðunandi eins og sakir standa. Fjárframlag Krabbameinsfélagsins er háð því að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og setji málið í forgang.

Er það von Krabbameinsfélagsins að vel verði tekið í samþykktina og uppbygging nýrrar dagdeildar geti hafist sem fyrst. Þannig verði hún tekin í notkun eigi síðar en árið 2024. 

Samþykktin í heild er svohljóðandi: 

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, haldinn á 70 ára afmæli félagsins, á Selfossi 29. maí 2021 lýsir yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Landspítalinn er í lykilhlutverki varðandi greiningu og meðferð krabbameina hér á landi og flestir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana á dagdeildinni. Deildin er staðsett í elsta hluta Landspítalans í húsnæði sem bæði er allt of lítið og hentar illa fyrir starfsemina.

Ef halda á þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í baráttunni við krabbamein verður aðstaða til meðferðar fyrir sjúklinga og aðstandendur að vera fyrsta flokks. Til að laða að sérhæft starfsfólk og gera því kleift að sinna sínu starfi á bestan hátt verður aðstaðan að sama skapi að standast samanburð við það sem best gerist erlendis.

Vandinn er brýnn og hann verður að leysa hið fyrsta. Spár benda til 30% aukningar á fjölda krabbameinstilvika á næstu 15 árum. Sífellt betri árangur, þar sem fleiri lifa eftir að hafa greinst með krabbamein kallar einnig á aukið eftirlit og meðferð. Á Landspítala hefur verið unnin hugmynd að lausn til framtíðar, sem er tiltölulega auðvelt að hrinda í framkvæmd.

Aðalfundurinn samþykkir að styðja við Landspítala og heilbrigðisþjónustu á Íslandi með myndarlegum hætti, almenningi til heilla. Stuðningurinn felst í að félagið veiti 350 milljónum af eigin fé auk allt að 100 milljóna úr sérstakri fjáröflun til uppbyggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítalanum.

Stuðningurinn er háður því að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítalanum og setji bygginguna í forgang, þannig að hægt verði að taka nýja deild í notkun árið 2024.

Leysum málið – lausnin er til!


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?