Stór helgi framundan
Það er mikið um að vera hjá Krabbameinsfélaginu næstkomandi helgi, en rúmlega 93 milljónum verður úthlutað úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins föstudaginn 23. maí, auk þess sem aðalfundur félagsins er haldinn laugardaginn 24. maí, og Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins veitt í fjórða sinn. Í tengslum við aðalfundinn stendur félagið einnig fyrir málþingi á laugardagsmorgni.
Yfir hálfum milljarði hefur nú þegar verið veitt til krabbameinsrannsókna
Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins var stofnaður 16. desember 2015 til að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum. Á árunum 2017-2024 hefur Vísindasjóðurinn veitt 96 styrki, 562,4 milljónir króna, til 58 rannsókna. Í ár bætast við fimm nýjar rannsóknir, auk þess sem átta hljóta áframhaldandi styrk, þegar rúmlega 93 milljónum verður úthlutað úr sjóðnum á föstudag. Þá verður einnig í þriðja sinn úthlutað úr Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og hljóta þrjár rannsóknir styrk upp á samtals 24,8 milljónir.
Vísindamenn hafa lýst stofnun Vísindasjóðsins sem byltingu í krabbameinsrannsóknum hér á landi og segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, það afar ánægjulegt hversu mikið félagið hefur getað styrkt Vísindasjóðinn á undanförnum árum og með því stuðlað að því að skapa forsendur til að áfram verði hægt að vinna af krafti að þessum mikilvægu verkefnum.
Málþing og samfélagsviðurkenning
Aðalfundur Krabbameinsfélagsins verður eins og áður segir haldinn í beinu framhaldi laugardaginn 24. maí fyrir fundinum verður Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins veitt í fjórða sinn. Samfélagsviðurkenningin er veitt aðilum sem félaginu þykir hafa lagt málstaðnum lið með eftirtektarverðum hætti. Í fyrra hlaut starfsfólk sjúkrahúsa um land allt viðurkenninguna og tóku fulltrúar 15 fjölbreyttra fagstétta á móti henni.
Í tengslum við aðalfundinn stendur félagið einnig fyrir málþingi sem ber yfirskriftina Viljum við að færri fái krabbamein? og fjallar um sóknarfæri í forvörnum gegn krabbameinum. Í málþinginu taka þátt fulltrúar stjórnvalda og sérfræðingar félagsins. Dagskráin hefst klukkan 10:00 og þátttaka er gjaldfrjáls og öllum opin. Málþingið verður einnig aðgengilegt í streymi fyrir þá sem eiga ekki heimangengt.


