Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 2. feb. 2020

Mat á gæðum krabbameinsmeðferða

  • Helgi Birgisson er yfirlæknir hjá Krabbameinsskrá.

Skráningu á gæðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu er ábótavant og gildir það einnig um greiningu og meðferð krabbameina. Helgi Birgisson skrifar.

Í Íslenskri krabbameinsáætlun 2015-2020 með gildistíma fram til 2030 er gæðaskráning krabbameina sett í forgang. 

Stöðluð gæðaskráning gefur yfirsýn yfir læknismeðferð og leyfir samanburð við aðrar þjóðir varðandi árangur greiningar og meðferðir, sem aftur leiðir til bættrar meðferðar. Auk þess nýtast niðurstöður til rannsókna og gerðar klínískra leiðbeininga, allt í þágu sjúklinga. 

Dæmi um upplýsingar sem unnt er að fá fram með gæðaskráningu eru:  

  • Biðtími frá greiningu til fyrstu meðferðar
  • Hlutfall sjúklinga sem meðhöndlaðir eru með aðgerð, geislun eða krabbameinslyfjameðferð
  • Blæðing í aðgerð 
  • Endurteknar aðgerðir vegna fylgikvilla 
  • Fjöldi skoðaðra eitla 
  • Hlutfall með staðbundna endurkomu krabbameins 

Vísir að gæðaskráningu hófst hjá Krabbameinsfélaginu árið 1998 í samvinnu við skurð- og krabbameinslækna Landspítalans og sænsku gæðaskráninguna, sem er með vel þróað gæðaskráningakerfi. Upplýsingum var fyrst safnað um forspárþætti og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli, en árið 2010 var skráningin aukin og náði til fleiri krabbameina. 

Í heilsugátt tölvukerfis Landspítalans er búið að setja upp skráningareyðublöð gæðaskráningarinnar fyrir tiltekin mein og þannig koma hinar stöðluðu upplýsingar í sjúkraskrárnar. Frá árinu 2016 hefur Krabbameinsfélagið staðið að BS verkefnum læknanema varðandi skráningu krabbameina í samvinnu við lækna á Landspítalanum. 

Með samanburði við sænsku gæðaskráninguna sést hvar munur er á greiningu og meðferð á milli landanna og hafa niðurstöður verið kynntar, meðal annars á skurðlæknaþingi. Þær gefa góða mynd af gæðum greiningar og meðferðar á Íslandi. Þótt Ísland standi vel að vígi má greinilega bæta ýmsa þætti og gefa einstaklingmiðaðri meðferð. 

Rauntímaskráning hófst árið 2018 á krabbameini í blöðruhálskirtli og 1. janúar 2019 á krabbameini í brjóstum, öðrum kvenlíffærum, ristli og endaþarmi, höfuð-, háls- og skjaldkirtilskrabbameinum. Starfsmenn Krabbameinsskrár hafa verið að þróa gagnvirka framsetningu á niðurstöðum gæðaskráningarinnar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og er markmiðið einnig að setja fram upplýsingar sem verða almenningi læsilegar. 

Gæðaskráningin er vel heppnað samstarfsverkefni Krabbameinsfélagsins og Landspítalans og með aðkomu embættis landlæknis. Sterkar vísbendingar eru um að gæðaskráningin sé þegar farin að koma krabbameinssjúkum að gagni með betri greiningu og réttari meðferð.

Helgi Birgisson, yfirlæknir á Krabbameinsskrá.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?