Anna Margrét Björnsdóttir 20. sep. 2023

Krabbameinstilfellum fjölgar en dánartíðni áfram lækkandi

Í lok júní voru birtar nýjar tölur á heimasíðu Krabbameinsfélagsins um nýgengi* krabbameina, hlutfallslega lifun og dánartíðni, ásamt fleiru. Tölfræðin nær nú til og með árinu 2022. Helstu niðurstöður sýna að nýgengi lækkar eða stendur í stað ef leiðrétt er fyrir aldri, en heildarfjöldi tilfella eykst. Hins vegar eykst lifun og dánartíðni fer áfram lækkandi hjá báðum kynjum.

Ef leiðrétt er fyrir aldri mælist nýgengi krabbameinsgreininga hjá körlum 572 af 100.000 íbúum fyrir árin 2018-2022 og hefur farið lækkandi frá því að það mældist hæst 674 af 100.000 á árabilinu 2003-2007. Á sama tímabili hefur nýgengi krabbameinsgreininga kvenna hækkað lítillega og mælist nú 528 af 100.000 fyrir árin 2018-2022.

Að því sögðu er fyrirséð að heildarfjöldi krabbameinstilfella fari fjölgandi og muni fjölga enn frekar á komandi árum. Spár fram til ársins 2040 gefa vísbendingu um 52% aukningu krabbameinstilfella miðað við 2020. Rétt er að hafa í huga að einstaklingsbundin áhætta er ekki að aukast, en hlutfallsleg fjölgun aldraðra og mannfjöldaþróun leiða af sér fjölgun tilfella. Aukningin mun reyna á heilbrigðiskerfið og samfélagið allt og því brýnt að slaka ekki á kröfunum til að við viðhöldum þeim góða árangri sem hefur náðst og höldum áfram að bæta okkur.

Horfur þeirra sem greinast með krabbamein hafa batnað mjög mikið og hafa tölur um fimm ára hlutfallslega lifun meira en tvöfaldast frá því að skráning hófst. Niðurstöður sýna einnig að dánartíðni fer áfram lækkandi hjá báðum kynjum.

Image_1695226423243

Ísland í samanburði við Norðurlöndin

Norðurlöndin státa af krabbameinsskrám í hæsta gæðaflokki sem ná til allra íbúa landanna. Samanburður á milli Norðurlandanna er aðgengilegur fyrir alla á internetinu, fyrir tilstilli samnorræns gagnagrunns, NORDCAN, sem inniheldur upplýsingar um krabbamein frá öllum Norðurlöndunum, auk Færeyja og Grænlands. Aldursstöðlun er beitt til þess að mismunandi aldurssamsetning þjóðanna skekki ekki niðurstöður.

Image_1695226649157

Hjá körlum sést nýgengi krabbameina hjá Íslandi svipa til Finnlands og Svíþjóðar, en er nokkru lægra en hjá Danmörku og Noregi. Hvað konur varðar þá eru Svíþjóð og Finnland með lægsta nýgengið, Ísland og Noregur nokkuð hærra, en Danmörk með hæsta nýgengið. Þó árlegt aldursstaðlað nýgengi hafi ekki verið að breytast allra síðustu árin þá fjölgar greindum tilfellum jafnt og þétt vegna mannfjöldaaukningar. Hins vegar er dánartíðnin að lækka og mælist næstlægst á eftir Svíþjóð hjá körlum. Ísland er aftur á móti með næsthæstu dánartíðnina á eftir Danmörku hvað konur varðar, en rétt er að geta þess að hún er á pari við Noreg og Svíþjóð.

Image_1695226682752

* Nýgengi er skilgreint sem fjöldi nýgreindra einstaklinga með ákveðið mein í tilteknu þýði og á tilgreindu tímabili. Hið sama á við um dánartíðni, sem er þá fjöldi látinna í tilteknu þýði. Í tölfræði Krabbameinsfélagsins eru upplýsingarnar staðlaðar miðað við 100 þúsund íbúa, auk þess sem aldursstöðlun er beitt til þess að mismunandi aldurssamsetning þjóða skekki ekki niðurstöður við samanburð.