Anna Margrét Björnsdóttir 21. nóv. 2023

Förum sparlega með orkuna okkar

Þreyta og magnleysi er ein algengasta aukaverkun sem fólk í krabbameinsmeðferð upplifir. Talið er að 9 af hverjum 10 upplifi þreytu á einhverjum tímapunkti í ferlinu, allt frá greiningu og oft í langan tíma eftir að meðferð lýkur. Þreytan getur haft mikil áhrif á getu fólks til þess að taka þátt í almennri virkni og hefur oft mikil áhrif á lífsgæði fólks.

Krabbameinsþreyta er ólík annarri þreytu að því leyti að hún virðist ekki lagast við hvíld og svefn. Þreytan er stöðug og viðvarandi og smæstu verk virðast óyfirstíganleg. Þegar verst lætur getur jafnvel verið erfitt að lesa og horfa á sjónvarpið. Starfs- og námsgeta fólks minnkar og fæstir treysta sér í fullt starf til að byrja með. Þetta getur haft áhrif á fjárhag og það getur valdið fólki auknum áhyggjum.

Þreytan er ekki einungis líkamleg heldur getur hún einnig verið vitræn og gert það að verkum að fólk á erfitt með að hugsa, tala og taka ákvarðanir. Einbeitingarerfiðleikar eru algengir og fólk upplifir minnistruflanir. Þreytan getur verið sálfélagsleg því hún getur dregið úr getu til þess að gera það sem fólk hefur gaman af, hitta vini og fjölskyldu og stunda áhugamál. Margir verða óþolinmóðir gagnvart fólkinu í kringum sig og það er ekki óalgengt að fólk forðist að vera í kringum aðra og einangri sig með tímanum.

Orsakir krabbameinstengdrar þreytu eru oft óþekktar. Mögulega er eitthvað í krabbameininu sjálfu sem veldur henni, enda er þreytan stundum ein af einkennunum sem fá fólk til þess að leita til læknis til að byrja með. Krabbameinsmeðferð og aukaverkanir hennar geta orsakað þreytu og er vel þekkt að fólk upplifi þreytu á meðan á meðferð stendur. Verkir og/eða sálræn vanlíðan geta haft áhrif á orkustigið okkar, sem og svefntruflanir og framtaksleysi. Allt er þetta algengt meðal krabbameinsgreindra.

Það er ýmislegt sem við getum gert sjálf til þess að auka orkuna. Við fáum orku úr fæðunni sem við borðum og því er mikilvægt að huga að hollu mataræði og borða oft yfir daginn og drekka nóg af vatni. Líkamleg virkni er líklega besta leiðin til að vinna gegn þreytu. Hreyfing og virkni getur hjálpað okkur að viðhalda fyrri styrk og byggja okkur upp eftir krabbameinsmeðferð. Rannsóknir hafa einnig sýnt að regluleg hreyfing geti dregið úr aukaverkunum meðferðar og því er ávinningurinn af hreyfingu í gegnum allt ferlið töluverður. Svefninn er leið líkamans til þess að hvílast og endurnýja orkuna. Góður nætursvefn er lykilatriði þegar orkan er lítil.

Þegar orkan er af skornum skammti þá er mikilvægt að skoða hvernig maður getur fengið sem mest út úr þeirri orku sem er til staðar og þá er lykilatriði að spara orkuna. Það er afar mikilvægt að átta sig á hversu virkur maður getur verið og hversu mikið maður þarf að hvíla sig á móti og finna jafnvægi. Þá daga sem manni finnst maður vera fullur orku er ekki gott að fara fram úr sér heldur halda sig innan þess ramma sem maður hefur sett sér varðandi virknina sem maður ræður við. Með tímanum er síðan hægt að bæta hægt og rólega við virknina.

Þegar við ætlum okkur að spara orku, þá getur verið gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Forgangsröðun: Forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi þeirra, hvort það sé tímapressa á að klára þau, eftir því sem mann langar mest að gera o.s.frv.
  • Hófstilling: Forðast að ætla sér of mikið. Læra inn á hversu mikið maður ræður við að gera og hversu mikla hvíld maður þarf á milli verkefna og setja sér raunhæf markmið.
  • Skipulagning: Búa til verkefnalista, horfa á verkefnin sem liggja fyrir og skipuleggja sig fram í tímann með forgangsröðun og hófstillingu í huga. Mikilvægt er að skipuleggja líka hreyfingu, hvíld og ánægjulegar athafnir.
  • Réttar líkams-/vinnustellingar: Þegar við beitum líkamanum rangt þá reynum við meira á hann en við þurfum að gera og eigum í meiri hættu á að slasa okkur. Þetta á bæði við um hreyfingu og verkefni innan heimilis.