Áfengi

Neyta skal áfengis í hófi ef þess er neytt á annað borð. Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á tengsl milli áfengisneyslu og nokkurra tegunda krabbameina, auk fjölmargra annarra sjúkdóma.

Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á tengsl milli áfengisneyslu og nokkurra tegunda krabbameina (1, 2). Því hefur áfengisneysla verið flokkuð sem þekktur krabbameinsvaldur hjá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnuninni (IARC). Um flest krabbamein gildir að því meira sem drukkið er og því lengri tíma sem drykkjan nær yfir því meiri líkur eru á að fá áfengistengt krabbamein. Fyrir krabbamein í höfði og hálsi eykst áhættan verulega ef reykt er samhliða. Talið er að um 3,5% dauðsfalla vegna krabbameins megi rekja til áfengisneyslu, samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum (3).

Er áfengisdrykkja krabbameinsvaldur?

Já. Það er enginn vafi á því að áfengisdrykkja getur valdið að minnsta kosti sjö mismunandi krabbameinum: Í munni, vélinda, koki, barkakýli, lifur, ristli og endaþarmi, og brjóstum. Öll áfengisneysla eykur hættu á krabbameini. Því meira áfengi sem drukkið er þeim mun meiri krabbameinsáhætta. Að minnka áfengisdrykkju eða - sem er enn betra - að sleppa henni alveg dregur því úr krabbameinsáhættu. 

Veldur áfengisdrykkja fleiri sjúkdómum en krabbameini?

Já. Vitað er að áfengisdrykkja getur valdið ýmsum öðrum sjúkdómum en krabbameini, til dæmis skorpulifur og briskirtilsbólgu. Áfengi er skaðlegt í hvaða magni sem er hvað varðar krabbamein. Alþjóðleg viðmið hafa verið sett fyrir takmarkanir á áfengisneyslu: Um það bil einn staðlaður drykkur á dag fyrir konur og tveir á dag fyrir karla. Sé meira magn drukkið en þessi viðmið getur það skaðað næstum öll líffæri og kerfi í líkamanum. Mögulegar afleiðingar þess að neyta áfengis í meira magni en ráðleggingar segja til um er meðal annars heilablóðfall, hjartabilun, andleg vandamál og hegðunarvandamál eins og þunglyndi, ofbeldi, minnistap, geðveiki, hvítblæði í börnum mæðra sem drekka á meðgöngu og lifrarsjúkdómar. Áhættan eykst eftir því sem drukkið er meira. 

Áfengisdrykkja er ennfremur stórhættuleg við stjórnun ökutækja og við leik og störf sem krefjast mikillar einbeitingar. Konur ættu alls ekki að neyta áfengis á meðgöngu og þegar þær hafa barn á brjósti. Áfengi getur einnig verið hættulegt sé þess neytt með tilteknum lyfjum. Áfengir drykkir eru oft orkuríkir og takmörkun neyslu þeirra eða - enn betra - algjört bindindi stuðlar að þyngdartapi eða að viðhaldi eðlilegrar líkamsþyngdar og um leið minni hættu á krabbameini. Hægt er að nota sérstakan áfengishitaeiningareikni til að finna fjölda hitaeininga í hinum ýmsu áfengu drykkjum.  

Auka allir áfengir drykkir krabbameinsáhættu?

Áfengi í hvaða formi sem er getur aukið krabbameinsáhættu, þar sem áfengi sem slíkt veldur skaða. Helstu gerðir áfengra drykkja eru léttvín, bjór og sterkt áfengi, en allir drykkir sem innihalda áfengi geta valdið krabbameini. Áfengir drykkir innihalda mismikið af áfengi. Mikilvægt er að ljóst sé að sumt sterkt áfengi getur innihaldið óvenjuhátt alkóhólhlutfall og sumar bjórtegundir geta haft hátt alkóhólhlutfall. 

Hvers vegna veldur áfengisdrykkja krabbameini?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að áfengi veldur krabbameini. Líklegt er að mismunandi tegundir krabbameins orsakist af mismunandi ástæðum, til dæmis: 

  • Etanól og asetaldehýð: Áfengi (etanól) er umbreytt í líkama okkar í efnasambandið asetaldehýð. Bæði etanól og asetaldehýð eru krabbameinsvaldandi.
  • Skorpulifur: Áfengi skaðar lifrarfrumur og getur valdið sjúkdómnum skorpulifur, sem eykur líkur á að fá krabbamein.
  • Hormón: Áfengi getur aukið magn sumra hormóna, eins og estrógens. Mikið magn af estrógeni eykur hættu á brjóstakrabbameini. 

Hvað ef ég drekk áfengi og reyki tóbak?

Tóbaksreykingar ásamt áfengisdrykkju er sérlega varhugaverð blanda og margfaldar krabbameinsáhættu, þ.e. áhættan verður meiri en samanlögð áhættan af reykingum og áfengi. Áfengisdrykkja gerir vefjunum í munni og koki auðveldara að taka upp krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyknum. Þetta er ein af ástæðum þess að fólk sem bæði drekkur og reykir margfaldar vefjaskaðann og er í sérstaklega mikilli hættu á að fá krabbamein í munni og koki (efri hluta öndunarvegar) og í vélinda (efri hluta meltingarvegar).

Er hægt að minnka krabbameinsáhættu með því að hætta að drekka áfengi?

Að hætta eða draga verulega úr áfengisdrykkju minnkar krabbameinsáhættu eftir að nokkur ár hafa liðið, en eyðir áhættunni ef til vill ekki alveg, það er háð því hversu mikið og hve lengi hefur verið drukkið. Þar að auki er vert að muna að tóbaksreykingar með áfengisdrykkju er versta blandan fyrir heilsuna og til að draga úr krabbameinsáhættu ætti bæði að hætta að reykja og að hætta að drekka áfengi.  

Hvort er verra að drekka í óhófi annað slagið eða hóflega daglega?

Regluleg áfengisdrykkja yfir ráðlögðum mörkum gæti leitt til bráðra eða þrálátra heilsuvandamála auk þess að auka krabbameinsáhættu. Óhófleg drykkja annað slagið  sem felur í sér fleiri en 5-6 drykki fyrir karla eða fleiri en 4-5 drykki fyrir konur telst til fyllerís eða ofdrykkju. Slík drykkja er að aukast í sumum löndum, einkum á Írlandi, í Tékklandi og Úkraínu og hún hefur mjög skaðleg áhrif á heilsuna. Fyllerí af og til gæti verið jafnvel verra en regluleg drykkja með tilliti til krabbameinsáhættu. Þrátt fyrir þetta þarf að leggja áherslu á að krabbameinsáhætta eykst eftir því sem magn áfengis er meira og árafjöldinn sem drukkið er. 

Er drykkja áfengis í smáum skömmtum holl fyrir hjartað?

Áhrif áfengisdrykkju á hjartað fara eftir því hversu mikið er drukkið og hversu oft drukkið er. Fleiri en einn drykkur á dag fyrir konur og fleiri en tveir á dag fyrir karla eykur hættu á heilaslagi, hjartabilun og kransæðastíflu og því meira sem er drukkið, þeim mun meira eykst áhættan. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk í mikilli hættu á að fá hjartasjúkdóm, einkum miðaldra karlar, sem drekka hóflega af áfengi (minna en einn drykk á dag fyrir konur og minna en tvo á dag fyrir karla) eiga svolítið minni hættu á að fá kransæðasjúkdóma en þeir sem drekka ekkert. Aftur á móti er ekki ljóst hvort áfengu drykkjunum sjálfum megi þakka þetta. Aðrir þættir, þar með talið heilsusamlegt mataræði, líkamshreyfing, reykleysi og hæfileg líkamsþyngd, draga úr hættu á hjartasjúkdómum með betri árangri en áfengisneysla. Ekki er ráðlagt að bindindismenn byrji að drekka áfengi til að draga úr hættu á hjartasjúkdómum.

Hversu stór er staðlaður skammtur af áfengi?

Sem gróft viðmið inniheldur staðlaður skammtur af áfengi (stundum nefnt einn drykkur) um 10-12 grömm af hreinu áfengi eða etanóli (sjá mynd 1). Athugið að sum veitingahús og sumir vínbarir bera fram stærri drykki en staðlar segja til um. Þar fyrir utan er munur milli Evrópulanda í ætluðum  stærðum og styrkleika staðlaðra áfengisskammta.

Mynd 1: Staðlaður skammtur af áfengi inniheldur um 10-12 grömm af hreinu etanóli (heimild: pixhook - iStockphoto.com)

Frá vinstri til hægri: 10-12 grömm af hreinu etanóli eru í 280-330 ml af bjór, 150-180 ml af kampavíni, 30-40 ml af viskíi eða öðru sterku áfengi, 60-80 ml af líkjör og 100-120 ml af rauðvíni. 

Hversu mikið er hægt að minnka krabbameinsáhættu með því að takmarka áfengisneyslu?

Því minna sem drukkið er af áfengi því minni verður krabbameinsáhættan. Almennt á við að krabbameinsáhættan hjá körlum sem drekka minna en tvo áfenga drykki (um 20 g af etanóli) á dag og konur sem drekka minna en einn á dag er 6% minni en hjá fólki sem drekkur meira áfengi. Sérstaklega er mikill munur ef áfengum drykkjum er fækkað úr fjórum eða fleirum daglega í einn eða færri á dag, sem minnkar hætta á lifrarkrabbameini um 21%, hættu á ristils- og endaþarmskrabbameini um 31% og hjá konum minnkar hættan á brjóstakrabbameini um 30%. Lífshættir eins og heilsusamlegt mataræði, eðlileg líkamsþyngd og regluleg hreyfing eru oft hlutar af lífsháttum sama fólks og getur verið erfitt að aðskilja áhrif hvers þáttar um sig. Mesti ávinningur næst með því að tileinka sér heilsusamlega lífshætti. (Meiri upplýsingar má sjá í köflunum um hæfilega líkamsþyngd, líkamshreyfingu og mataræði .)  

  1. IARC Working Group on the Evaluation of Carcinogenic Risks to Humans. Alcohol consumption and ethyl carbamateExit Disclaimer. IARC Monographs on the Evaluation of Carcinogenic Risks in Humans 2010;96:3-1383.2.
  2. IARC Working Group on the Evaluation of Carcinogenic Risks to Humans. Personal habits and indoor combustions. Volume 100 E. A review of human carcinogens.Exit Disclaimer IARC Monographs on the Evaluation of Carcinogenic Risks in Humans 2012;100(Pt E):373-472.3.
  3. Nelson DE, Jarman DW, Rehm J, et al. Alcohol-attributable cancer deaths and years of potential life lost in the United States. American Journal of Public Health 2013;103(4):641-648.

Var efnið hjálplegt?