Eggjastokka­krabbamein

Dregið hefur úr fjölda eggjastokkakrabbameina á síðustu árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndum. Einnig hefur dánartíðni af völdum sjúkdómsins lækkað.

Hvað er eggjastokkakrabbamein?

Eggjastokkarnir eru tveir og liggja í grindarholi, hvor sínum megin við legið. Hlutverk þeirra er að framleiða egg og kynhormóna sem stjórna kynþroska og frjósemi konunnar. Þessir kynkirtlar eru einkum starfhæfir frá kynþroskaaldri fram að tíðahvörfum.

Í eggjastokkum geta myndast margar tegundir æxla, sem ýmist eru góðkynja eða illkynja. Um 85% allra æxla í eggjastokkum eru góðkynja. Í yngri konum eru flest æxli góðkynja en tíðni illkynja æxla eykst með hækkandi aldri og við 50-70 ára aldur er talið að helmingur allra æxla í eggjastokkum sé illkynja. Til viðbótar greinast æxli sem eru á mörkum þess að vera góðkynja og illkynja (oft nefnd borderline-æxli). Þau samsvara um þriðjungi eggjastokkaæxla. Lífslíkur kvenna með þessi mein eru mjög góðar. Ekki er nánar fjallað um slík mein hér.

Krabbamein í eggjastokkum er samheiti fyrir öll illkynja æxli í eggjastokkum, óháð vefjagerð þeirra. Þau eru algengasta tegund illkynja æxla í kynfærum kvenna.

Einkenni

Erfitt getur verið að greina eggjastokkakrabbamein því einkenni koma yfirleitt seint fram og eru ódæmigerð að því leyti að þau geta einnig verið af saklausum toga. Helstu einkenni eru tilkomin vegna vökva sem æxlið seytir frá sér eða að æxlið sjálft er orðið svo stórt að það þrýstir á önnur líffæri:

  • Vaxandi ummál kviðar.
  • Óþægindi og verkir frá kviðarholi. 
  • Breyttar hægðavenjur eins og hægðatregða eða óþægindi frá endaþarmi.
  • Óþægindi frá þvagblöðru (með tíðum þvaglátum),
  • Uppköst, lystarleysi og/eða máttleysi.
  • Í einstaka tilfellum andþyngsli.
  • Þyngdartap.

Ef einkenni vara lengur en í þrjár vikur þá er rétt að ræða við lækni. Ofangreind einkenni geta verið merki um eggjastokkakrabbamein, en þau geta einnig stafað af öðrum orsökum. Eggjastokkakrabbamein greinist stundum fyrir tilviljun hjá lækni vegna kviðvandamála eða verkja.

Áhættuþættir

Orsakir eggjastokkakrabbameins eru í langflestum tilfellum óþekktar en þekktir eru þættir sem ýmist auka eða minnka líkurnar á að fá sjúkdóminn.

  • Fjöldi egglosa. Fjöldi egglosa um ævina er talinn vera mikilvægur þáttur á þann hátt að þættir sem draga úr tíðni egglosa, svo sem meðganga eða notkun getnaðarvarnarpillu, minnka líkur á eggjastokkakrabbameini.
  • Fjölskyldusaga. Í um sex prósent tilfella er um erfðir að ræða. Í sumum þessara tilfella er hægt að greina stökkbreytingu í erfðaefni tveggja gena, BRCA1 og BRCA2 (BRCA er skammstöfun fyrir breast cancer antigen) sem aðallega hefur verið fjallað um í tengslum við brjóstakrabbamein. Konur sem eru með stökkbreytingu í þessum genum eru í aukinni hættu á að fá krabbamein í eggjaleiðara, eggjastokka og brjóst.
  • Tóbak. Nýlegar rannsóknir sýna að tóbak getur aukið hættuna á krabbameini í eggjastokkum. 

Læknisskoðun og pillan

Á síðari árum hefur verið leitast við að finna aðferðir til að skima fyrir þessum sjúkdómi á forstigi eða byrjunarstigi, en án verulegs árangurs. Skoðun hjá kvensjúkdómalækni með innri þreifingu og ómskoðun gegnum leggöng er því enn besta greiningaraðferðin. Sýnt hefur verið fram á að skoðun hjá kvensjúkdómalækni með ómskoðun sé ekki nothæf til skimunar en konur eru hvattar til að leita eftir slíkri skoðun ef þær hafa óljós og þrálát óþægindi frá kviðarholi eða grindarholi.  

Aðeins um fimmti hver sjúklingur hefur einkenni frá kynfærum og leita þeir því oft fyrst til annarra lækna. Til samanburðar má nefna að flestar konur með krabbamein í legbol og í leghálsi fá byrjunareinkenni frá kynfærum sem beina þeim fljótt í skoðun hjá kvensjúkdómalækni.

Margt bendir til að notkun getnaðarvarnarpillu verndi gegn eggjastokkakrabbameini með því að draga úr tíðni egglosa. Hafa verður hugfast að pillan getur einnig haft aukaverkanir þannig að það þarf að meta kosti og galla í hverju tilfelli. 

Greining

Ef einkenni vekja grun um eggjastokkakrabbamein er í fyrsta lagi gerð hefðbundin kvenskoðun. Kvensjúkdómalæknir þreifar kvenlíffæri og ómskoðar eggjastokkana, eggjaleiðarana og legið. Mæling á ákveðnum æxlisvísi í blóði sjúklings (svonefndu CA-125) getur hjálpað til við greiningu. Læknirinn getur einnig pantað sneiðmyndatöku.

Ef æxli greinist í eggjastokki við slíka rannsókn þarf að taka vef til rannsóknar, yfirleitt alltaf með brottnámi eggjastokksins í heild ásamt meinsemdinni, fremur en aðeins sýnatöku úr meininu. Þetta er unnt að gera í kviðarholsspeglun eða kviðarholsaðgerð.
Fyrirferð í eggjastokki getur verið af ýmsum toga og margvísleg góðkynja mein geta valdið stækkun eggjastokks og æxlisútliti. Því er vefjagreining nauðsynleg áður en ákvörðun er tekin um endanlega meðferð. Smásjárskoðun við vefjarannsókn greinir síðan hvers eðlis meinsemdin er og í framhaldi af því er tekin ákvörðun um endanlega meðferð. Aðgerð til greiningar gagnast jafnframt við að meta útbreiðslu sjúkdómsins. 
Krabbamein í eggjastokkum dreifir sér aðallega til annarra líffæra í grindarholi og kviðarholi. Algengt er að æxlið dreifi sér eftir sogæðum til eitlastöðva í og utan kviðarhols og í vissum tilvikum getur það dreift sér eftir blóðæðum.

Auk skiptingar eftir vefjagerð er sjúkdómnum skipt í eftirtalin fjögur aðalstig eftir útbreiðslu æxlisvaxtar við greiningu: 

  • Stig 1: Æxlið er bundið við eggjastokkana. 
  • Stig 2: Æxlið er bundið við grindarhol. 
  • Stig 3: Æxlið er bundið við grindarhol og kviðarhol. 
  • Stig 4: Æxlið hefur dreift sér út fyrir grindarhol og kviðarhol.                                                      
Um 60% kvenna eru með langt genginn sjúkdóm (stig 3 og 4) við greiningu og er það talin aðalástæða þess hve dánartíðnin er há.


Batahorfur þeirra kvenna sem greinast með sjúkdóminn eru bæði háðar vefjagerð æxlisins og því á hvaða stigi sjúkdómurinn er við greiningu. Almennt má segja að því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betri séu batahorfurnar.


Meðferð

Ef um illkynja æxli er að ræða eru oftast báðir eggjastokkar, eggjaleiðarar og leg fjarlægt með skurðaðgerð. Einnig er venja að fjarlægja mestan hluta netju (omentum), sem er fituvefshengi sem hangir í kviðarholi niður úr þeim hluta ristils sem nefndur er þverristill. Netjan er fjarlægð þar sem hún getur innihaldið lítil æxlismeinvörp, sem erfitt er að uppgötva í aðgerð. Ef æxlið er búið að dreifa sér til lífhimnunnar er eins mikið af æxlisvef fjarlægt og mögulegt er. Skurðaðgerð ein og sér nægir aðeins ef sjúkdómurinn er á fyrsta stigi.

Flestar konur með krabbamein í eggjastokkum þurfa að gangast undir krabbameinslyfjameðferð eftir aðgerð til að draga úr hættu á bakslagi. Stundum er nauðsynlegt að gefa krabbameinslyfjameðferð fyrir aðgerð til að minnka æxlið svo auðveldara verði að fjarlægja það.

Nú orðið er geislameðferð frekar sjaldan beitt gegn eggjastokkakrabbameini.  

Þegar meðferð er lokið tekur við reglubundið eftirlit:

  • Samtal við lækni
  • Kvenskoðun.
  • Blóðprufa fyrir CA-125
  • Ef grunur er um endurkomu er oft gerð myndrannsókn.

Síðkomin áhrif - kynlíf

Kynlíf

Hjá þeim konum sem við greiningu voru ekki komnar í tíðahvörf hættir framleiðsla á kvenhormóninu estrógen og við það fer líkaminn í tíðahvörf. Margar konur upplifa við það slappleika með hitakófi, þurrki og særindum í slímhúð kynfæra, og skapsveiflur. Áhugi á kynlífi getur minnkað. Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að áhugi á kynlífi minnki er nálægð og hlýja áfram mikilvæg. Einnig er mikilvægt að ræða um breytingu á kynlífsáhuga við maka sinn. Fyrir suma getur hjálpað að ræða við lækni eða krabbameinshjúkrunakra@rfræðing um þessi einkenni. Allir hafa kynhvöt og þó svo að viðkomandi eigi ekki maka er sennilegt að hann hafi hugsanir og spurningar sem ræða má við starfsmenn spítalans. Með hormónameðferð er oft unnt að snúa þessum vandamálum við og auka löngun í kynlíf.

Á Landspítalanum er í boði kynlífsráðgjöf hjá hjúkrunar- og kynfræðingi, Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur, sem opin er einstaklingum sem eru þar í meðferð. Hægt er að hafa samband við ritara í síma 543 6800 eða senda tölvupóst á netfangið jonaijon@landspitali.is.

Einnig er hægt að fá ráðgjöf og stuðning hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélaginu í síma 540 1900 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið radgjof@krabb.is.

Tölfræði og lífshorfur

Horfur sjúklinga með eggjastokkakrabbamein eru mjög mismunandi og eru m.a. háðar því á hvaða stigi æxlin uppgötvast svo og hvaða æxlisgerð um er að ræða. Horfur sjúklinga með æxli sem teljast á mörkum þess að vera illkynja (borderline æxli) eru mjög góðar.


Yfirfarið í desember 2020

Fræðsluefni


Var efnið hjálplegt?