Anna Margrét Björnsdóttir 5. sep. 2023

Eins og að steini sé kastað í vatn

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. Flestir vilja leggja sitt af mörkum til að vera til staðar, en mörgum reynist flókið að átta sig á með hvaða hætti þeir geti orðið að liði. Lóa Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, hvetur okkur til að huga að styrkleikum okkar og hafa trú á því að orð okkar og gjörðir geti skipt máli fyrir þann sem greinist með krabbamein og ástvini hans.

„Ég segi stundum að það að greinast með krabbamein sé svolítið eins og að steini sé kastað í vatn,“ segir Lóa. „Sá sem fær krabbameinið verður fyrir steininum og svo gárast vatnið í kring og dýpstu gárurnar eru þær sem eru næst steininum. Þeir sem standa þeim krabbameinsgreinda næst þurfa stuðning, rétt eins og sá sem greinist, og þeir sem eru í ytri gárunum hafa oft meira tækifæri til að veita hann.“

Upplifun sem gleymist seint

Lóa tók þátt í sínum fyrstu Styrkleikum á Egilsstöðum síðastliðna helgi og segir það hafa verið einstaka upplifun. „Krabbameinsfélagið hefur boðið upp á ráðgjöf og stuðning á Egilsstöðum frá árinu 2020 og ég hef því farið austur einu sinni í mánuði að jafnaði síðan þá. Þjónustan hefur verið mjög vel nýtt og yfirleitt hitti ég fólk á nokkrum stöðum, þ.e. Egilsstöðum, Reyðarfirði og Neskaupsstað og stundum hef ég farið víðar. Mér þykir orðið mjög vænt um Austurlandið og finnst bara stórkostlegt fólk sem býr þarna. Ég var að skipuleggja ferð austur í tengslum við ráðgjöfina og datt í hug að nýta tækifærið og bjóða fram krafta mína á Styrkleikunum. Ég lagði fyrr af stað og byrjaði á viðtölunum en var svo áfram yfir helgina.“

Allir sem tóku þátt í Styrkleikunum fyrir austan virðast vera á einu máli um að þar hafi einstaklega góður andi svifið yfir vötnum og Lóa tekur heilshugar undir það. „Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta yrði svona mögnuð upplifun. Það var svo mikil hlýja yfir öllu, falleg orka og samkennd í loftinu. Margir þekktust innbyrðis og hefðu getað labbað fyrir fleiri en eitt lið, enda gerðu það sumir. Þetta er upplifun sem maður gleymir seint.“

Pílagrímsganga og helgistund

„Það var eins og fólk færi bara svo mikið heilshugar og af ásetningi inn í þennan sólarhring,“ segir Lóa. „Þetta minnti um margt á pílagrímsgöngu, þar sem þú leggur af stað og það geta komið upp alls konar aðstæður á leiðinni sem er táknrænt fyrir það hvernig lífið er. Framan af fyrsta degi á Styrkleikunum var einmitt rosalega hlýtt og gott veður og svo fór að hellirigna, en á endanum stytti aftur upp og sólin braust í gegnum skýin. Það var svo táknrænt.“

Ljósastundin stendur alltaf upp úr á hverjum Styrkleikum og hefur henni verið lýst sem heilandi upplifun, en þar gefst fólki tækifæri til að skreyta ljósker og skrifa á þau orð fyrir þann sem hefur greinst með krabbamein eða minnast þeirra sem hafa fallið frá. Á síðastliðnum Styrkleikum var farin sú leið að koma ljóskerunum fyrir inni í stóru tjaldi. „Fólk gat komið og sest á bekk og horft á kertin sem loguðu alla nóttina. Það var einhvern veginn ákveðin helgi yfir þessu. Ég fór sjálf inn í tjaldið um nóttina og sat heillengi ein og horfði á ljósin, hlustaði á regnið dynja á tjaldinu og hugsaði hlýtt til þeirra sem kertin voru ætluð og ástvina þeirra. Það var mjög sérstök og góð stund.“

Getum gert meira en okkur grunar

Styrkleikarnir eru dýrmætt tækifæri fyrir aðstandendur til að sýna stuðning í verki, sem Lóa undirstrikar að sé mjög mikilvægt. „Þarna er verið að koma saman fyrir einstaklinginn sem hefur greinst eða þann sem er fallinn frá vegna krabbameins. Leggja á sig að labba yfir heila nótt, í alls konar veðri, fyrir þig eða þinn nánasta ástvin. Oft getur verið erfitt fyrir fólk í ytri hringjunum, eins og vinnufélaga, vini eða ættmenni, að átta sig á hvernig það getur stutt við viðkomandi. Þátttaka á Styrkleikunum gefur svo sannarlega skýr skilaboð um væntumþykju og vilja til þess að vera til staðar.

Fyrir þann sem gengur í gegnum það að greinast með krabbamein getur það að upplifa umhyggju og stuðning hjálpað meira en okkur sennilega grunar. Í raun sýna rannsóknir að þegar sá sem greinist upplifir umhyggju og stuðning frá umhverfinu hefur það að mörgu leiti jákvæð áhrif á hvernig honum vegnar í veikindunum. Það sama á við nánustu ástvini sem hafa svo sannarlega þörf fyrir stuðning líka. En að sama skapi getur það þyngt róðurinn verulega og ýtt undir erfiðar tilfinningar þegar fólk upplifir þetta ekki frá umhverfi sínu. Það er í raun eitthvað sem margir þurfa sérstaklega að vinna úr í viðtölum hjá okkur.“

Styrkleikarnir okkar

Styrkleikarnir bera nafn með rentu að mati Lóu. „Fólk var að tjá sig um að þetta væri hreinlega að gefa þeim kraft og orku til að halda áfram, að ákveðin úrvinnsla ætti sér stað á meðan fólk gengi hringina og að það væri að upplifa einhvers konar heilun. Það kom líka fram að tilfinningar væru blendnar, sérstaklega hjá þeim sem höfðu misst ástvin, en að þó væri svo dýrmætt að fá rými til að koma saman og minnast manneskjunnar. Þannig að Styrkleikar eru í raun mjög fallegt nafn fyrir þennan viðburð.“

Nafngiftin er síðan ekki síður áminning um að öll búum við yfir styrkleikum, sem geta nýst okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur. „Þegar það kemur að því að okkur langi að styðja við aðra manneskju er einmitt kannski góð hugmynd að íhuga styrkleikana sína og hvað hver og einn hefur fram að færa,“ segir Lóa. „Kannski ertu góður hlustandi, kannski áttu auðvelt með að fá aðra til að hlæja eða ert góður í einhverju sem varðar praktíska hluti. Kannski geturðu boðist til að koma á vissum degi og fara með viðkomandi út að ganga. Þegar við förum í gegnum erfiða tíma í lífinu áttum við okkur einmitt oft best á því að fólkið í kringum okkur býr yfir mismunandi kostum og styður við okkur frá ólíkum hliðum.“

Það er erfitt að vera í þeim sporum að þurfa að biðja um hjálp og reynsla okkar hjá Krabbameinsfélaginu sýnir að við getum ekki lesið hugsanir og oft er gagnlegra að spyrja einfaldlega hvers viðkomandi þarfnast því þarfirnar geta verið ólíkar á milli einstaklinga og sveiflast á milli tíma. „Fólk er ekki að ætlast til þess að við lögum allt eða segjum eitthvað rosalega djúpviturt,“ segir Lóa. „Það vill bara að við hlustum og viðurkennum tilfinningar þess. Að það sé einhver sem er tilbúinn að vera með þeim þótt það sé erfitt. Eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að hafa trú á því að við skiptum máli og átta okkur á því að við höfum eitthvað fram að færa. Nýtum styrkleikana okkar.“