Ráðstefna Norrænu krabbameinsskránna á Íslandi
Yfir 140 manns sátu nýafstaðna ráðstefnu ANCR, Norrænu krabbameinsskránna. Lengst komu gestir að frá Suður-Afríku og Suður-Kóreu. Þórunn Rafnar, annar tveggja aðalræðumanna ráðstefnunnar, hélt erindi um farsælt samstarf deCODE og Krabbameinsskrár Íslands.
Norrænu krabbameinsskrárnar skiptast á að halda ANCR ráðstefnuna og í ár var komið að Íslandi. Fór ráðstefnan fram á Natura hótelinu dagana 3. – 5. september. Báðir aðalræðumenn ráðstefnunnar voru íslenskir vísindamenn með áralanga reynslu af krabbameinsrannsóknum, þau Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Háskóla Íslands og sérfræðilæknir við Landspítala, og Þórunn Rafnar fyrrum deildarstjóri krabbameinsrannsókna hjá deCODE.
Krabbameinsskrá undirstaða íslenskra rannsókna
Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt og skiptist þannig að fyrst var fjallað um faraldsfræði og félagshagfræðilega þætti, síðan meðferðir og áhrif þeirra, þá lifun og endað á skimunum og skráningu. Í heildina voru haldin 37 erindi, auk 32 veggspjaldakynninga.
Fjórar íslenskar krabbameinsrannsóknir voru kynntar á ráðstefnunni sem eiga það allar sameiginlegt að byggja á gögnum sem aflað er í gegnum Krabbameinsskrá Íslands. Álfheiður Haraldsdóttir, sérfræðingur Rannsóknaseturs - Krabbameinsskrár hjá Krabbameinsfélaginu, kynnti yfirstandandi rannsókn sína á mögulegum ástæðum stöðugrar aukningar á nýgengi brjóstakrabbameins á árunum 1980-2020 og Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs - Krabbameinsskrár kynnti gagnaöflun fyrir tímamótarannsókn um lífsgæði eftir greiningu krabbameins.
Þá kynnti Sigurður Yngvi Kristinsson rannsóknir sínar á forstigum mergæxla, en Krabbameinsfélagið hefur styrkt þær með margvíslegum hætti undanfarin ár. Rannsóknirnar miða að því að lækka tíðni slíkra æxla með því að grípa fyrr inn í sjúkdómsferlið og hafa vakið mikla athygli.
Framfarir fyrir tilstilli erfðarannsókna
Erindi Þórunnar Rafnar fjallaði um þær gríðarlegu framfarir sem hafa orðið í rannsóknum á erfðafræði krabbameins síðustu 30 ár og hvernig niðurstöður þessara rannsókna hafa bætt krabbameinsgreiningu og meðferðir. Gögn úr krabbameinsskrá hafa gegnt lykilhlutverki í þessum rannsóknum þar sem gæði niðurstaðna eru í beinu hlutfalli við gæði upplýsinga sem rannsóknirnar byggja á. Rannsóknir byggðar á gögnum krabbameinsskrár hafa m.a. leitt í ljós að um 4% Íslendinga bera meinvaldandi breytingu í genum sem auka verulega líkur á krabbameini. Þórunn kom einnig inn á mikilvægi þess að fundnar verði leiðir til að hagnýta þessi mikilvægu gögn þannig að þau gagnist til að fyrirbyggja þróun alvarlegs krabbameins hjá arfberum. Um gríðarlegt hagsmunamál er að ræða, því fjölskyldusaga er ekki alltaf til staðar hjá öllum þeim sem bera slíkar erfðabreytileika.
Þórunn lagði áherslu á að besta leiðin til að nýta erfðaupplýsingarnar væri að fara í gegn um heilbrigðiskerfið þar sem fyrirbyggjandi aðgerðir, snemmgreining og meðferðarval væru á höndum sérfræðinga í samráði við viðkomandi einstaklinga.