Að læra að þiggja og biðja um hjálp
Fyrir marga er það stórt skref og mikill lærdómur að biðja um hjálp þegar ástvinur greinist með krabbamein.
Það er mikilvægt að þú reynir að setja niður fyrir þig hvar þín mörk liggja varðandi hversu mikil og mörg verkefni þú treystir þér til að taka að þér. Þá getur verið gott að þú áttir þig á því hvernig þú getur aðstoðað ástvin þinn; hvaða hluti þú vilt sjá um og hvað væri gott að fá aðstoð við. Þú þarft ekki að sinna öllu en aðrir gætu ef til vill aðstoðað við ákveðin verkefni. Fyrir marga er þetta stórt skref og mikill lærdómur. Það gæti til að mynda verið gott að fá aðstoð með börn, innkaup, útréttingar og matseld.
Það er ekki alltaf auðvelt að þiggja aðstoð frá öðrum en mundu að með því að huga að þér, eykur þú líkur á að halda eigin heilsu, sem er einnig mikilvægt fyrir ástvin þinn. Með því að þiggja aðstoð gætir þú einnig létt á mögulegri sektarkennd hans vegna aukins álags sem þú ert undir, tengt veikindum hans.
Það getur komið upp að fólk hafi ekki möguleika til að hjálpa eða sýni ekki vilja til þess. Þetta gæti sært tilfinningar þínar eða reitt þig til reiði og verið sérstaklega erfitt ef fólk sem þú hafðir vænst þess að fá stuðning frá, veitir hann ekki. Þú gætir velt fyrir þér ástæðum þess að sá hinn sami býður ekki fram hjálp. Algengar ástæður gætu verið þessar:
- Glímir við vandamál eða skortir tíma.
- Óttast krabbamein eða á að baki erfiða reynslu tengda krabbameini.
- Telur að það rétta sé að halda sig fjarri þegar aðrir eiga í vanda.
- Áttar sig ekki á þeim erfiðleikum sem þú gengur í gegnum eða skynjar ekki að þú þarfnast aðstoðar nema þú tjáir það skýrt.
- Óöryggi tengt því að sýna umhyggju sína.
Ef þú færð ekki þá aðstoð sem þú telur þig þarfnast frá manneskju sem þú hafðir vænst hennar frá, gæti verið gott að ræða hreinskilnislega við hinn sama og útskýra hvers þú þarfnast. Þú gætir líka ákveðið að láta það eiga sig, en ef að tengslin við manneskjuna eru þér mikilvæg, er sennilega best að segja viðkomandi hvernig þér líður. Það getur komið í veg fyrir að gremja eða streita safnist upp og skaði samband ykkar.
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.