Ingibjörg Gréta Gísladóttir 14. feb. 2024

Vísindasjóður Krabba­meinsfélagsins, bylting í krabba­meins­rannsóknum á Íslandi

Vísindafólk hefur lýst því að stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins hafi verið bylting í krabbameinsrannsóknum hér á landi. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að efla rannsóknir hérlendis á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.

Vísindasjóðurinn var stofnaður 16. desember 2015 af Krabbameinsfélagi Íslands, svæðafélögum og stuðningshópum. Stofnframlag sjóðsins, 250 milljónir króna, kom að mestu leyti frá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum þess en auk þess runnu minningarsjóðir tveggja kvenna, þeirra Kristínar Björnsdóttur og Ingibjargar Johnsen inn í Vísindasjóðinn. Síðan hefur sjóðurinn styrkts með dyggum stuðningi almennings og fyrirtækja í fjáröflunum Krabbameinsfélagsins. 

Sjóðurinn hefur sannarlega breytt aðstöðu vísindafólks hér á landi því hann hefur í sjö úthlutunum úthlutað 455 milljónum króna, með 83 styrkjum til 45 rannsókna. 

Styrkjum til krabbameinsrannsókna fylgir alveg einstök hvatning. Við finnum það svo sterkt hversu mikil von er bundin við hverja einustu krónu. Það er þessi von um bætta meðferð, um bætta greiningu og bætt lífsgæði. Og það er þessi hvatning og þetta traust sem drífur okkur áfram á hverjum einasta degi til að gera ennþá betur, til þess að ná raunverulegum árangri - Margrét Helga Ögmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands

Vísindasjóðurinn gegnir lykilhlutverki við að skapa tækifæri til rannsókna á Íslandi sem við getum verið stolt af.