Beint í efni

Um Vís­inda­sjóð

Vísindasjóðurinn var stofnaður 16. desember 2015 af Krabbameinsfélagi Íslands, svæðafélögum og stuðningshópum. Jafnframt runnu tvær erfðagjafir inn í sjóðinn; Minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur, fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna. Stofnfé sjóðsins var rúmar 250 milljónir króna. 

Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, m.a. með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. 

Skipulagsskrá Vísindasjóðs.

Úthlutunarreglur Vísindasjóðs.

Úthlutanir fyrri ára.

Með hliðsjón af því stofnframlagi sem kom úr sjóði Kristínar Björnsdóttur er sérstaklega tekið fram að sjóðurinn styrkir rannsóknir krabbameina í börnum og unglingum og aðhlynningu barna sem hafa greinst með krabbameins.

Rynkebysjóður SKB

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) hefur gert samkomulag við Krabbameinsfélag Íslands og Vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands um meðferð umsókna og úthlutun styrkja úr Rynkebysjóði SKB. Sjóðurinn varð til við áheitasöfnun Team Rynkeby Ísland á árunum 2017–2021. SKB naut afraksturs áheitasöfnunarinnar og 80 milljónum skyldi varið til rannsókna á krabbameinum hjá börnum. 

Við úthlutun styrkja úr Rynkebysjóðnum er unnið eftir skipulagsskrá, starfs- og úthlutunar­reglum VKÍ og starfsreglum Vísindaráðs KÍ eins og við á, með þeirri breytingu að styrkir úr sjóðnum skulu notaðir til vísindarannsókna á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum barna með krabbamein.

Hvert verkefni getur fengið úthlutað að hámarki 10 milljónum á hverju ári, að hámarki í þrjú ár. Athygli er vakin á að hægt er að sækja um vegna sömu verkefna í Rynkebysjóð SKB og Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins.

Fjármögnun Vísindasjóðs

Krabbameinsfélagið fjármagnar sjóðinn með styrkjum og gjöfum frá almenningi og fyrirtækjum.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins
Kennitala sjóðsins:  620316-1800
Skógarhlíð 8, 105 Reykjavík

Fyrirspurnum má koma á framfæri á netfangið visindasjodur@krabb.is.