Anna Margrét Björnsdóttir 5. sep. 2023

Á bleiku skýi alla helgina

  • Styrktarleikarnir_2023_0064_snyrt_resize

Styrkleikarnir voru haldnir í þriðja sinn dagana 26. og 27. ágúst síðastliðinn, í þetta sinn á Egilsstöðum. Þátttakendur gengu rúmlega 5 hringi í kringum landið, ýmist í blíðskaparveðri eða hellidembu. Við fengum Elínu Rán Björnsdóttur til að segja okkur frá hennar upplifun af Styrkleikunum, en hún kom að undirbúningi þeirra sem sjálfboðaliði og er einnig aðstandandi.

„Ég hef gaman af því að skipuleggja og hef komið að undirbúningi á mörgum viðburðum, aðallega í tengslum við íþróttir,“ segir Elín Rán. „Ég tók að mér að vera hópstjóri liðanna síðustu vikurnar fyrir Styrkleikana. Mitt hlutverk var að hvetja fleiri til að taka þátt. Þar kom tengslanetið í gegnum íþróttahreyfinguna að góðum notum. Fólk var komið með alla anga út og það bættust við nokkur lið á lokametrunum.“ Þátttakan var frábær, en samtals tóku 11 lið þátt og er áætlað að um 1.000 manns hafi mannað gönguvaktir þennan sólarhring sem leikarnir stóðu yfir.

Krabbamein snertir okkur öll

Bróðir Elínar Ránar, Ólafur Björnsson sjúkraþjálfari, greindist með mergæxli árið 2018, þá einungis 36 ára gamall. „Þetta er ólæknandi krabbamein og hann er þegar búinn að fara í eina háskammtameðferð. Þegar það kom í ljós í byrjun júlí að hann þyrfti aftur að fara í háskammtameðferð vegna samfalls í hryggjarliðum ákváðum við fjölskylda og vinir hans að stofna lið í hans nafni. Okkur langaði til að sýna honum hvað hann ætti stórt og gott bakland. Hann var alveg á bleiku skýi alla helgina og er enn.“

Auk þess að ganga með Liðinu hans Óla tók vinnustaður Elínar Ránar einnig þátt sem lið. „Þetta var kynnt á starfsmannafundi og svo var bara búið að manna sólarhringinn á núlleinni. Krabbamein snertir okkur öll og það voru einhvern veginn allir að tengja við málstaðinn. Það var gríðarlega mikil ánægja með þátttökuna eftir á,“ segir Elín Rán og er í engum vafa um að þátttaka í Styrkleikunum sé gott hópefli.

Smellt til skiptis á fleiri en eitt lið

„Það sem er svo gaman við svona viðburð eins og Styrkleikana er að sjá hvað fólk getur unnið mikið saman og fá að tilheyra hópi sem lætur eitthvað magnað gerast. Það var algjörlega magnað að sjá hvað margir vildu taka þátt.“ Óli er sjúkraþjálfari fyrir meistaraflokk bæði í körfu og fótbolta og bæði liðin mættu og gengu fyrir hann. „Fótboltaliðið var nýbúið að spila til sigurs og ferðast allan daginn, en þeir mættu svo bara um kvöldið og gengu til að verða tvö um nóttina. Algjörlega magnaðir.“

Styrkleikarnir snúast um samfélag og samstaðan í bæjarfélaginu er eitt af því sem stendur upp úr hjá Elínu Rán eftir helgina. „Samfélagið er svo lítið að við þekkjumst svo mörg í þvers og kruss. Sumum fannst erfitt að tilheyra bara einu liði og smelltu til skiptis á lið sem þeim fannst þeir líka tilheyra.“ Þakklætið er Elínu Rán líka ofarlega í huga. „Oft finnst manni maður vera svolítið einn að burðast með hlutina og það hafði gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur, og ekki síst Óla, að sjá hversu margir standa á bak við okkur. Það voru forréttindi að fá að vera hluti af þessu.“

Untitled-design_1693909459650