Ása Sigríður Þórisdóttir 31. maí 2021

Einsettu þér að hætta tóbaksnotkun

Í dag er alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn. Af því tilefni hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hrint úr vör árslangri alþjóðlegri herferð með nafnið  ,,Einsettu þér að hætta“ - "Commit to quit".

Herferðin miðar að því að hvetja og styðja milljónir manna út um allan heim til að hætta notkun tóbaks.

Ávinningurinn af því að hætta að nota tóbak er mikill, bæði fyrir hvern einstakling en líka fyrir samfélög og þjóðir á víðtækan hátt. 

Nánar um herferðina á heimsvísu 


Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn
31. maí 2021

31.-mai

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nýlega hrint úr vör árslangri alþjóðlegri herferð með nafnið Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn - ,,Einsettu þér að hætta“ -  „Commit to quit“!



Herferðin miðar að því að styðja við 100 milljónir manna um allan heim í viðleitni þeirra til að hætta notkun tóbaks með ýmsum aðgerðum og stafrænum lausnum. Þetta mun leiða til heilbrigðara umhverfis sem stuðlar að því að hætta tóbaksnotkun með því að:

  • tala fyrir öflugri stefnumörkun sem hvetur til stöðvunar á notkun tóbaks
  • hvetja til aukins aðgengis að þjónustu við þá sem vilja hætta
  • efla vitund um áætlanir tóbaksiðnaðarins
  • valdefla tóbaksnotendur til að ráðast í árangursríkar tilraunir til að hætta í gegnum ,,hætta og vinna“ frumkvæðisverkefni.

COVID-19-heimsfaraldurinn hefur orðið til þess að milljónir tóbaksnotenda óska eftir að hætta. Þrátt fyrir það reynist erfitt að hætta tóbaksnotkun, sér í lagi ef tekið er tillit til aukins félagslegs og efnahagslegs álags af völdum faraldursins.

Á heimsvísu hafa 780 milljónir manna sagst vilja hætta, en aðeins 30% þeirra hefur aðgang að þeim úrræðum sem nýst geta til að sigrast á bæði líkamlegri og andlegri fíkn í tóbak. WHO hyggst, ásamt samstarfsaðilum sínum, útvega fólki þau úrræði og tilföng sem þörf er á til að ráðast í árangursríka tilraun til að hætta.

Að hætta notkun tóbaks hefur samstundis í för með sér mikla heilsufarsbót

Heilsufarsávinningurinn af að hætta notkun tóbaks kemur fram þegar í stað en einnig til lengri tíma litið. Aðeins 20 mínútum eftir að reykingum lýkur, lækkar hjartslátturinn. Innan 12 tíma er kolsýringsmagn í blóði orðið eðlilegt. Eftir 2-12 vikur hefur blóðrás og lungnavirkni batnað. Eftir 1-9 mánuði hefur hósti og mæði minnkað. Að liðnum 5-15 árum hefur hættan á heilablóðfalli minnkað og er orðin á við það sem gerist hjá þeim sem aldrei hafa reykt. Innan tíu ára er u.þ.b. helmingi minni hætta á dauðsfalli af völdum lungnakrabbameins en hjá reykingafólki. Innan 15 ára er hættan á hjartasjúkdómum orðin sambærileg við hættuna hjá þeim sem aldrei hafa reykt.

Bæta verður stefnumörkun og getu WHO í Evrópu í baráttunni gegn notkun tóbaks

Stefnumörkun rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir sem lýtur að ráðstöfunum til að draga úr eftirspurn, hefur enn sem komið er síður verið hrundið í framkvæmd en öðrum atriðum samningsins, en aðeins 8 ríki hafa innleitt bestu starfsvenjur í Evrópu og meirihluti þeirra flokkast sem hátekjuríki.

Ríkisstjórnir ættu að viðurkenna þessa óuppfylltu þörf og bregðast við henni með því að gera hana að hluta í heildstæðri áætlun í tóbaksvarnamálum. Kostnaðarhagkvæmar ráðstafanir sem beinast að þjóðinni í heild sinni og tengjast því að hætta tóbaksnotkun, þurfa að vera forgangsmál hjá ríkjum. Samtímis þarf að hvetja til nýsköpunar og nýta farsímatækni til hins ítrasta í því skyni að auðvelda aðgengi að stórum hópum manna sem erfitt er að ná til.

Stafrænar lausnir til hjálpar þeim 1,3 milljörðum tóbaksnotenda sem vilja hætta

WHO hefur sett upp nýtt Aðgengisfrumkvæði til að hætta tóbaksnotkun, sem veitir fólki m.a. ókeypis aðgengi að stafrænni ráðgjöf. WHO hefur tekið upp samstarf við fyrirtæki á borð við Facebook, WhatsApp og SoulMachines til að efla vitundarvakningu og styðja við tóbaksnotendur sem vilja hætta með aðstoð spjallvera og stafrænna heilbrigðisstarfsmanna. Til dæmis getur Florence, stafrænn ráðgjafi sem byggir á gervigreind, aðstoðað fólk við að þróa persónulega áætlun til að hætta tóbaksnotkun og leiðbeint þeim um tiltæk fartækjasmáforrit og gjaldfrjálsar tóbaksvarnaleiðbeiningar gegnum síma í hverju landi fyrir sig. Einnig veitir fartækjasmáforritið Quit Challenge á WhatsApp þeim notendum sem hafa skráð sig, ókeypis aðgang að skilaboðum um hvernig megi hætta, beint í farsíma þeirra.

Þessi og önnur alþjóðleg og svæðisbundin tól til að hætta notkun tóbaks verða sýnd sem hluti af átakinu tengdu Alþjóðlega tóbakslausa deginum 2021, þar sem áréttað verður enn og aftur að öflug þjónusta við þá sem vilja hætta bætir heilsu fólks, bjargar mannslífum og sparar fjármuni.

Láttu verða af því - upplýsingar og aðstoð til að hætta að nota tóbak:


Að hætta notkun tóbaks hefur samstundis í för með sér mikla heilsufarsbót. Heilsufarsávinningurinn af að hætta notkun tóbaks kemur fram þegar í stað en einnig til lengri tíma litið. 


Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

14. des. 2023 : Bleikasta slaufan sló í gegn

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira