Eftir að meðferð lýkur
Það er mikilvægt að vita að jafnvel þó að ástvinur þinn hafi lokið krabbameinsmeðferð, getur hann áfram þurft að glíma við fylgikvilla eða aukaverkanir krabbameinsmeðferðar.
Hann gæti þurft að aðlagast ýmsum breytingum sem kunna að hafa orðið á lífi hans og hugsanlega getur hann ekki horfið aftur til hins eðlilega lífs eins fljótt og hann hélt.
Þegar krabbameinsmeðferð er lokið vilja flestir leggja krabbameinið að baki sér og halda áfram með lífið. Samt sem áður er mjög algengt að á þessum tímapunkti spyrji aðstandendur sig: „Hvað á ég að gera núna?".
Margir þurfa í raun að aðlagast því að lífið falli aftur í eðlilegar skorður. Orka þín og einbeiting hefur miðast við að aðstoða og vera til staðar fyrir ástvin þinn og nú þegar meðferð er lokið geta tilfinningarnar verið blendnar. Þú gleðst yfir því að meðferðinni er lokið en á sama tíma geta áhrif langvarandi álags farið að gera vart við sig. Sumir tala um að eftir að meðferð lýkur komi tilfinningarnar og viðbrögðin jafnvel sterkar fram þar sem þá skapist svigrúmið til að byrja að melta þær. Þú gætir einnig fundið fyrir kvíða eða óróa þar sem að meðferð er nú hætt.
Hafir þú ýtt þínum þörfum til hliðar eftir að ástvinur þinn geindist, gæti núna verið gott að hugsa um hvernig þú getur sem best hugað af sjálfum þér og gefið þér svigrúm til þess.
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.