Beint í efni

Önn­ur rétt­indi

Ert þú elli- eða örorkulífeyrisþegi?

Þeir sem þegar fá greiddan elli- eða örorkulífeyri þegar veikindi ber að eiga ekki rétt á sjúkradagpeningum. Þeir sem hafa skertan grunnlífeyri geta þó átt rétt á þeim.

Ert þú sjálfstæður atvinnurekandi?

Sjálfstæðir atvinnurekendur sem greiða í stéttarfélag eiga rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði síns félags eins og um launþega sé að ræða. Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki verið í stéttarfélagi og ekki greitt í sjúkrasjóð er sótt beint um endurhæfingarlífeyri.

Ert þú á atvinnuleysisbótum?

Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eiga rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði ef greitt er stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótum. Ef ekki þá er sótt um endurhæfingarlífeyri.

Ert þú maki eða aðstandandi?

Maka- og umönnunarbætur: Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða bætur til maka eða annarra sem halda heimili með elli-, örorku- og/eða endurhæfingarlífeyrisþega. Við slíkar aðstæður þarf sjúklingur að vera lífeyrisþegi hjá TR en umönnunaraðili má ekki vera lífeyrisþegi og þarf að hafa sama lögheimili og sjúklingurinn. Umönnunaraðilinn þarf einnig að hafa minnkað við sig vinnu og lækkað í tekjum. Sjá nánar á vef TR.

Dagpeningar vegna alvarlegra veikinda maka: Mörg stéttarfélög greiða sjúkradagpeninga til félagsmanna sem eiga maka sem glímir við alvarleg veikindi. Oft eru þá greidd 80% af launum í 90 daga. Best er að hafa samband við stéttarfélagið og kanna sinn rétt.

Mæðra og feðralaun greiðast til einstæðra foreldra með tvö eða fleiri börn undir 18 ára aldri á framfæri. Launin falla niður við breytingar á fjölskylduhögum.

Falli greiðslur örorkulífeyrisþega niður vegna vistar á sjúkrastofnun getur maki hans með tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára fengið greidd mæðra- eða feðralaun.