Beint í efni

End­ur­greiðsla og styrk­ir

Endurgreiðsla frá Sjúkratryggingum Íslands 

Hægt er að sækja um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands vegna mikils læknis-, lyfja- og þjálfunarkostnaðar ef heildartekjur eru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Sjá nánari upplýsingar og umsóknir um greiðsluþátttöku á Ísland.is. 

Endurgreiðsla frá stéttarfélagi

Sum stéttarfélög endurgreiða félögum sínum vegna læknis-, lyfja- og þjálfunarkostnaðar. Hafðu samband við stéttarfélagið og kannaðu hvort hægt sé að sækja um einhverja endurgreiðslu þar.

Endurgreiðsla frá tryggingafélagi

Sum tryggingafélög greiða bætur vegna legudaga á sjúkrahúsi. Kannaðu málið hjá þínu tryggingafélagi.

Styrkir

Styrkir vegna hjálpartækja frá Sjúkratryggingum Íslands 

Sjúkratryggingar Íslands greiða styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Nánari upplýsingar um styrki vegna hjálpartækja á Island.is.

Hárkollur og höfuðföt

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á hárkollum og/eða sérsniðnum höfuðfötum, gerviaugabrúnum/húðflúr og augnhárum/húðflúr, þegar um er að ræða varanlegt hárleysi, hárleysi vegna krabbameinsmeðferðar eða innkirtlameðferðar.

Hámarksstyrkur vegna sérsniðins höfuðfats er samkvæmt verðkönnun Sjúkratrygginga Íslands. Húðflúr er einungis samþykkt hjá viðurkenndum snyrtistofum og viðurkenndum húðflúrstofum. Styrkurinn er veittur til eins eða tveggja ára í senn eftir eðli vandans.

Gervibrjóst

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á gervibrjóstum/gervibrjóstafleygum vegna brjóstmissis kvenna, 2 stk. á fyrsta ári og síðan 1 stk. á ári við missi annars brjósts og 4 stk. á fyrsta ári og síðan 2 stk. á ári við missi beggja brjósta. Heimilt er að veita styrk á tveggja ára fresti vegna húðflúrunar geirvörtu og/eða vörtubaugs á uppbyggt brjóst. Hægt er að kynna reglugerðina á Island.is varðandi styrki vegna hjálpartækja.

Sérstyrkt brjóstahöld

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á sérstyrktum brjóstahöldum vegna uppbyggingar brjósts/brjósta við brjóstmissi kvenna (vefur/silikon). Styrkur er veittur einu sinni frá upphafi uppbyggingar, hámark 2 brjóstahöld.