Ólæknandi krabbamein
Að lifa með ólæknandi krabbameini er krefjandi áskorun og það er flestum þungbært að fá þær fréttir að sjúkdómurinn sé ekki á læknanlegum vegi. Í sumum tilvikum þróast sjúkdómurinn hratt, en sífellt fleiri lifa lengi með langvinnt ólæknandi krabbamein, þökk sé framþróun í greiningu og meðferðum.
Fólk sem greinist með ólæknandi, langvinnt krabbamein stendur frammi fyrir mörgum áskorunum líkamlegum, tilfinningalegum, félagslegum og andlegum.
Hjá flestum verða reglulegar meðferðir og eftirlit hluti af lífinu og snýst meðferðin ekki lengur um lækningu heldur að halda sjúkdómnum niðri, lina einkenni og bæta lífsgæði einstaklinga. Sumir finna fyrir líkamlegum einkennum vegna meðferðar, en margir lýsa líka vonleysi, áhyggjum og þunglyndi. Óvissan getur verið mikil og spurningarnar margar: Hversu langan tíma á ég eftir? Hvernig er best að ræða við fjölskyldu og vini? Hvað gerist þegar ég dey?
Fólk þarf að læra að lifa með sjúkdómnum, finna leiðir til að halda í lífsgæði, tengsl og tilgang.