Konur

Mælt er með brjóstagjöf þar sem hún er talin minnka krabbameinsáhættu. Takmarka skal notkun tíðahvarfahormóna vegna aukinnar hættu á tilteknum krabbameinum.

Brjóstagjöf

Brjóstagjöf telst til heilsusamlegra athafna. Sterkar vísbendingar hafa komið fram um að hægt sé að minnka krabbameinsáhættu með því að taka upp heilsusamlegan lífsstíl hvað varðar mataræði og hegðun. Meðal Evrópuþjóða er áætlað að þeir einstaklingar sem hafa tekið upp hollan lífsstíl, sem felur í sér að fylgt er ráðleggingum um forvarnir gegn krabbameini, séu í 18% minni hættu á að fá krabbamein samanborið við þá sem ekki haga lífi sínu samkvæmt ráðleggingunum. Áhættuminnkunin var miðuð við heilsusamlegan lífsstíl sem felur í sér að einstaklingur er í eðlilegri líkamsþyngd (líkamsþyngdarstuðull á bilinu 18,4–24,9 kg/m2), forðast orkuríka fæðu sem stuðlar að líkamsþyngdaraukningu, til dæmis sykraða drykki og skyndifæði, reynir hæfilega á sig líkamlega og hreyfir sig minnst hálftíma á dag, borðar aðallega fæði úr jurtaríkinu, takmarkar neyslu á rauðu kjöti, forðast unnar kjötvörur, takmarkar áfengisneyslu og – í tilfelli kvenna – hefur börn sín á brjósti.

Hve lengi ættu börn að vera á brjósti?

Ráðlagt er að börn séu á eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina og fái ekki aðra drykki eða fæðu. Eftir það er mælt með að gefa barni brjóstamjólk samhliða öðrum viðeigandi fæðutegundum í hæfilegu magni. 

Hversu mikið er hægt að minnka krabbameinsáhættu með því að hafa barn á brjósti?

Konur sem hafa börn sín á brjósti í dágóðan tíma eru í minni hættu á að fá brjóstakrabbamein síðar á ævinni en konur sem ekki hafa börn sín á brjósti.
Því lengur sem kona hefur barn á brjósti, þeim mun meiri er vörnin. Áhættuminnkunin er áætluð um 4% fyrir hverja samanlagða tólf mánuði sem barn er á brjósti (samanlagður tími fæst með því að leggja saman öll tímabil þegar kona hefur haft börn á brjósti). Þar að auki dregur meðganga úr líkum á brjóstakrabbameini. Enn fremur er mikilvægt að ítreka að móðurmjólk er besta fæðan fyrir ungbörn og henni fylgja margir heilsufarslegir ávinningar fyrir þau.

Hvernig minnkar brjóstagjöf krabbameinsáhættu?

Hvað það er í brjóstagjafarferlinu sem veitir vörn gegn krabbameini er ekki enn þekkt til hlítar. Ef til vill má útskýra þessi jákvæðu áhrif með breytingum sem verða á byggingu brjóstanna og minni áhrifum hormóna á æviskeiði móðurinnar.

Fylgir brjóstagjöf annars konar ávinningur fyrir móðurina en vörn gegn brjóstakrabbameini?

Já. Talsvert er um vísbendingar sem sýna að langvarandi brjóstagjöf hjálpi til við að draga úr langtímaþyngdaraukningu auk þess sem konur léttist hraðar eftir fæðingu og nái fyrr sömu líkamsþyngd og fyrir meðgöngu. Miðaldra konur sem höfðu börn á brjósti þegar þær  voru yngri eru ólíklegri til að vera of þungar eða með offitu samanborið við konur á sama aldri sem ekki höfðu barn á brjósti þegar þær voru yngri. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum um hollan lífsstíl til að viðhalda heilsusamlegri líkamsþyngd.

Fylgir brjóstagjöf ávinningur fyrir barnið?

Brjóstagjöf fylgir margs konar ávinningur fyrir börn. Brjóstamjólk inniheldur öll þau næringarefni, vítamín og steinefni sem barnið þarf á að halda fyrstu sex mánuði ævinnar. Hún hjálpar til við að vernda barnið gegn algengum barnasjúkdómum, eins og sýkingum í öndunarfærum, eyrnabólgum, niðurgangi og asma. Þannig stuðlar brjóstagjöf að færri heimsóknum á sjúkrahús, meðferðum og jafnvel innlögnum vegna viðbragða við ofnæmi eða smitsjúkdóma. Brjóstamjólk dregur einnig úr hættu á langvarandi kvillum seinna á ævinni, eins og háum blóðþrýstingi, háu blóðkólesteróli, offitu og sykursýki 2, auk þess sem hún getur mögulega stuðlað að bættum greindarþroska barnsins. Samanborið við pelabörn eru börn sem eru á brjósti líklegri til að þyngjast eðlilega á fyrsta æviskeiðinu samkvæmt stöðlum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og minni líkur eru á óeðlilegri þyngdaraukningu á seinni vaxtarskeiðum. Hvort tveggja hefur verið tengt við minni hættu á ofþyngd á fullorðinsárum. 

Takmörkuð notkun tíðahvarfahormóna


Tíðahvarfahormón (THH) auka líkur á tilteknum krabbameinum. Því er æskilegt að takmarka notkun þeirra. Læknislyf eru efnasambönd sem eru þróuð og notuð í lyflæknisfræði og tannlækningum til að meðhöndla, koma í veg fyrir eða gera sjúkdóma þolanlegri. Lyfin geta valdið aukaverkunum til viðbótar þeim verkunum sem sóst er eftir. Aukaverkanir geta falið í sér auknar eða minni líkur á krabbameini. Tíðahvarfahormón eru sérstök gerð af hormónalyfjum sem er oftast ávísað til kvenna vegna einkenna og óþæginda sem koma fram við tíðahvörf á miðjum aldri. Önnur læknislyf, sem sum eru hormónalyf, geta aukið krabbameinsáhættu hjá konum eingöngu (til dæmis getnaðarvarnarpillur) eða hjá bæði konum og körlum. 

Er ástæða fyrir konur að hafa áhyggjur af því að nota tíðahvarfahormón til að vinna gegn óþægindum sem fylgja tíðahvörfum ?

Sé það mögulegt er best að sleppa eða takmarka notkun tíðahvarfahormóna. Konur sem finna fyrir miklum óþægindum við tíðahvörf geta rætt um notkun tíðahvarfahormóna við lækni. Taka tíðahvarfahormóna eykur líkur á krabbameini í brjóstum, legslímu og eggjastokkum og enn fremur á ýmsum öðrum erfiðum heilsufarslegum vandamálum en krabbameini. Hvernig aukin hætta á krabbameini birtist fer eftir hvers konar tíðahvarfahormón eru tekin (hvort þau innihalda eingöngu estrógenhormón eða eru samsett og innihalda bæði estrógen- og prógestógenhormón) og hvort konan sem um ræðir hefur farið í legnám. 

Rannsóknir hafa sýnt að sú aukna hætta á brjóstakrabbameini sem tengist töku samsettra tíðahvarfahormóna kemur fram eftir að þau hafa verið tekin í nokkur ár og hún er viðvarandi í að minnsta kosti fimm ár, þótt líkurnar minnki aftur stuttu eftir að hætt er að taka hormónalyfin. Ef tíðahvarfahormón eru tekin ætti því að gera það í sem stystan tíma og taka minnsta mögulega skammtinn sem dugar til að draga úr óþægindum við tíðahvörf. Áður en notkun hefst ætti að ráðfæra sig við lækni varðandi hvaða meðferð á best við.

Getur notkun getnaðarvarnarpillna aukið líkur á krabbameini?

Samsettar getnaðarvarnarpillur, sem sagt þær sem innihalda bæði estrógen- og prógestógenhormón, hafa eiginleika sem bæði valda krabbameini og minnka líkur á því. Þar sem þær konur sem nota getnaðarvarnarpillur eru yfirleitt hraustar ætti ákvörðun um notkun að grundvallast á nákvæmu mati á áhættu hjá hverjum einstaklingi fyrir sig. Notkun getnaðarvarnarpillna tengist dálítið auknum líkum á krabbameini í brjóstum, leghálsi og lifur en aftur á móti verndar hún einnig gegn krabbameini í legslímu og eggjastokkum. Hvað varðar krabbameinslíkur er því engar skýrar ráðleggingar hægt að gefa um töku getnaðarvarnarpillna.

Geta önnur lyf aukið líkur á krabbameini?

Líkt og getnaðarvarnarpillur hefur and-estrógenin tamoxífen bæði krabbameinsvaldandi og -verndandi eiginleika. Áreiðanleg gögn sýna að notkun tamoxífens eykur líkur á krabbameini í legslímu, hvort sem það er notað sem hluti af meðferð kvenna með brjóstakrabbamein eða í forvarnarskyni þegar um er að ræða konur sem eru í mikilli hættu á að fá brjóstakrabbamein. 

Til krabbameinslyfja heyra meðal annars lyf sem geta framkallað annars stigs krabbamein í sjúklingum sem hafa læknast af krabbameini á fyrsta stigi. Aftur á móti er hlutfall þeirra sjúklinga sem lyfjameðferðin hjálpar svo hátt, miðað við fjölda þeirra sem fá annars stigs krabbamein, að notkun þessara lyfja er leyfð. 

Ónæmisbælandi lyf geta einnig orsakað krabbamein. Slík lyf eru yfirleitt notuð í mjög alvarlegum aðstæðum, eins og við líffæraígræðslu og í tilfelli blóðsjúkdóma og ónæmissjúkdóma. Ávinningurinn af notkun ónæmisbælandi lyfja vegur yfirleitt þyngra en krabbameinsvaldandi áhrif þeirra. Aftur á móti getur reynst erfitt að taka ákvörðun um hvort ávísa eigi lyfi og hefja meðferð ef lyfið er þekktur krabbameinsvaldur eða sterkur grunur leikur á um að svo sé. Þess vegna er nauðsynlegt að vega vel og meta kosti og galla þess að nota lyfið ef sjúklingurinn er ekki í lífshættu.

Hvað á að gera ef einstaklingur vill taka lyf eins og magnýl til að minnka líkur á krabbameini? 

Ekki er hægt að mæla með efnaforvörnum (lyfjatöku til að koma í veg fyrir krabbamein) fyrir hrausta einstaklinga eða samfélagið almennt.
Lyfjanotkun í forvarnarskyni ætti ekki að hefja fyrr en eftir viðtal við lækni sem getur haft eftirlit með notkuninni. Ekki er ráðlagt að hefja sjálf(ur) notkun magnýls eða annarra forvarnarlyfja gegn krabbameini, þar sem notkun slíkra lyfja getur tengst alvarlegum og mögulega lífshættulegum aukaverkunum.

Þrátt fyrir að sannað sé að magnýl verndi gegn krabbameini í ristli og endaþarmi eru vísbendingar fremur takmarkaðar. Magnýlmeðferð, jafnvel þegar um er að ræða litla skammta, getur tengst alvarlegum og hættulegum atvikum, þar á meðal blæðingum í maga og skeifugörn og (sjaldnar) heilablóðfalli af völdum blæðinga. Enn fremur á eftir að ákvarða skammtastærð og tímalengd magnýlmeðferðar í forvarnarskyni. Þar til þau mál hafa verið leyst ætti að takmarka notkun magnýls og annarra bólgueyðandi lyfja (sem eru ekki sterar) við sjúklinga sem eru mjög líklegir til að fá krabbamein í ristli og endaþarmi. Þar með taldir eru einstaklingar með tiltekna arfgenga sjúkdóma og ef til vill sjúklingar sem hafa áður fengið sepa (kirtilæxli) eða krabbamein í ristli eða endaþarmi.  

Er hægt að taka önnur lyf til að minnka líkur á krabbameini, til dæmis magnýl? 

Eins og er eru aðeins fáein lyf notuð sem forvörn gegn krabbameini. Þau eru tamoxifen og raloxífen (and-estrógen) er vinna gegn brjóstakrabbameini hjá konum, bæði fyrir og eftir tíðahvörf, sem eru í mikilli hættu á að fá brjóstakrabbamein, og sulindac og celecoxib (bólgueyðandi lyf sem tilheyra hvorki stera- né asetýlsalísýrulyfjum, NSAID-lyfjum) sem eru notuð til að koma í veg fyrir arfgengt krabbamein í ristli og endaþarmi hjá þeim sem hafa erft slík heilkenni. 

Verið er að prófa nokkur lyf og meta hvort þau sé hægt að nota til að koma í veg fyrir krabbamein. Þar á meðal eru magnýl, aromatasa-hindrar, statínlyf og metformín. Áreiðanleg gögn sýna að magnýl og NSAID-lyf veiti vörn gegn krabbameini í ristli og endaþarmi og að arómatasa-hindrar veiti vörn gegn brjóstakrabbameini. Aftur á móti er stranglega mælt gegn því að sjúklingar skammti sér lyf sjálfir og lyfjanotkun sem ætlað er að vera forvörn gegn krabbameini ætti aðeins að hefja eftir viðtal og ráðgjöf hjá lækni.


Var efnið hjálplegt?