Áttaðu þig á eigin líðan
Það er mikilvægt að þú gefir þér svigrúm til að skoða hugsanir þínar og líðan því það hjálpar þér og ástvini þínum að átta ykkur á hvers þú þarfnast á hverjum tíma fyrir sig.
Það gæti til að mynda verið gott að spyrja sjálfa(n) sig spurninga eins og;
- Hvernig þér líður.
- Hvað gæti mögulega létt þér lundina eða lyft upp andanum.
- Hvort þú gætir haft gott af því að létta á þér og tala við einhvern sem þú treystir eða einhvern utanaðkomandi.
- Hvort þú hafir gott af því að hitta og tala við fólk eða hvort þú kýst heldur að eiga rólegan tíma með sjálfum þér. Kannski þarftu á hvoru tveggja að halda, allt eftir því hvað gengur á í lífi þínu.
Þú mátt bogna
Mundu að þú hefur líka leyfi til að bogna og fá útrás fyrir tilfinningar þínar. Þú þarft ekki alltaf að fela þær því oft vill sá sem hefur greinst fá að vera áfram í hlutverki sem t.d. maki, foreldri eða vinur.
Þið þurfið ekki alltaf að hlífa hvert öðru. Það er mikilvægt að þú gefir þér svigrúm til að skoða hugsanir þínar og líðan, meðal annars vegna þess að það hjálpar þér og ástvini þínum að átta ykkur á hvers þú þarfnast á hverjum tíma fyrir sig. Það gæti til að mynda verið gott að spyrja sig reglulega hvernig þér líður og hvers þú þarfnast mest þessa dagana. Það getur hjálpað meira en þig grunar að koma því sem þú ert að hugsa og upplifa í orð, til dæmis við góðan vin, einhvern sem þú treystir eða fagaðila.
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.