Anna Margrét Björnsdóttir 20. sep. 2023

Covid-19 ekki haft marktæk áhrif á nýgreiningar krabba­meins á Íslandi

Aðstæður í alheimsfaraldrinum Covid-19 höfðu mikil áhrif á heilbrigðiskerfi um allan heim. Aðalfókus heilbrigðisyfirvalda árið 2020 voru ýmsar aðgerðir og áætlanir tengdar því að hefta útbreiðslu faraldursins og sinna meðferð veikra einstaklinga. Faraldurinn hafði mismunandi áhrif á þjóðirnar og sömuleiðis voru aðgerðir til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins ólíkar á milli landa. Sem dæmi má nefna að eftirliti og skimunum fyrir krabbameinum var frestað um óákveðinn tíma sem gat dregið úr greiningum á krabbameini. 

Ísland tekur þátt í samnorrænni rannsókn þar sem áherslan er að bera saman nýgengi krabbameina yfir tímabilið þegar Covid-19 faraldurinn herjaði á alheimsbyggð. Í apríl 2022 var birt grein úr rannsókninni þar sem borin voru saman mynstur nýrra krabbameinstilfella og tilkynningar um greiningar á milli Norðurlandanna yfir mánuði ársins 2020 í samanburði við árið 2019 (2017-2019 fyrir Færeyjar og Ísland).

Image_1695229041628

Í apríl og maí 2020 fækkaði greiningum nýrra krabbameinstilfella á öllum Norðurlöndunum borið saman við fyrri ár (nema í Færeyjum). Mesta lækkunin sást í Svíþjóð (lækkun um 31,2%) og þar á eftir Finnland, Danmörk og Noregur. Hins vegar var lækkunin á Íslandi ekki tölfræðilega marktæk. Hér á landi voru vísbendingar um að tölur hefðu tekið við sér á seinni hluta árs 2020 sem bættu að mestu upp fyrir lækkun á fyrri hluta árs, á meðan í Danmörku, Noregi og Finnlandi sást ekki eins mikil endurheimt á fjölda greininga á seinni hluta 2020, en fór þó að svipa til þess fjölda sem greindist árið 2019. Mögulegar ástæður fyrir lækkunum á nýgreindum krabbameinstilfellum gætu verið vegna alvarleika faraldursins, tímabundin stöðvun á skimunum fyrir krabbameinum og breytingar á heilsumiðaðri hegðun.

Sami rannsóknahópur skoðaði einnig nýlega hvort krabbameinssjúklingar sem greinast með Covid-19 fengu alvarlegri útkomur Covid-19 borið saman við hið almenna þýði. Þá sást að í fyrstu bylgju faraldursins voru krabbameinssjúklingar í Noregi og Danmörku í aukinni áhættu á að greinast með Covid-19 miðað við hið almenna þýði. Ef skoðað er allt árið 2020 þá voru krabbameinssjúklingar í virkri meðferð líklegri til að greinast jákvæðir. Á Íslandi fannst hins vegar engin aukin áhætta meðal krabbameinssjúklinga á að greinast jákvæðir fyrir Covid-19.