Anna Margrét Björnsdóttir 16. jan. 2024

Á döfinni hjá aðildar­félögunum

Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins eru 27 talsins og starfa hringinn í kringum landið. Starfsemin er mismunandi á milli félaga, en öll eiga þau það sameiginlegt að vinna í þágu einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Hjá mörgum félaganna er boðið upp á fjölbreytta dagskrá og við hvetjum öll til að setja sig í samband við félagið í sinni heimabyggð og kanna hvað er á döfinni.

Aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins fjölgar með hverju árinu og eru þau í dag 27 talsins. Það er ánægjulegt að fylgjast með blómlegu starfi þeirra og enn ánægjulegra að geta sagt frá því að það er meðal annars öflugur stuðningur Velunnara sem gerir þeim kleift að halda úti fjölbreyttri dagskrá hringinn í kringum landið. Við hvetjum öll til að setja sig í samband við félagið í sinni heimabyggð og kanna hvað er í boði, en hér að neðan fjöllum við um það sem er á döfinni hjá nokkrum aðildarfélögum.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON)

KAON auglýsti á dögunum helstu námskeið og viðburði vorannar 2024 og kennir þar ýmissa grasa. Í samstarfi við Sjálfsrækt er til dæmis boðið upp á Yoga Nidra tíma og fimmtudaginn 25. janúar næstkomandi standa Þórunn Sif Héðinsdóttir og Jóhanna Mjöll Björnsdóttir iðjuþjálfar fyrir kynningu á helstu hjálpartækjum og stuðningsþjónustu hjá Akureyrarbæ. Þá fer hópastarf aftur af stað í janúar og býður félagið m.a. upp á stuðningshópa fyrir karla og konur, leshóp og hóp sem sinnir skapandi handverki. Af námskeiðum má nefna fræðslunámskeið fyrir einstaklinga sem eru með krabbamein eða hafa nýlokið krabbameinsmeðferð og fjarnámskeið í markmiðasetningu og jákvæðri sálfræði sem er haldið hjá Krabbameinsfélagi Íslands þann 22. janúar og opið öllum.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Krabbameinsfélag Árnessýslu

Krabbameinsfélag Árnessýslu heldur áfram með fjölbreytta starfsemi sína á nýju ári. Boðið er upp á margvíslega endurhæfingu allan veturinn og skiptist hún í hreyfingu, iðju, sálgæslu og teygjur og slökun. Stuðningsviðtöl á vegum Krabbameinsfélags Íslands eru í boði annan hvern miðvikudag og jafningjahópar hittast að jafnaði einu sinni í mánuði. Handavinnuhópurinn Upprekjurnar hittist í húsnæði félagsins einu sinni í viku og bjóða öll velkomin, auk þess sem boðið er upp á vikulega Yoga slökun í samstarfi við Yoga sálir á Selfossi.

Nánari upplýsingar má nálgast hér:

Kraftur – Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein

Kraftur heldur úti öflugri starfsemi allan ársins hring fyrir fólk á aldrinum 18-45 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Þrír jafningjahópar – StelpuKraftur, StrákaKraftur og AðstandendaKraftur – hittast að jafnaði á tveggja vikna fresti og nýtur skemmtilegrar samveru í bland við góða fræðslu. Einu sinni í mánuði er einnig boðið upp á flot í umsjá Unnar Valdísar Kristjánsdóttur hjá flothetta.is. Kraftur stendur sömuleiðis reglulega fyrir stökum viðburðum sem eru opnir öllum félagsmönnum, auk þess sem Perlað af krafti viðburðurinn er á dagskrá 21. janúar næstkomandi, en það er viðburður sem er opinn gestum og gangandi og er liður í vitundarvakningu og fjáröflun félagsins.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.