Ingibjörg Gréta Gísladóttir 24. apr. 2024

Krabbameinsgáttin: lausn sem er notendavæn og styður við þátttöku sjúklinga í meðferð

  • Krabbameinsgáttin, notendavæn

Niðurstöður rannsóknar um notagildi Krabbameinsgáttarinnar styðja við mikilvægi þess að hún sé notuð í þjónustu við einstaklinga í krabbameinsmeðferð.

Krabbameinsgáttin er stafræn heilbrigðisþjónusta fyrir einstaklinga í krabbameinsmeðferð sem hefur verið þróuð og tekin í notkun á Landspítala. Hún samanstendur af spurningalistum til fjarvöktunar, fræðsluefni fyrir sjúklinga og samskiptagátt milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanna. Sjúklingar hafa aðgang að gáttinni í gegnum Heilsuveru.

Krabbameinsgáttin var innleidd árið 2021-2022 og samhliða innleiðingunni var framkvæmd rannsókn á notagildi hennar eða fýsileika og birtust niðurstöðurnar í desember 2023 í JMIR Formative Research.

Einkenni og líðan

Þátttakendur í rannsókninni voru 79 einstaklingar sem voru í krabbameinslyfjameðferð á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga 11B LSH. Rannsóknin var með svokölluðu fyrir og eftir sniði þar sem sjúklingar notuðu gáttina í 9 vikur að meðaltali og svöruðu spurningalistum fyrir og eftir notkun gáttarinnar.

Þeir sem notuðu gáttina svöruðu spurningalistum um einkenni og líðan sem voru vaktaðir meðan á meðferðinni stóð. Alls voru sendir 874 listar á allan hópinn og var 685 af þeim svarað eða 78%. Þátttakendurnir fengu líka sent fræðsluefni um þau einkenni sem þeir merktu við á matslistunum auk fræðsluefnis um sjúkdóminn og meðferðina. Þátttakendur fengu sendan 41 fræðslublöðung að meðaltali . Þriðjungur hópsins notaði gáttina til að senda skilaboð til heilbrigðisstarfsfólks.

Öryggistilfinning

Rúmlega 80% þeirra sem luku rannsókninni töldu gáttina vera gagnlega, veita sér öryggistilfinningu og vildu nota hana áfram. Tæplega helmingur (47%) taldi hana bæta gæði þjónustunnar og helmingur taldi að aðstandendur gætu haft gagn af sambærilegri gátt. 

Notaðir voru staðlaðir spurningalistar til að meta nothæfni gáttarinnar. Hæsta mögulega skor er 100 og reyndist nothæfni í þessari rannsókn vera 72.3 sem þykir gott. Á sama hátt var metið hversu ásættanleg gáttin var með kvarða sem gefur mest 5 stig. Ásættanleiki í rannsókninni reyndist vera tæpir 4 sem einnig þykir gott.

Þátttaka í eigin meðferð hefur áhrif

Í ljós kom líka að þátttaka sjúklinganna í eigin meðferð jókst marktækt, einkenni minnkuðu og lífsgæði bötnuðu yfir tímabilið. 

Við frekari greiningu gagna kom í ljós að þeir sem tóku meiri þátt í sinni meðferð voru líklegri til að vera með minni verki, kvíða, þunglyndi og vanlíðan. Aftur á móti voru þeir sem tóku minni þátt í sinni meðferð líklegri til þess að vera með mjög mikil þreytueinkenni, lystarleysi, mæði og kvíða.

Það sem hafði áhrif á hversu fýsileg gáttin þótti var trú þátttakenda á eigin getu í sinni umönnun, aldur þeirra, fræðsluefni sem þeir fengu sem boðið var upp á, hversu mikil áhrif einkenni höfðu á daglegt líf sem og hversu oft þátttakendur mátu einkenni sín. Með hækkandi aldri var fýsileikinn minni, en eftir því sem áhrif einkenna á daglegt líf voru meiri, trú á eigin sjálfsumönnunargetu meiri og fengin fræðsla var meiri, jókst fýsileiki gáttarinnar að mati þátttakenda.