Ingibjörg Gréta Gísladóttir 14. feb. 2024

Krabbameinsrannsóknir gagnast okkur öllum

Framfarir í greiningu og meðferð krabbameina byggjast á vísindastarfi. Þess vegna leggur Krabbameinsfélagið áherslu á að vera leiðandi afl á sviði vísinda og krabba­meins­rannsókna, bæði með eigin rannsóknum og styrkjum til annarra. Nýlegar rannsóknir varpa m.a. ljósi á leiðir til að auka þátttöku í skimunum fyrir krabbameinum og gildi þess að einstaklingssníða meðferð við brjóstakrabbameinum. 

Markvissar leiðir til að auka þátttöku í brjóstaskimun.

Rannsóknin sem er norræn nær til ársins 2020. Borin var saman mæting í brjóstaskimun í Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi. Einnig var borin saman mæting við innflytjendur af öðrum uppruna en vestrænum.

Á rannsóknartímabilinu kom í ljós að:

  • Aðeins 61% innfæddra kvenna nýttu sér boð í brjóstaskimun (mun lægra en í hinum löndunum).

  • Innflytjendur af öðrum uppruna en vestrænum nýttu sér boð í brjóstaskimun enn síður (aðeins 25% þeirra sem fengu boð, mættu á Íslandi)

  • Noregur og sérstaklega Ísland skera sig úr hvað varðar kostnað við skimun, bókun tíma og tungumál boðsbréfa.

  • Danmörk og Finnland bjóða gjaldfrjálsa skimun

  • Ísland er eina landið sem úthlutar ekki bókaðan tíma og sendir ekki út boðsbréf á erlendu tungumáli.

Tilraun með gjaldfrjálsa skimun

Krabbameinsfélagið gerði tilraun árið 2019 með að bjóða konum sem var í fyrsta skipti boðið í skimun, gjaldfrjálsa skimun. Könnun meðal þátttakenda leiddi í ljós að 23% kvenna sem þáðu í fyrsta skipti boð í leghálsskimun sögðust ekki hafa mætt nema af því að skimunin var gjaldfrjáls og 9% kvenna sem fengu í fyrsta skipti boð í brjóstaskimun sögðu hið sama.

Hvað getum við lært af rannsókninni?

Í fyrsta lagi getum við gert brjóstaskimun gjaldfrjálsa, sérstaklega til að efnaminni konur hafi möguleika á að nýta sér boð í skimun. Í dag kostar brjóstaskimun tæpar 6.000 kr. (fer eftir greiðslustöðu viðkomandi hjá sjúkratryggingum) en leghálsskimun hjá Heilsugæslunni er nánast ókeypis, eða um 500 kr.

Í öðru lagi að úthluta konum bókuðum tímum.

Mergur málsins er sá að með aukinni þátttöku í brjóstaskimunum er hægt að auka batalíkur kvenna með því að greina meinin á fyrri, læknanlegri stigum. Það eru framfarir sem Krabbameinsfélagið vinnur að.

Hér má nánar má lesa um niðurstöður rannsóknar um Markvissar leiðir til að auka þátttöku í brjóstaskimun. (Hlekkur á grein við heitið).

Einstaklingssniðin meðferð 

Ný íslensk rannsókn, unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands, staðfestir mikilvægi einstaklingssniðinnar meðferðar út frá arfgerð og öðrum þáttum sem einkenna einstaklinginn.

Rannsóknin staðfestir mikilvægi nálgunar fyrir tvo aðskilda hópa kvenna með brjóstakrabbamein. Annars vegar eru það konur með stökkbreytingar í BRCA2-geninu og hins vegar konur sem fá brjóstakrabbamein 40 ára eða yngri en bera ekki slíkar stökkbreytingar.

Tvennt kom í ljós sem er óvenjulegt hjá þessum hópum:

  • Í fyrsta lagi, að þótt vel sé þekkt að hormónajákvæð brjóstakrabbamein spái fyrir um betri horfur en hormónaneikvæð, þá er sambandið öfugt hjá hópunum tveimur og hjá þeim tengjast hormónajákvæðu æxlin verri horfum.

  • Í öðru lagi, að þótt venjulega sé hagstæðara að greinast með mein sem hafa lága æxlisgráðu, þá gildir það ekki fyrir þessa tvo hópa.

Óvænt uppgötvun öfugs sambands

Í einni rannsókn Krabbameinsfélagsins fyrir um 10 árum síðan var gerð óvænt uppgötvun hjá arfberum BRCA2-stökkbreytingar með brjóstakrabbamein. Hún var sú að hjá þeim var öfugt samband milli framgangs krabbameinsins og þess að æxlin væru hormónajákvæð og með fáar frumuskiptingar, þ.e. öfugt samband miðað við það sem áður var þekkt

Þessir forspárþættir sem almennt spá fyrir um góðar horfur, tengdust verri horfum hjá þessum sérstaka hópi kvenna.

Niðurstöðurnar voru staðfestar í rannsókn á stærri íslenskum hópi þremur árum síðar, og í kjölfarið hafa birst rannsóknir frá mörgum löndum sem staðfesta að þær gilda einnig fyrir konur af ýmsu þjóðerni, þar á meðal norræn rannsókn sem stýrt var af Krabbameinsfélaginu.

Hvað veldur öfugu sambandi ungra tilfella?

Fyrir atbeina hinnar nákvæmu íslensku krabbameinsskrár ásamt umfangsmiklum upplýsingum úr fyrri rannsóknum var hægt að svara þessari spurningu, því af öllum konum sem fengu brjóstakrabbamein árin 1980-2004 höfðu 85% tekið þátt og verið prófaðar fyrir íslensku landnemastökkbreytingunni í BRCA2-geninu. Þar af höfðu 6,7% meðfædda BRCA2 stökkbreytingu og hlutfallið var mun hærra, eða 21%, meðal kvenna sem höfðu greinst 40 ára eða yngri.

En þegar þessi 21% sem höfðu BRCA2 stökkbreytingu voru tekin út úr hópi ungu kvennanna var hið öfuga samband enn til staðar, svo að ljóst er að það skýrist ekki af stökkbreytingunni.

Hvað getum við lært af rannsókninni?

Með þessa vitneskju að leiðarljósi eru næstu skref að kanna hvaða önnur atriði í genamengi ungu kvennanna gætu skýrt þessa hegðun æxlanna og jafnframt að leita að orsökum hinnar sérstöku hegðunar æxla sem tengjast BRCA2-stökkbreytingum.

Hér má lesa nánar um mikilvægi einstaklingssniðinnar meðferðar (hlekkur á greinina)

Að lokum

Framfarir rannsókna eins og þeirra sem hér hefur verið greint frá, fjölga lifendum. Það er ávinningur fyrir okkur öll og sú hvatning sem liggur að baki öllum vísindarannsóknum sem Krabbameinsfélagið tekur þátt í.