Aðstandendur
Það er áfall fyrir flesta þegar einhver nákominn greinist með krabbamein.
Fjölskylda og vinir ganga oft í gegnum erfiða og flókna tíma í kjölfar krabbameinsgreiningar hjá ástvini sínum. Þeir taka þá gjarnan á sig aukna ábyrgð og skyldur en setja sínar eigin þarfir til hliðar. Það getur reynst flókið að huga að þörfum þess nákomna sem greinst hefur með krabbamein á sama tíma og þú ert að takast á við alls konar tilfinningar og breytingar í lífinu. Það er mikilvægt að gefa sér leyfi og finna rými til að huga að eigin líðan þótt það geti reynst flókið fyrir marga á köflum.
Hér má lesa um ýmislegt sem algengt er að aðstandendur upplifa og ráð til að takast á við lífið í breyttum aðstæðum.
Fyrstu viðbrögð
Það er misjafnt hvernig fyrstu viðbrögð koma fram hjá aðstandendum þegar einhver nákominn greinist með krabbamein. Sumir dofna tilfinningalega og stundum líkamlega líka sem er eðlilegt viðbragð við áfalli. Dofinn getur jafnvel hjálpað á meðan við erum ekki tilbúin að takast á við sterkar tilfinningar. Aðrir upplifa hins vegar strax mikið tilfinningalegt uppnám sem er einnig eðlilegt við þessar kringumstæður. Oft er vonin og vissan um að hægt verði að lækna krabbameinið strax sterk sem skilar sér þá oft í meiri ró og yfirvegun. Það er því ekki hægt að tala um að einhver ein viðbrögð séu rétt eða röng en það að þekkja litróf þeirra getur hjálpað við að skilja betur það sem þú og aðrir í kringum þig eruð að upplifa.
Ótti, kvíði og óvissa
Það er eðlilegt að upplifa rússíbana af tilfinningum og hugsunum sem sveiflast gjarnan á milli vonar og vonleysis. Þú gætir fundið fyrir ótta og kvíða fyrir því sem framundan er eða gagnvart hlutum sem venjulega vekja ekki með þér kvíða. Oft er það óvissan sem einkennir lífið fyrst á eftir greiningu sem veldur kvíða.
Depurð, sorg, einmanakennd
Það er líka eðlilegt að upplifa depurð eða jafnvel sorg yfir aðstæðunum og því getur fylgt minni áhugi eða gleði fyrir hlutum sem yfirleitt eru nærandi og gefandi fyrir þig. Mörgum líður eins og lífið standi allt í einu í stað á meðan það heldur áfram sinn vanagang hjá öðrum og þá er eðlilegt að finna til einmanakenndar og söknuðar eftir lífinu eins og það var áður en ástvinurinn greindist
Stutt í tárin eða reiði
Á meðan margir upplifa sig vera viðkvæma og að stutt sé í tárin eftir áfallið eru aðrir sem upplifa reiði sem getur ýmist beinst að heilbrigðiskerfinu, sér sjálfum, þeim sem greinist með krabbameinið eða bara lífinu og almættinu. Oft er hægt að finna reiðinni farveg á uppbyggilegan hátt og stundum gefur hún þann kraft sem þarf til að taka skrefin áfram. Ef reiðin verður hins vegar viðvarandi ástand getur hún orðið lamandi og haft margvísleg neikvæð áhrif á lífið. Þá getur verið rétt að leita sér faglegrar hjálpar. Vert er að hafa í huga að oft er reiðin afleiðing af ótta, kvíða eða sorg.
Eirðarleysi, minnistruflanir og líkamleg einkenni
Það er mjög algengt að aðstandendur finni fyrir eirðarleysi og eigi erfitt með muna hluti og einbeita sér. Þetta er því eitthvað sem er eðlilegt að upplifa eftir áföll og þegar streitan er mikil og full ástæða til að sýna sér umburðarlyndi. Stundum koma viðbrögðin líka fram í líkamanum, til að mynda í vöðvaspennu eða vöðvabólgu, þreytu, mæði, svefntruflunum eða einkennum frá hjarta. Það er alltaf ráðlegt að leita til læknis ef einkenni ganga ekki yfir og mikilvægt að leita sér strax hjálpar vegna einkenna frá hjarta.
Þakklæti og ný sýn
Ekki má gleyma að þrátt fyrir að margar erfiðar hugsanir og tilfinningar geti fylgt því að eiga ástvin sem greinist með krabbamein upplifa margir líka jákvæðar tilfinningar eins og þakklæti fyrir að krabbameinið uppgötvaðist eða þakklæti fyrir stuðning og kærleika frá vinum og vandamönnum eða heilbrigðisstarfsfólki eða öðrum fagaðilum. Það er líka algegnt að fólk tjái sig um að sýnin á það sem skiptir mestu máli í lífinu skerpist við svona reynslu.
Að fá fast land undir fæturnar
Eins og áður sagði bregðumst við á mismunandi hátt við áföllum en það getur líka haft áhrif á viðbrögðin hvernig sambandinu við einstaklinginn sem greinist með krabbameinið er háttað. Einnig getur skipt máli hversu alvarleg eða umfangsmikil veikindi hans eru og hvernig honum líður almennt í veikindunum og í meðferðinni vegna þeirra.
Margir tala um að erfiðasti tíminn sé á meðan óvissa ríkir um það sem tekur við eftir að krabbamein er greint. Oft þarf að framkvæma vissar rannsóknir áður en hægt er að ákveða hvernig framhaldinu verði háttað. Þetta á þó ekki við í öllum tilvikum.
Þegar niðurstöður liggja fyrirog búið er að leggja upp áætlun varðandi hvernig skuli meðhöndla krabbameinið upplifir fólk gjarnan vissan létti og lýsir því þannig að það fá aftur fast land undir fæturnar þótt eðlilegt sé að upplifa sveiflur í andlegri líðan í ferlinu sem tekur við og jafnvel eftir að því er lokið.

Að vera aðstandandi er ótrúlega krefjandi en ekki síður mikilvægt. Einn daginn ertu tengiliður við fjölskyldu og vini. Annan daginn þarftu að vera í þögninni og vera koddinn sem hægt er að kúra upp að og vera til staðar.
Það er því mikilvægt að hlúa að sér því þú hjálpar ekki mikið ef þú ert á vondum stað.
- Magnús Viðar Heimisson
Nokkur ráð til aðstandenda
Þegar álagið er mikið hættir aðstandendum til að vanrækja sig. Það er hins vegar afar mikilvægt að þú mætir í tíma sem þú átt hjá læknum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki og munir að taka inn þín lyf og vítamín. Ef þú finnur fyrir einkennum eins og verk fyrir brjósti, hjartsláttartruflunum, verkjum frá stoðkerfi eða svefntruflunum er mikilvægt að leita til læknis. Mundu að þín heilsa er jafn mikilvæg og heilsa ástvinar þíns.
Krabbameinsfélagið býður upp á fræðslu, ráðgjöf og stuðning við aðstandendur, hvort sem ástvinur er nýgreindur með krabbamein eða er með langvinnan sjúkdóm.
Þjónusta af ýmsum toga, meðal annars:
- Hjálp við að takast á við erfiðar hugsanir og tilfinningar
- Upplýsingar um réttindi í veikindunum
- Upplýsingar um líkamleg og sálræn einkenni sem eðlilegt er að upplifa
- Fræðsla um úrræði og þjónustu sem gæti gagnast
- Ráðgjöf um hvernig best er að tala við börn um krabbamein
- Ráðgjöf um samskipti við aðra varðandi veikindin
Hér má lesa nánar um ráðgjöf Krabbameinsfélagsins
Aðstandendur geta einnig leitað stuðnings hjá eftirfarandi:
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.