Tóbak

Ekki reykja eða neyta tóbaks í öðru formi.

Á heimsvísu er tóbak aðalorsök margra þeirra sjúkdóma og dauðsfalla sem koma mætti í veg fyrir.

Tóbak er helsta orsök krabbameins. Reykingar eru hættulegasta form tóbaksnotkunar og valda mestri sjúkdómabyrði af hennar völdum. Sígarettureykingar draga til dauða allt að helming þeirra sem hafa reykt lengi.

Árlega veldur tóbaksnotkun um 6 milljónum dauðsfalla og gríðarlegu efnahagslegu tjóni um heim allan.  Allt að einn milljarður jarðarbúa mun deyja á  þessari öld af völdum tóbaks ef sáttmála WHO um rammaáætlun fyrir  tóbaksvarnir (WHO Convention on Tobacco Control (FCTC) verður ekki hrundið hratt í framkvæmd. Í endurskoðaðri rammatilskipun um tóbaksvörur (2014/40/EU) í löndum innan Evrópusambandsins er greint frá þeim reglum sem á að fara eftir til að takmarka framleiðslu, auglýsingu og sölu tóbaks og skyldra vara í þeim tilgangi að samræma reglur um tóbaksvarnir milli landa og stuðla að betri  lýðheilsu íbúanna.

Á mynd 1 sést yfirlit yfir skaðleg áhrif tóbaks á heilsuna.

Obeinar-reykingar-1200px

Mynd 1. Skaðlegar afleiðingar beinna og óbeinna reykinga.

Heimild: Unnið upp úr Áhrif reykinga á heilsufar – framfarir í hálfa öld: Skýrsla landlæknis í Bandaríkjunum, Atlanta, GA: U.S. Department of Health and Human Services, Centers for Disease Control and Prevention, National Center for Chronic Disease Prevention and Health Promotion, Office on Smoking and Health, 2014, með leyfi U.S. Department of Health and Human Service.

Hvaða tóbaksvörur eru notaðar í Evrópu?

Hægt er að reykja, sjúga, tyggja eða taka tóbak í nefið. Flestir tóbaksnotendur í Evrópu reykja sígarettur,  um 28% fólks eldra en 18 ára eru reykingamenn en innan við 1% nota annað tóbak en reyktóbak, að Svíþjóð undanskildu. Tóbak er einnig hægt að kaupa sem vindla, laust tóbak til að handvefja sígarettur eða troða í pípur, vatnspíputóbak, neftóbak (þurrt eða rakt) og munntóbak, sem er ýmist tuggið (skro), sogið eða sett undir vörina (snus).

Nánari upplýsingar um mismunandi tóbaksvörur má finna í neðagreindri töflu.

 Reyktóbak

Í þessum flokki eru ýmsar vörur, aðallega sígarettur, vindlar og smávindlar, fínt skorið tóbak fyrir handrúllaðar sígarettur og píputóbak. Reykingar hafa einnig í för með sér óbeinar reykingar þegar þeir sem ekki reykja anda ofan í sig blöndu af reyk sem reykingamaður blæs frá sér og reyknum frá brennandi sígarettu hans eða öðru reyktóbaki.

 
Sígarettur

Cigarettes
Heimild: Image courtesy of hinnamsaisuy/FreeDigitalPhotos.net
Upprúllað tóbak sem er vafið í pappír eða annað efni (sem ekki inniheldur tóbak), ýmist með eða án síu á endanum. Fást bragðbættar, til dæmis með mentóli, eru um 8 mm í þvermál og 70-120 mm langar.

Sígarettur innihalda oftast blöndu af mismunandi tóbaksgerðum. Gerð tóbaksins sem notað er hefur áhrif á efnasamsetningu reyksins sem myndast. Ein sígaretta inniheldur um það bil eitt gramm af tóbaki og 1 mg af nikótíni.

Handrúllaðar sígarettur

Roll-your-own-cigarettes

Heimild: Image courtesy of graurcodrin /FreeDigitalPhotos.net 

Úr fínskornu, lausu tóbaki sem er vafið inn í sígarettupappír, innihalda minna tóbak en hefðbundnar tegundir framleiddar í verksmiðjum (um 0,4-0,75 g). 

Vindlar

Cigars

Heimild: Image courtesy of Grant Cochrane/FreeDigitalPhotos.net 

Upprúllað tóbak vafið inn í tóbaksblað eða annað efni sem inniheldur tóbak. Mismunandi gerðir og stærðir fást. 

Píputóbak

PipeHeimild: © Rinek - iStockphoto.com

Pípa er tæki til tóbaksreykinga. Hún er samsett úr hólfi (haus/skál) fyrir tóbakið sem tengist munnstykkinu um grannan, holan legg. Lausa píputóbakið er oft blandað til að fá bragð með fleiri blæbrigðum en þekkist í öðrum tóbaksvörum.

Vatnspíputóbak

Water-pipeHeimild: © danck - iStockphoto.com

 

Vatnspípa er oftast notuð til að reykja tóbak sem er bragðbætt eða gerjað með melassa eða öðrum efnum. Tóbakið er hitað yfir brennandi kolum og reykurinn kældur með því að leiða hann í gegnum vatn og inn í slöngu með munnstykki þar sem honum er andað inn. 

REYKLAUST TÓBAK

flokkað eftir því hvernig það er notað 


Tóbaksblöð sem eru ekki notuð sem reyktóbak en er hægt að taka í nef eða munn. 

Neftóbak

NasalHeimild: © InkkStudios - iStockphoto.com

Tóbakið er þurrkað yfir eldi, látið gerjast og svo unnið í fíngert, þurrt duft sem er pakkað inn og selt í litlum málm-, gler- eða plastílátum, er kallað neftóbak og er sogið upp í nefið. Það er einnig tekið í munn.

Munntóbak

Munntóbaksnotkun í Evrópu felst í að setja tóbak upp í sig milli varar eða kinnar og góms og annað hvort tyggja eða sjúga það. Munntóbakstuggur (skro) eru oft á stærð við golfkúlu. Aftur á móti er tóbaksskammturinn mun minni sem er tekinn í munn til að liggja þar kyrr. Nýjar reyklausar tóbaksvörur eru notaðar víða á Norðurlöndunum, eins og sænska snusið eða sænska raka snusið og er tóbakið í litlum pokum með mátulegum skammti til að setja í vörina. Í Svíþjóð nota um 21% fullorðinna karla reyklaust munntóbak, en minna en 2% allra Evrópubúa nota slíkar vörur.  

Lausblaða munntóbak

Loose_leaf

Heimild: © Vitalina Rybakova - iStockphoto.com

 

Er gert úr lausum vindlatóbaksblöðum sem eru loftþurrkuð, stilkar skornir af og þau skorin eða möluð í litlar, lausar tóbaksræmur. Flestar tegundir eru bragðbættar og gerðar sætar með lakkrís og oftast seldar í pokum. Lausblaða munntóbak inniheldur mikinn sykur (um 35%). Klípa af tóbakinu er sett í munninn mili kinnar og neðri varar, frekar aftarlega í munninn. Klípan er tuggin eða látin liggja þétt upp við góminn. Munnvatninu er skyrpt eða því kyngt.  

 

Rakt neftóbak/snus

Moist_snuff

 Heimild: © gbrundin - iStockphoto.com

 

Tóbakið er annað hvort loftþurrkað eða eldþurrkað og síðan unnið í fíngerð korn eða tóbaksræmur. Stilkar og fræ tóbaksplöntunnar eru ekki fjarlægð fyrir vinnsluna. Rakt neftóbak er ýmist selt í lausu eða pakkað inn í litlar skjóður tilbúnar til neyslu. Klípa eða skjóða er sett milli varar eða kinnar og góms. Munnvatninu er stundum kyngt en algengara er að því sé spýtt út.

Snus er sænska útgáfan af röku neftóbaki og er gert úr fínmöluðu þurru tóbaki blönduðu saman við ilmefni, borðsalt, vatn, rakaaukandi efni og matarsóda. Klípa er sett undir efri vörina, fast upp að gómnum. Meðalneytandi er með klípu í munninum í 11-14 klukkustundir á dag. Í Svíþjóð er hægt að kaupa bæði venjulega snusskammta og örskammta og enn fremur rakt neftóbak í lausu formi. Sala snuss var bönnuð af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í öllum löndum þess nema Svíþjóð. 

 

Betel quid blandað tóbaki

Betel_quid

Heimild: © N. Guha/IARC

 

Þetta form af reyklausu tóbaki er algengt meðal minnihlutahópa í Evrópu, einkum í Bretlandi meðal innflytjenda frá Mið-, Austur-, Suður- og Suðaustur-Asíu. Þetta er kallað paan eða pan og eru helstu innihaldsefnin fjögur ¾ (i) betel-laufblöð, (ii) arecahnetur, (iii) slaked lime og (iv) tóbak. Tóbakið er ýmist notað í hráu, sólþurrkuðu eða ristuðu formi, fínsaxað, fínmalað, eða soðið, gert að mauki og ilmbætt með rósavatni eða ilmvatni. Lokaafurðin er sett í munninn og tuggin. 

 

Maras

Maras

Heimild: Image courtesy of M. Seydioğullari

 

Maras er afbrigði af reyklausu tóbaki. Það er algengt í suðausturhluta Tyrklands, sérstaklega í borgunum Kahramanmaras og Gaziantep.  Fyrst eru sólþurrkuð tóbaksblöð möluð í duft sem er blandað saman við viðarösku, einkum úr eik, valhnetuvið eða vínvið. Vatni er síðan úðað yfir blönduna til að bleyta í henni. Smáskammtur af blöndunni er settur milli slímhúðar neðri varar og tannholds (góms) í 4-5 mínútur. Þessi athöfn er endurtekin margoft yfir daginn og sofa jafnvel sumir með duftið uppi í sér.

 

Veldur tóbaksnotkun krabbameini? Hversu mikill hluti krabbameina er af völdum reykinga?

Já. Tóbak er aðalorsök  krabbameina - og hægt er að koma í veg fyrir hana.  Það er engin hættulaus leið til að nota tóbak og eru reykingar hættulegastar þeirra. Er það vegna þess að mesta krabbameinsáhættan fylgir bruna tóbaks, þ.e.a.s. tóbaksreyknum,  því að flest eitruðustu efnin, þar á meðal krabbameinsvaldar,  myndast við brunann. Tóbak er orsök mismunandi tegunda krabbameins, einkum ef það er reykt. Tóbaksreykur veldur einnig krabbameini hjá þeim sem reykja ekki sjálfir en anda að sér sígarettureyk reykingamanna, eins og börnum foreldra sem reykja.

Lungnakrabbameinsáhætta er 20-25 sinnum meiri meðal reykingafólks en þeirra sem ekki reykja. Áhættan eykst eftir því sem reykt er í fleiri ár,  reyktar eru fleiri sígarettur á dag og því yngri sem einstaklingur er þegar hann byrjar að reykja. Í  Evrópu eru 82% lungnakrabbameinstilfella talin orsakast af reykingum. Prósentuhlutfall mismunandi tegunda krabbameins sem koma mætti í veg fyrir með því að forðast reykingar sést innan sviga á mynd 2. 

Reykingar-hlutfoll

Mynd 2: Krabbamein sem orsakast af tóbaksreykingum og annarri tóbaksnotkun  eða óbeinum reykingum. Tölunar innan sviga sýna hlutföll krabbameinstegundanna sem orsakast af tóbaksreykingum, reiknað út frá algengi reykinga í evrópskum löndum. 

Sannað er að tóbaksreykingar valda krabbameini í þeim líffærum sem merkt eru á mynd 2.  Að auki hefur Alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) ályktað að það séu takmarkaðar vísbendingar um að tóbaksreykingar auki hættu á brjósta­krabbameini (um 10-30%), byggt á vísbendingum sem allar benda í sömu átt. Enn fremur eru takmarkaðar vísbendingar um að óbeinar reykingar auki hættu á krabbameini í barkakýli og koki. Í þessu samhengi þýðir „takmarkaðar vísbendingar“ að hugsanlega valdi tóbaksreykingar brjóstakrabbameini og að óbeinar reykingar valdi hugsanlega krabbameini í barkakýli og koki.

Valda allar gerðir tóbaks krabbameini?

Já, allar gerðir tóbaks valda krabbameini. Mesta áhættan tengist þeim gerðum sem eru reyktar og gefa frá sér tóbaksreyk, þar sem flest krabbameinsvaldandi efnin myndast við brunann.

Hvaða efni í tóbaki eru krabbameinsvaldandi?

Tóbak og tóbaksreykur innihalda mörg efni sem eru þekktir krabbameinsvaldar, bæði  í tilraunadýrum og mönnum. Sumir krabbameinsvaldar eru náttúruleg innihaldsefni tóbaksplöntunnar sjálfrar, aðrir myndast við bruna tóbaks eða við framleiðsluferlið, þurrkun, þroskun eða geymslu, svo sem bensen, formaldehýð og tiltekin nítrósamín sem finnast aðeins í tóbaki. Fjöldi krabbameinsvalda og magn hvers þeirra fyrir sig er breytilegt eftir tóbaksvörum, bæði á milli landa og innan hvers þeirra. Hægt er að framleiða tilteknar gerðir af reyklausum tóbaksvörum sem innihalda minna magn af  nítrósamínum sem eru helstu krabbameinsvaldar í tóbaksvörum. Samfelld tóbaksnotkun og þar með að verða stöðugt fyrir krabbameinsvaldandi efnum getur leitt til myndunar krabbameins.

Mynd 3: Nokkur þeirra efna í tóbaksreyk sem valda krabbameini. 

Krabbameinsvaldandi-efni1200px

Alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC, deild innan WHO), hefur flokkað sum efnin í tóbaki og tóbaksreyk sem krabbameinsvalda í mönnum (tafla 2). Á mynd 3 er ljósinu beint að sumum þeirra fjölmörgu efna í tóbaksreyk sem valda krabbameini í tilraunadýrum og mönnum.

Efni  Lýsing
Formaldehýð

Oft notað til að smyrja og varðveita líkamsleifar manna og annarra lífvera, en einnig notað í öðrum tilgangi, þ.m.t. í sótthreinsiefni og til framleiðslu á öðrum efnum.

Fjölhringa arómatísk kolvatnsefni eins  og benzó-a-pýren

 

Þessi efni myndast við ófullkominn bruna og finnast í útblæstri bíla og tóbaksreyk. 

Arsenik

Þetta frumefni er gífurlega eitrað mönnum og öðrum lífverum, enda notað í öfluga illgresis- og skordýraeyða.

Nikkel

 

Þetta málmkennda frumefni er notað í ryðfríu stáli, seglum, mynt og nokkrum málmblöndum. IARC telur nikkelsúlfíð-gufur (nikkelsambönd) staðfesta krabbameinsvalda í mönnum og er gasið nikkelkarbonýl mjög eitrað mönnum.  

Pólóníum-210

Geislavirkt frumefni sem myndast við niðurbrot radons (decay of radon). IARC flokkar það til krabbameinsvaldandi efna í mönnum.

Beryllíum

Frumefni, léttur málmur notaður í geimfara-, flugvéla- og kjarnorkuiðnaði. Beryllíum losnar í mörgum iðnaðarúrgangsferlum, þar með talið við bruna iðnaðarúrgangs, helsta uppspretta losunar er þó við bruna kola og olíu. 

Krómíum VI 

Er notað í ýmiskonar tilgangi, m.a. við framleiðslu ryðfrís stáls, í viðarvörn, í leðursútun, sem litarefni í litum, í málningu, í bleki og í plastefnum og sem tæringarvörn og grunnmálning. 

Kadmíum 

Þetta frumefni er notað við framleiðslu rafhlaðna og litarefna í málningu.  

Aromatísk amín, þ.m.t.  2-nafþýlamín og 4-amínó bíphenyl 

Notuð til að framleiða azó-liti (gervilitarefni). 

1,3-Bútadíen 

Notað til að framleiða gervigúmmi. 

Bensen 

Mikilvægt innihaldsefni bensíns sem er einnig notað til að framleiða nokkrar gúmmítegundir, smurefni, litarefni, þvottaefni, lyf, sprengiefni og skordýraeyði.  

Vínylklóríð 

Iðnaðarefni aðallega notað til að framleiða fjölliðuna polyvinyl chloride (PVC). Var notað áður fyrr sem innöndunarsvefnlyf. 

Etýlenoxíð 

Lykilefni í iðnaði til að framleiða ýmsar heimilisvörur, eins og þvottaefni, þykkingarefni, leysiefni og plastefni, þótt það sé of hættulegt sem slíkt til beinna heimilisnota. Það er mjög eldfimt og eitrað gas sem skilur engar leifar eftir á þeim hlutum sem það kemst í snertingu við. Hreint etýlenoxið er víða notað sem sótthreinsiefni á spítölum og í lækningatækjaiðnaðinum í stað heitrar vatnsgufu til að sótthreinsa tæki og áhöld sem þola illa hita, til dæmis einnota plastsprautur. 

Heimild: IARC

Veldur nikótín krabbameini?

Nei. Nikótín er algengt náttúrulegt efni sem finnst í tóbaksplöntunni. Áhrif þess eru þau að gera tóbak vanabindandi frekar en að valda krabbameini beint. Fólk sem er orðið háð nikótíni er líklegra til að halda áfram að setja sig í þá stöðu að verða fyrir krabbameinsvöldum í reyktóbaki og reyklausu tóbaki.

Skammtastærð þess nikótíns sem er í nikótínlyfjum (NRT=Nicotine  Replacement Therapy) getur smátt og smátt uppfyllt nikótínþörf tóbaksreykingamanns um leið og það lágmarkar hversu mikið notendur verða fyrir krabbameinsvöldum og öðrum eitruðum efnum í tóbaksreyk. Nikótínlyf eru þess vegna skaðminni valkostur en tóbaksvörur. Nikótínlyf, til dæmis í formi plástra eða tyggigúmmís, hafa verið á lista WHO (Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar) yfir mikilvæg lyf síðan 2009.   

Nikótín í mjög stórum skömmtum getur valdið eitrun og jafnvel verið banvænt. Nikótínvörur á þess vegna að geyma þar sem börn ná ekki til þeirra.  

Geta aðrir þættir haft áhrif á líkurnar sem eru á þeim krabbameinum  sem tengjast reykingum?

Já. Skaðleg áhrif tóbaksneyslu aukast með áfengisneyslu og einnig í tilteknum störfum þar sem starfsfólk verður fyrir öðrum efnum sem vitað er að valda krabbameini (t. d. radoni og asbesti). Hvað áfengisneyslu og reykingar varðar, eykst verulega hætta á krabbameini í munnholi, koki, barkakýli og vélinda reykingamanna með aukinni áfengisneyslu. Reykingar og áfengisneysla leiða til meiri hættu á krabbameini heldur en ef einungis er reykt.

Eru vatnspípureykingar skaðlausar?

Nei. Vatnspípureykingamenn anda að sér eitruðum efnum sem losna við bruna tóbaks (oft bragðbættu) og kola sem eru notuð til að hita tóbakið og enn fremur sem eru í hliðarreyknum. Almennt reykja vatnspípureykingamenn sjaldnar en af meiri áfergju en þeir sem reykja sígarettur. Reykingalotur vara almennt lengi (20-90 mínútur) og eru þeir sem reykja tóbak í vatnspípum því að anda að sér reyknum í langan tíma. 

Water-pipeEinnig hafa þeir tihneigingu til að draga reykinn dýpra ofan í lungun vegna þess að meiri kraft þarf til að draga loftið með reyknum í gegnum vatnið. Kæliáhrifin sem eiga sér stað þegar tóbaksreykurinn er leiddur í gegnum vatnið geta ýtt undir fleiri innsog og þar með eykst innöndun þeirra krabbameinsvalda sem í reyknum eru. Þegar reykurinn berst í gegnum vatnið síast eitruðu efnin í tóbaksreyknum ekki frá. Vatnspípur eru einnig þekktar  undir nöfnunum shisha, hookah, narghile og hubble-bubble. Dæmi er sýnt á mynd 4. 

Mynd 4: Vatnspípubúnaður, einnig þekkt sem shisha, hookah, narghile og hubble-bubble.

Minnkar hættan á að fá krabbamein eða deyja úr krabbameini ef hætt er að reykja?

Já. Vísindalegar niðurstöður sýna afgerandi að það dregur úr hættu á krabbameini þegar einstaklingur hættir að reykja, sama á hvaða aldri hann er. Ávinningurinn eykst eftir því sem reykingamaður er yngri þegar hann hættir. Að meðaltali lifa reykingamenn 10 árum skemur en þeir sem ekki reykja. Hætti einstaklingur að reykja fyrir fertugt minnkar hættan á dauða af völdum reykinga um 90%. Það er aldrei of seint að hætta að reykja, samanborið við þá sem halda áfram að reykja verður hættan á reykingatengdri dánarorsök alltaf minni hjá þeim sem hætta að reykja, óháð því á hvaða aldri þeir eru.

Hætti einstaklingur að reykja hefur það önnur jákvæð áhrif á heilsuna sem sum koma strax fram (Sjá mynd 5). Því sem hægt er að gera til að hætta reykingum er lýst hér.

Avinningur-af-reykstoppi-1200PX

Mynd 5: Skammtíma- og langtímaávinningur af því að hætta að reykja

Hvað er hægt að gera til að hætta að reykja?

Reykingamenn geta gripið til ýmissa ráða til að auka líkurnar á að þeim takist að hætta að reykja. Vísbendingar eru um að þeir sem nýta sér bæði lyfja- og atferlismeðferð sem úrræði séu fjórum sinnum líklegri til að hætta en þeir sem nota engin meðferðarúrræði. Þeir sem nýta sér einungis annað hvort lyfja- eða atferlismeðferð eru þó líklegri til að ná að hætta samanborið við þá sem styðjast ekki við nein úrræði. 

Algengustu  lyfin  til að hjálpa reykingamönnum að hætta til frambúðar eru meðal annars nikótínlyf (NRT), búprópíon, varenicklín og sýtisín. Sýtisín hefur aðeins verið fáanlegt í mið- og austur-Evrópu til þessa. Fleiri lyfjavalkosti má sjá í töflu 3. 

Tafla 3: Algengustu lyfjavalkostir til aðstoðar reykingamönnum sem vilja hætta að reykja.

 LyfjavörurDæmigert form og skammtarAðgengi  Athugasemdir

Nikótínlyf eru vörur sem innihalda nikótín og koma því í líkamann án þess að bruni tóbaks komi til eða að önnur eiturefni séu innbyrt samtímis. 

Nokkur mismunandi form eru í boði af þessum vörum, þar á meðal 16- eða 24-klukkustunda húðplástrar, 2 mg eða 4 mg tyggigúmmí, 1 mg, 1.5 mg, 2 mg og 4 mg nikótínsogtöflur, 2 mg töflur undir tungu, nefúði, pústtæki, munnskjóður og munnúði.

 

Yfirleitt er auðvelt að nálgast flestar þessar nikótínvörur, ýmist lyf­seðils­laust eða með lyfseðli frá lækni.

-Vísbendingar eru um að betur gengur að hætta að reykja ef not­aðar eru fleiri en ein tegund af nikótínvörum (skamm- og langtímaverkandi, t.d. nikótín-tyggjó og nikótín­plástur).

-Flestar rannsóknir á lyfjameðferð við nikótínfíkn hafa falið í sér einhvers konar atferlismeðferð til stuðnings.

-Best er að fá ráðgjöf þegar hætta á að reykja og til að auka líkur á að halda bindindið.

Búprópíon telst til   óhefð­bundinna þung­lyndis­lyfja.

Algengt er að í meðferðarlotu felist 300 mg af lyfi daglega í sjö til átta vikur og að byrjað sé einni viku fyrir áætlaðan fyrsta bindindisdag.  

 

Búprópíon fæst gegn lyfseðli í flestum Evrópu­löndum.

 

-Atferlisstuðning má gefa augliti til auglitis, í síma eða yfir netið.

-Atferlisstuðningur getur verið gagnlegur sé hann uppbyggður á hátt sem rannsóknir sýna að hafi áhrif. 

Varenicklín er lyf sem keppir að hluta til við niktótín um aðgengi að viðtökum í heila (er partial agonist).

Algengt er að í meðferðarlotu felist 1 mg af lyfi daglega og að byrjað sé einni viku fyrir áætlaðan fyrsta bindindisdag og síðan 2 mg á dag í 11 vikur.

Varenicklín fæst gegn lyfseðli í flestum Evrópu­löndum.  

- Atferlis­stuðningur sem veittur er augliti til auglitis hefur reynst áhrifa­mestur ef sérhæfður heil­brigðisstarfs-kraftur veitir hann og hann er veittur í nokkrum einstaklings- eða hóptímum. 

 

Cytisine er einnig lyf sem keppir að hluta til við niktótín um aðgengi að við­tökum í heila.

 

Algengt er að meðferð vari í fjórar vikur, hefjist einni viku fyrir fyrsta bindindisdag með áætlun og skammtar svo  minnkaðir smám saman á meðferðar­tímabilinu.

Cytisín er aðeins fáanlegt í mið- og austur-Evrópu, enn sem komið er, ýmist með eða án lyfseðils. Talið er að einnig verði hægt að fá það í Vestur-Evrópu, enda hafa umsóknir um leyfi fyrir lyfinu í öðrum löndum verið kynnt, meðal annars í Bretlandi. 

 

-Vísbendingar hafa komið fram sem benda til þess að hóptímar séu vænlegri til árangurs en einstaklingstímar. 

Atferlistuðningur við reykingafólk sem vill hætta að reykja felur meðal annars í sér að fá aðstoð til að gera hagnýtar áætlanir um streitustjórnun,  að komast undan fíkninni, að fá ráðgjöf um notkun nikótínlyfja og hvernig takast má á við sterka löngun í sígarettur og fráhvarfseinkenni. Slík meðferð er veitt ýmist augliti til auglitis eða í gegnum síma eða yfir netið. Lyfjafræðingar, heimilislæknar og fleira heilbrigðisstarfsfólk getur haft milligöngu um stuðning af þessu tagi.

Það eykur líkurnar á að fólk haldi reykbindindi ef  heimilið er reyklaust.

Hvað er hægt að gera til að hætta notkun reyklauss tóbaks?

Nokkrir valkostir eru í boði til að aðstoða fólk sem vill hætta að nota reyklaust tóbak til frambúðar, ekkert eitt úrræði hefur þó enn fundist sem hægt er að mæla með umfram önnur.

Í niðurstöðum einnar rannsóknar kom fram að ef borinn var saman árangur þeirra neytenda reyklauss tóbaks sem vildu hætta tókst um 60% fleiri að hætta til frambúðar eftir að hafa notað lyfið varenicklín í hálft ár miðað við samanburðarhóp sem ekki notaði lyfið.

Einnig hefur komið í ljós að úrræði sem byggja á atferlismeðferð hjálpuðu fólki sem notaði reyklaust tóbak að halda bindindi allt að sex mánuðum lengur en ella. Sé símaráðgjöf með eftirfylgni einnig nýtt aukast líkurnar á að fólki nái að hætta. Séu einstaklingar upplýstir um ástand munnhols í kjölfar skoðunar tannlæknis eða tannfræðings getur það hvatt til þess að neytendur hætti notkun á reyklausu tóbaki. Þeir sem vilja hætta að nota reyklaust tóbak ættu að leita ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki sem er þjálfað sérstaklega til þess.

Dregur úr líkum á krabbameini ef minna er reykt?

Já, það getur dregið úr hættu á krabbameini, en ýmislegt annað þarf þó að taka með í reikninginn þegar ávinningurinn fyrir heilsuna er metinn.

Áhættuminnkunin er háð því hvort reykingamenn bæti upp minni nikótíninntöku með því að breyta því hvernig þeir reykja, til dæmis með því að anda reyknum dýpra ofan í sig eða draga reykinn oftar að sér. Notkun nikótínlyfja eða annarra lyfja við tóbaksfíkn, samhliða því sem reynt er draga úr reykingum, gæti komið í veg fyrir uppbótarreykingar og er líklegra til að vera skref í rétta átt að því að hætta alveg. Best er að setja markmið um að vera alveg hætt/hættur innan tiltekins tíma, þar sem algert reykbindindi gefur mesta heilsufarslega ávinninginn. Hætti einstaklingur að reykja dregur marktækt úr líkunum á því að deyja af völdum allra helstu reykingatengdu sjúkdómanna, þar á meðal krabbameini, miðað við virka reykingamenn. Þessi áhrif eru óháð aldri.

Krabbameinsáhætta ákvarðast ekki eingöngu af því hversu lengi hefur verið reykt (árafjöldi) heldur einnig magninu (hversu margar sígarettur eru reyktar daglega). Talið er að tímalengd reykinga hafi meiri áhrif á krabbameinsáhættu en magnið sem reykt er daglega. Besta ráðið til að draga úr krabbameinsáhættu er að reykja alls ekki.  

Hvað eru rafsígarettur?

Rafsígarettur eru tæki sem brenna hvorki né nota tóbakslauf á annan hátt, heldur er vökva sem inniheldur nikótín komið í gufuform sem neytandinn andar svo að sér (innskot: Rafrettur eru þó líka notaðar til að anda að sér gufu sem EKKI inniheldur nikótín).

Þessar vörur eru almennt kallaðar rafsígarettur og oft talað um að notendur ,,veipi”. Til eru rafsígarettur sem líta út eins og tóbaksvörur (sígarettur, vindlar, pípur, vatnspípur) en aðrar líta út eins og hversdagslegir hlutir t.d. pennar, USB-minnislyklar og stærri sívalningslaga eða ferhyrndir hlutir.  

Helstu innihaldsefni vökvans auk nikótínsins eru própylen glýkól og jurtaglýserín. Oftast eru líka fleiri efni í vökva og útblæstri rafsígaretta. Vökvafyllingarnar fást með ýmsum bragðtegundum.

Eru rafsígarettur hættuminni en venjulegar sígarettur?

Langtímaáhrif rafsígaretta eru enn óþekkt. Þar sem notkun þeirra felur ekki í sér að brenna tóbaki og anda reyknum ofan í lungun eins og þegar hefðbundnar sígarettur eru notaðar, er gert ráð fyrir að minni hætta sé á að sjúkdómar og dauði fylgi notkun rafsígaretta en tóbaksreykingum. Reglugerðir gætu lágmarkað þá hættu sem mögulega stafar af notkun rafsígaretta. Hugsanlega gætu rafsígarettur dregið úr þeirri gífurlegu sjúkdómabyrði og dánartíðni sem tóbaksreykingar valda ef flestir reykingamenn skiptu yfir í þær auk þess sem tekið væri tilhlýðilega á neikvæðum þáttum sem varðað gætu lýðheilsu. Meðal þessara þátta er að bragðtegundir rafsígarettuvökva gætu höfðað til barna og ýtt undir notkun meðal barna og unglinga sem annars myndu ekki reykja, að innihaldslýsingum á umbúðum hefur verið ábótavant og að rafsígarettur hafa verið markaðssettar á óviðeigandi hátt. Einnig gætu rafsígarettur dregið úr áhrifum tóbaksvarnaraðgerða, þar sem hægt væri að nota þær á stöðum þar sem tóbaksreykingar eru bannaðar auk þess að geta mögulega leitt til þess að tóbaksreykingamenn hættu ekki að reykja heldur sneru sér í staðinn að rafsígarettunum. Slíkt gæti svo hugsanlega haft þau áhrif að tóbaksnotkun yrði talin sjálfsögð á ný í löndum sem náð hafa miklum árangri í tóbaksvörnum.

Rannsókna er þörf á þessum málefnum.

*athugasemd jan´18, Krabbameinsfél. Þar sem rafsígarettur eru tiltölulega ný vara á markaði hefur regluverk kringum þær verið að þróast hratt undanfarin ár en mjög mismunandi er hvort og þá hvernig reglur hvert land hefur til þessa sett um notkun þeirra. Í sumum löndum hefur notkun rafsígaretta verið bönnuð á sömu stöðum og tóbaksreykingar eru bannaðar enda getur gufan valdið óþægindum annarra auk þess sem enn er ekki ljóst hvort gufa sé hættulítil geti haft neikvæð heilsufarsleg áhrif á þá sem verða fyrir slíkum óbeinum reykingum úr rafsígarettu.

Hvað gæti gerst þegar reynt er að hætta að reykja?

Reykingamenn hafa oft áhyggjur af því að þeir muni þyngjast ef þeir hætta að reykja. Kostirnir fyrir heilsuna sem fylgja því að hætta að reykja eru mun fleiri en ókostirnir við það að þyngjast auk þess sem hægt er að takast á við þyngdaraukninguna síðar (sjá mynd 5 um skammtímaáhrif og langtímaáhrif á heilsuna). Líkurnar á því að deyja af ýmsum orsökum, þar með talið krabbameini, eru meiri hjá reykingamönnum í hæfilegri þyngd en hjá þeim sem eru í ofþyngd en reykja ekki. Ómögulegt er að spá fyrir um hver muni þyngjast þegar hætt er að reykja og hver ekki. Þeir sem stefna að því að hætta að reykja gætu leitað til heilbrigðisstarfsfólks eftir ráðum varðandi hollt mataræði og líkamsþjálfun.

Avinningur-af-reykstoppi-1200PX

Mynd 5: Skammtíma og langtíma ávinningar af því að hætta að reykja

Margir sem hætta að reykja fá svokölluð fráhvarfseinkenni og geta fundið bæði til líkamlegra og andlegra óþæginda. Einkennin vara þó stutt og líða hjá. Meðal fráhvarfseinkenna eru sterk reykingalöngun, þunglyndi, pirringur/árásargirni, eirðarleysi, aukin matarlyst, einbeitingarleysi, vægur svimi og svefntruflanir. Fráhvarfseinkenni vara mislengi en yfirleitt skemur en 1-3 mánuði. Slíkra einkenna verður þó ekki vart hjá öllum. Þau koma fram vegna þess að líkaminn er orðinn vanur því að fá reglulega skammta af nikótíni og þegar hætt er að reykja verður hann að aðlagast nikótínskortinum. Þegar nokkur tími er liðinn frá því að síðast var reykt geta fráhvarfseinkenni farið að gera vart við sig, eins og pirringur, reiði, kvíði og eirðarleysi. Ef látið er undan lönguninni og reykt, hverfa einkennin, og geta reykingamenn túlkað það sem slökun eða róandi áhrif reykinga sem í raun eru fráhvarfseinkenni að ganga til baka.

Lyf sem hjálpa fólki að hætta að reykja eins og nikótínlyf (NRT), varenicklín, eða búprópíon geta slegið á fráhvarfseinkenni þótt ólíklegt sé að þau hverfi alveg. Atferlismeðferð getur nýst reykingafólki þar sem það fær hagnýtar áætlanir til að takast á við fráhvarfseinkenni. 

Hafa reykingar eins einstaklings áhrif á reykingar annarra?

Ef einstaklingur sem einhverjir líta upp til reykir, er líklegt að það hafi áhrif á reykingahegðun annarra. Reyki einstaklingur þá veldur það því að líklegra er að þeir sem búa á sama heimili reyki einnig, sérstaklega ungt fólk sem verður fyrir áhrifum frá foreldrum og systkinum. Læknar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðis­starfsfólk eru fyrirmyndir sjúklinga sinna og ef þau reykja senda þau tvöföld skilaboð. Þess vegna ætti að hvetja heilbrigðisstarfsfólk og styðja það til að hætta allri tóbaksnotkun og stuðla að reyklausu samfélagi.

Eru reykingar algengari í sumum hópum en öðrum?

Reykingar eru veigamikill áhrifaþáttur hvað varðar heilsufarslegan ójöfnuð í flestum hátekjulöndum. Á heimsvísu eru reykingar algengari meðal þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja, þar með talið þeirra sem búa við lægra atvinnu-, menntunar- eða tekjustig, atvinnulausra og einstæðra foreldra. Aðrir þjóðfélagshópar geta einnig verið sérstaklega líklegir til að reykja, eins og heimilislausir, þeir sem glíma við geðræn vandamál og fangar. Í sumum löndum er tóbaksnotkun algengari meðal ákveðinna þjóðernislegra minnihlutahópa samanborið við aðra hópa.

Þegar tóbaksvarnaraðgerðir eru skipulagðar er mikilvægt að sérstök áhersla sé lögð á að ná til viðkvæmra þjóðfélagshópa þar sem tóbaksnotkun er mikil.

Bæklingur: Tóbaksnotkun og krabbamein

Janúar 2018




Var efnið hjálplegt?