Svona nýtist þinn stuðningur
Meginmarkmið Krabbameinsfélagsins er að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins með og eftir krabbamein.
Félagið býr yfir 70 ára reynslu og skuldbindingu við málstaðinn og ótalmörg baráttumál þess hafa orðið að veruleika undanfarna áratugi. Sem dæmi má nefna að skráning krabbameina hófst að frumkvæði Krabbameinsfélagsins. Ráðgjöf við sjúklinga og aðstandendur hófst líka hjá félaginu, í upphafi eingöngu sem símaráðgjöf, auk Heimahlynningar, forvera Heru – líknarþjónustu í heimahúsum, sem félagið rak í mörg ár. Félagið barðist fyrir innleiðingu skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum og rak skimanirnar í áratugi og þá eru ónefndar tóbaksvarnir, sem má sjá árangur af núna, með lækkandi nýgengi lungnakrabbameins. Í vor náðist stór áfangi sem félagið hefur lengi barist fyrir, þegar Alþingi samþykkti aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum, sem er ætlað að tryggja að krabbameinsþjónusta verði áfram í hæsta gæðaflokki þótt álagið á heilbrigðiskerfið muni aukast í takt við fjölgun krabbameinstilfella.
Tilgangur okkar hjá Krabbameinsfélaginu er að draga úr áhrifum krabbameina á samfélagið, með því að skapa þekkingu, berjast fyrir breytingum og veita stuðning. Við þekkjum vel aðstæður fólks sem hefur fengið krabbamein og aðstandenda þeirra og stöndum með fólki gegn krabbameini.
Krabbamein snertir alla landsmenn á einn eða annan hátt - fyrr eða síðar
Að fá krabbamein er ein stærsta áskorunin í lífi fólks. Árlega greinast nú að meðaltali 2.055 einstaklingar með krabbamein og við getum reiknað með því að 1 af hverjum 3 Íslendingum fái krabbamein á lífsleiðinni. Gera má ráð fyrir að í kringum hverja manneskju séu að lágmarki 10 manns. Krabbamein eru því í nánasta umhverfi hálfrar þjóðarinnar í ljósi þess að í dag eru á lífi um 19.154 einstaklingar sem fengið hafa krabbamein. Árlega missum við að meðaltali 643 einstaklinga af völdum krabbameina, sem gerir 26% allra dánarmeina á landinu. Krabbamein eru stærsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla hér á landi.
Gríðarleg fjölgun krabbameinstilvika framundan
Við höfum nýlega birt nýja spá um fjölgun krabbameinstilvika og fjölgun lifenda. Spár okkar benda til að krabbameinstilvikum muni fjölga um 63% frá árinu 2024 til ársins 2045. Það þýðir að árið 2045 munu greinast árlega um 3.500 einstaklingar í stað 2.055 nú. Mikilvægt er að tryggja að heilbrigðisþjónustan, sem á mörgum sviðum er nú þegar komin að þolmörkum, ráði við þessa fyrirsjáanlegu fjölgun. Margt þarf að koma til og allir þurfa að leggjast á árarnar, stjórnvöld, heilbrigðis- og menntastofnanir og samfélagið allt. Það er verk að vinna – því lífið liggur við.
Stuðningur og ráðgjöf
Enginn á að takast á við krabbamein einn. Við stöndum með fólki alla leið og styðjum það og aðstandendur þess allt frá því að grunur vaknar um krabbamein.
Sérfræðingar okkar; sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar, veita fólki með krabbamein, aðstandendum og syrgjendum endurgjaldslausan stuðning og ráðgjöf. Markmið þeirra er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu í þeim breyttu aðstæðum sem greining krabbameins veldur. Leiðirnar eru margvíslegar; viðtöl fyrir einstaklinga og fjölskyldur, ráðgjöf um ýmis mál svo sem réttindi í veikindum eða hvernig er gott að tala við börnin auk fjölbreyttra námskeiða. Námskeiðin miða öll að því að auðvelda fólki að takast á við krabbamein og það sem fylgir, hvort sem um er að ræða kvíða vegna endurkomu sjúkdóms, langvarandi aukaverkanir, svefnörðugleika, hugræna erfiðleika eða heilaþoku, svo nokkur séu nefnd.
Fátt kemur í stað stuðnings frá okkar nánustu og við vitum að hann er oft minni hjá þeim sem hafa flust til landsins erlendis frá. Vegna þess bjóðum við líka stuðning á ensku og pólsku en hjá okkur starfar pólskumælandi félagsráðgjafi.
Við bjóðum heimili að heiman. Krabbameinsfélagið á átta íbúðir fyrir fólk utan af landi sem þarf að sækja rannsóknir og meðferð í Reykjavík. Íbúðirnar eru á Rauðarárstíg, í göngufæri við Landspítalann.
Fræðsla og forvarnir eru stór þáttur í starfi okkar hjá Krabbameinsfélaginu enda er auðvitað best ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Markvissar forvarnaraðgerðir sem bæta lýðheilsu geta komið í veg fyrir að spá félagsins um fjölgun krabbameinstilvika raungerist að fullu. Sérfræðingar okkar vinna að því að draga úr líkum á krabbameinum og lágmarka skaða af þeirra völdum með upplýsingum um lífsvenjur sem auka eða draga úr krabbameinsáhættu og einkenni sem geta bent til krabbameins. Forvarnarstarfið hefur áhrif, við höfum séð í könnunum okkar að þekking fólks um áhættuþætti eykst stöðugt. Það er hins vegar ekki nóg, enn betra er ef hægt er að rétta fólki „verkfæri“ sem draga úr áhættunni. Þátttaka í krabbameinsskimunum er dæmi um slíkt og sama gildir um nýjan matarvef, Gottogeinfalt.is í samstarfi félagsins og SÍBS, þar sem fólk getur gengið að einföldum en hollum uppskriftum sem draga úr krabbameinsáhættu.
Við færum línuna þegar kemur að þróun meðferðar, fræðslu og þekkingar
Sérfræðingar okkar sjá um skráningu allra krabbameina á Íslandi. Félagið rekur Krabbameinsskrá Íslands fyrir hönd Embættis landlæknis og gagnagrunn um gæði greininga og meðferða í samstarfi við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. Vísindafólkið okkar stundar einnig krabbameinsrannsóknir, einkum faraldsfræðirannsóknir. Vísindastarfið er mjög oft í samstarfi við aðra innlenda og erlenda sérfræðinga. Í rannsóknunum er sérstök áhersla lögð á að skilja umhverfistengdar og erfðafræðilegar orsakir krabbameina og að fylgjast með horfum sjúklinga og skilja hvaða þættir hafa áhrif á þær. Nú er byrjað að vinna úr niðurstöðum mjög stórrar rannsóknar á lífsgæðum fólks í krabbameinsmeðferð sem borin eru saman við lífsgæði fólks sem hefur lokið meðferð og almennings. Við bindum miklar vonir við niðurstöðurnar, sem munu nýtast til að gera góða þjónustu enn betri.
Ýmsar tölulegar upplýsingar um krabbamein eru aðgengilegar almenningi á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.
Bylting í krabbameinsrannsóknum hér á landi
Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 2017 til 2025 veitt 106 styrki, alls 655,5 milljónir króna, til 63 rannsókna. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári. Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Sjóðurinn er stærsti íslenski sjóðurinn sem er sérstaklega ætlaður krabbameinsrannsóknum og var heldur betur tekið fagnandi af vísindafólki.
Fjölbreytt miðlun
Til að starfsemi félagsins skili tilætluðum árangri er mikilvægt að fólk þekki vel til hennar. Hlutverk okkar er ekki síst að auka þekkingu í samfélaginu um líf og líðan þeirra sem hafa greinst með krabbamein og aðstandenda þeirra. Það gerum við til dæmis með því að miðla sögum þeirra sem reynsluna hafa og skapa vettvang þar sem raddir þeirra fá að hljóma.
Við notum ýmsar leiðir til að koma efni frá félaginu á framfæri þar sem myndbönd og rafrænt fræðslu- og kynningarefni spila stærra og stærra hlutverk. Við höldum einnig úti öflugri vefsíðu og erum á öllum helstu samfélagsmiðlum, auk Youtube-rásar og hlaðvarpsveitu á Spotify.
Krabbameinsfélagið gegnir mjög mikilvægu starfi í samfélaginu og nauðsynlegt er að starfið geti haldið áfram þó alvarleg áföll verði í samfélaginu. Til þess er mikilvægt að félagið eigi varasjóð. Krabbamein verða áfram til staðar, hvað sem á dynur og við viljum vera viss um að geta haldið okkar stuðningi áfram og frekar geta aukið hann ef aðstæður krefjast þess.
Öll okkar starfsemi er rekin fyrir stuðning fólksins og fyrirtækjanna í landinu og þannig á öll þjóðin hlutdeild í því góða starfi sem félagið stendur fyrir.
Við erum óendanlega þakklát fyrir stuðninginn. Saman færum við fjöll, því lífið liggur við.
