Anna Margrét Björnsdóttir 17. ágú. 2023

Regluleg hreyfing dregur úr krabbameinsáhættu

Rannsóknir sýna að ákveðnir þættir sem tengjast lífsvenjum fólks geta ýmist aukið áhættuna á krabbameinum eða dregið úr henni. Meðal þessara þátta er líkamleg hreyfing. Regluleg hreyfing minnkar líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi, brjóstum og legbol auk þess sem ástundun hreyfingar stuðlar að heilsusamlegri líkamsþyngd og hefur þannig óbein verndandi áhrif þar sem a.m.k. 13 tegundir krabbameina tengjast yfirþyngd og offitu.

Hreyfing hefur víðtæk áhrif á ýmis líffræðileg ferli í líkamanum sem þekkt er að tengjast krabbameinsáhættu. Þar á meðal eru áhrif á blóðsykurgildi, insúlín og fleiri hormón auk áhrifa á bólgu- og ónæmisþætti og það hve hratt fæðan fer í gegnum meltingarveginn.

Þó að öll hreyfing sé sannarlega betri en engin þá tengjast krabbameinsverndandi áhrif hennar magni; því meiri hreyfing, því betra og lykilatriði að hún sé stunduð reglulega. Miðað er við að samanlögð vikuleg hreyfing fullorðinna sé ekki minni en 2 1/2 klst. af meðalákefð (hjartsláttur og öndun verða hraðari en í hvíld, t.d. rösk ganga) eða 1 1/4 klst. af mikilli ákefð (verulega aukinn hjartsláttur og hraðari öndun). Þessi tími getur dreifst hvernig sem er yfir vikuna í styttri eða lengri samfelldan tíma í senn.

Þegar talað er hér um hreyfingu er ekki bara átt við það þegar íþróttatengd hreyfing er stunduð eða farið í líkamsræktarsali heldur líka hreyfingu í daglegu lífi þegar t.d. heimilisstörf og garðvinna eru unnin rösklega og þegar ferðamátar sem krefjast líkamlegrar virkni eru nýttir í stað bíla.

Svo má ekki gleyma því að regluleg hreyfing dregur ekki bara úr líkum á krabbameinum heldur einnig ýmsum öðrum sjúkdómum, hefur fjölþætt jákvæð áhrif á líkamsstarfsemina og getur almennt bætt líkamlega og andlega líðan og aukið lífsgæði.

Það er aldrei of seint að auka hreyfingu í daglegu lífi og um að gera að reyna meðvitað að finna leiðir til að vera líkamlega virkari í daglegu lífi. Til dæmis velja að taka stigann í stað lyftu, leggja bílum lengra frá inngangi verslana eða finna sér skemmtileg áhugamál sem hafa hreyfingu í för með sér. 

Hugmyndir til að auka hreyfingu í daglegu lífi:

  • Kynntu þér nærumhverfið (eða önnur hverfi) gangandi, hlaupandi eða hjólandi; uppgötvaðu nýjar leiðir, farðu um götur til að skoða hús, garða og byggingar og fylgstu með framkvæmdum og öðru í umhverfinu.

  • Ef þú átt ekki hund til að viðra er hugsanlegt að þú getir ,,fengið lánaðan“ hund hjá nágranna eða einhverjum sem þú þekkir.

  • Farðu reglulega út að ganga og fylgstu með áhrifum árstíðanna, t.d. í gróðri, fuglalífi og veðri.

  • Biddu vin, nágranna eða fjölskyldumeðlim að koma með þér í útivist, fara í reglulegar sundferðir eða að prófa eitthvað nýtt t.d. dans, folf, golf eða annað sem þér finnst spennandi.

  • Taktu frá tíma nokkur skipti í hverri viku til að stilla á hressa tónlist sem þú heldur upp á og dansaðu, gakktu á staðnum eða hreyfðu þig á anna hátt á meðan. 

Ítarefni: