Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 1. feb. 2020

Áfengi getur valdið krabbameini

  • Laufey Tryggvadóttir talar við Sigmund Erni Rúnarsson á Hringbraut.

Vitað er að aukið aðgengi að áfengi gengur þvert á hagsmuni lýðheilsu þjóðarinnar og að það verður til þess að krabbameinstilfellum fjölgar. 

Áfengisfrumvörp hafa ítrekað verið lögð fyrir Alþingi, þar sem markmiðið er að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis. Krabbameinsfélagið hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessi frumvörp. 

Áfengi veldur 5% af öllum brjóstakrabbameinum á Norðurlöndunum og 3% af krabbameinum í ristli og endaþarmi og samband er á milli áfengisneyslu og krabbameina í munnholi, koki, barkakýli, vélinda og lifur.

Laufey Tryggvadóttir, deildarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu, segir að tengsl áfengis og krabbameina hafi verið þekkt í um þrjá áratugi, en vegna þess hve áfengi er mikill hluti af menningu þjóðarinnar vilji fólk helst ekki heyra af því. Tengsl brjóstakrabbameins við áfengi og krabbamein í ristli og endaþarmi eru til dæmis vel þekkt. 

„Sú mýta er lífseig að eitt glas á dag sé hjartastyrkjandi, en stór rannsókn sem birtist nýlega í læknatímaritinu Lancet sýnir fram á að enginn lágmarksskammtur af áfengi er hlutlaus eða hollur. Áfengisneysla byrjar strax að hafa áhrif og veldur þremur milljónum dauðsfalla á heimsvísu á ári,“ segir Laufey. 

Hún segir að ekki þurfi að hætta að neyta áfengis í hófi, en aldrei eigi að fá sér í glas til þess eins að bæta heilsuna. 

Neysla áfengis eykst með batnandi efnahag 

Umræða um að leyfa einnig sölu á áfengi í sérverslunum kemur reglulega upp. Svíar komust að þeirri niðurstöðu að áfengistengd dauðsföll vegna krabbameina myndu aukast um 18% ef salan færi fram í sérverslunum og enn meira ef hún færi einnig fram í almennum verslunum. Laufey segir að þessi skilaboð þurfi að berast fulltrúum okkar á Alþingi. 

Í nýlegri rannsókn sem birt var í Lancet, kom fram að þriðjungur jarðarbúa neytir áfengis, að rekja megi þrjár milljónir dauðsfalla árlega til drykkjunnar og að krabbamein eru þar í efsta sæti hjá einstaklingum yfir 50 ára. Athyglisvert er að neyslan eykst með batnandi efnahag og þjóðfélagsstöðu og þess vegna er spáð auknum heilsufarsvandamálum í löndum sem eru að bæta efnahagsstöðu sína, ef ekki verður brugðist við. 

Samfélagsleg ábyrgð og stefna í lýðheilsumálum 

Í september 2016 kynnti velferðarráðuneytið stefnu í lýðheilsu og forvörnum, þar sem eitt af markmiðunum var að draga úr áfengisog vímuefnaneyslu á meðal ungs fólks. Í því sambandi var bent á að meðal virkra aðgerða er stýring á áfengisneyslu með verði, einkasölu ríkja og háum aldursmörkum til áfengiskaupa og þess var getið að stefnan væri í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) til 2020. 

„WHO hefur bent á að áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr áfengisneyslu séu allar á valdi stjórnvalda og felist í takmörkun á framboði áfengis, verðstýringu og banni við áfengisauglýsingum. Vonandi ber Alþingi Íslendinga gæfu til að fara ekki í öfuga átt við lýðheilsustefnu, heldur beini kröftum sínum í farveg sem eflir heilsu, velferð og hamingju landsmanna,“ segir Laufey.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?