Anna Margrét Björnsdóttir 20. sep. 2023

Ert þú með fjölskyldusögu um briskrabbamein?

Húsfyllir var á Nauthóli síðastliðinn fimmtudag þegar Krabbameinsfélagið, Landspítalinn og Háskóli Íslands stóðu fyrir málþingi um briskrabbamein. Á málþinginu var tilkynnt um nýja þjónustu fyrir alla þá sem eru í hárri áhættu fyrir að fá briskrabbamein. Samhliða því tekur Landspítalinn þátt í mjög stórri fjölþjóðlegri rannsókn sem ber heitið PRECEDE og stefnir að því að auka fimm ára lifun fólks sem fær krabbamein í bris í 50% á næstu 10 árum.

Briskrabbamein er afar illvígt mein. Það er sem betur fer ekki algengt, ca 2% af greindum krabbameinstilvikum á hverju ári, en hins vegar er það fjórða algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina hjá báðum kynjum. Ekki hafa orðið miklar breytingar á undanförnum árum á fimm ára lifun fólks með briskrabbamein og framfarir í meðferð hafa ekki verið miklar og málið því brýnt. Árangur af meðferð þeirra veltur fyrst og fremst á því að það náist að greina þau snemma.

Stefna að því að auka fimm ára lifun

Í ljós hefur komið að með eftirliti með fólki sem er í aukinni áhættu á að fá krabbamein í bris er hægt að greina meinin í auknum mæli á meðan þau eru enn skurðtæk. Slíkt eftirlit er því bylting fyrir þá einstaklinga sem það á við um. Landspítalinn er þegar byrjaður að innleiða þetta eftirlit og tekur eins og áður segir samhliða þátt í mjög stórri fjölþjóðlegri rannsókn sem ber heitið PRECEDE, þar sem m.a. verður fylgst með árangri af eftirlitinu.

Á málþinginu fjölluðu íslenskir og erlendis sérfræðingar um þessar framfarir, sem í stuttu máli felast í árlegri blóðprufu og segulómun af brisi. Dr. Diane Simeone, forystukona PRECEDE, var ein þeirra sem hélt erindi á málþinginu. Rannsóknarhópurinn sem stendur að baki PRECEDE er mjög metnaðarfullur og stefnir á að auka fimm ára lifun fólks sem fær krabbamein í bris í 50% á næstu 10 árum.

Sértækt eftirlit – á þetta við um þig?

Um sértækt eftirlit er að ræða, sem er miðað að fyrirfram skilgreindum hópi. Sérfræðingar hjá erfðaráðgjöf Landspítala munu meta hverjir falla undir eftirlitið, en stærsti þátturinn er sterk fjölskyldusaga um briskrabbamein og fólk með arfgengar breytingar á borð við BRCA-2 í genum og fjölskyldusögu um briskrabbamein.

Mikilvægt er að ná til þeirra sem málið varðar og því eru þeir sem ofangreint á við um hvattir til að hafa samband við erfðaráðgjöf spítalans í gegnum vefsíðu erfðaráðgjafar Landspítalans.