Anna Margrét Björnsdóttir 16. jan. 2024

Starfsfólk Krabbameins­félagsins toppaði Everest­fjall í stiga­áskorun

  • Stigaáskorun

Forvarnir eru einn meginþátturinn í starfi Krabbameinsfélagsins. Regluleg hreyfing er einn af þeim þáttum sem rannsóknir sýna að dragi úr líkum á krabbameinum. Við sem vinnum hjá félaginu viljum auðvitað fara fram með góðu fordæmi og einn af föstum liðum desembermánaðar í húsakynnum Krabbameinsfélagsins er því jólastigaáskorunin. Í ár kleif starfsfólk Krabbameinsfélagsins 9.225 metra í sameiningu, eða sem jafngildir rúmlega því að ná toppi Everest.

https://www.youtube.com/watch?v=qB-l11RMy0s

Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsu okkar. Hún dregur úr líkum á ýmsum langvinnum sjúkdómum, þar á meðal krabbameinum, ásamt því að hafa víðtæk jákvæð áhrif á starfsemi líkamans og getur bætt líkamlega og andlega líðan. Eitt af meginverkefnum Krabbameinsfélagsins er markviss fræðsla og upplýsingagjöf með það að markmiði að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins með og eftir krabbamein. Við leitum sífellt nýrra leiða til þess að miðla þeirri þekkingu sem við búum yfir til almennings og nýtum hvert tækifæri til að hvetja til heilbrigðra lífshátta, en það á ekki síður við innan veggja félagsins. Undanfarin tvö árin hefur desembermánuður því verið helgaður skemmtilegri áskorun sem snýr að því að koma aukinni hreyfingu inn í jólamánuðinn.

Sleppum lyftunni og tökum frekar stigann

„Eitt það einfaldasta sem við getum gert til að auka daglega hreyfingu er að sleppa lyftunni og taka frekar stigann og við í fræðslu og forvörnum erum dugleg að minna fólk á það, segir Steinar B. Aðalbjörnsson, sérfræðingur í fræðslu og forvörnum. „Svipuð keppni var á mínum fyrri vinnustað og var ástandið þar á tímabili orðið þannig að ef fólk stóð og beið eftir lyftunni þegar ég nálgaðist þá skipti það jafnvel um skoðun og fór frekar í stigann. Það má kannski segja að starfsfólk fræðslu og forvarna sé gangandi áminning um þetta hjá Krabbameinsfélaginu. Hvort það sé gott eða ekki skal ósagt látið,“ segir Steinar og hlær.

Að sögn Steinars varð desember fyrir valinu vegna þess að jólin eru tími þar sem hinar hversdagslegu venjur fara úr skorðum og við leyfum okkur meira. „Ef það er eitthvað eitt sem við mælum með að fólk haldi í á aðventunni, þá er það hreyfingin. Ef við pössum okkur á því að halda hreyfingunni áfram þá komum við miklu betur út úr jólavertíðinni.“ Desember var því helgaður stigagöngu hjá Krabbameinsfélaginu og áhuginn meðal starfsfólks stóð ekki á sér. „Móttökurnar voru afar góðar, enda allt saman frábært fólk sem vinnur hér sem er upp til hópa annt um heilsuna og með keppnisskapið í lagi.“

Rúmlega 10 ferðir á dag

Áskorunin gengur út á að fara sem flestar ferðir fram og til baka á milli fyrstu og fjórðu hæðar, en hæðaraukningin er 9 metrar. Starfsfólk heldur sjálft utan um fjölda ferða og skráir í excelskjal. Með því er hægt að fylgjast með hvað keppinautarnir eru að fara margar ferðir og auðvitað reyna að skáka þeim. Ótvíræðir sigurvegarar keppninnar í ár voru þær Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, og Álfheiður Haraldsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknasetri Krabbameinsfélagsins, en þær fóru 164 og 163 ferðir hvor um sig, eða að meðaltali rúmlega 10 ferðir á dag.

Aðrir þátttakendur í áskoruninni létu þó ekki sitt eftir liggja og í heildina fór hópurinn 1.025 stigaferðir. Samanlögð vegalengd var 9.225 metrar, eða sem jafngildir einni ferð upp á tind Everestfjalls. Við erum full eldmóðs eftir þennan frábæra árangur og erum strax byrjuð að undirbúa þátttöku í næstu hreyfiáskorun, Lífshlaupinu, sem hefst 7. febrúar næstkomandi. Við hvetjum að sjálfsögðu aðra vinnustaði, einstaklinga og hópa til að skrá sig til þátttöku og nýta meðbyrinn sem hvatningu til aukinnar hreyfingar á nýju ári.