Viljum skilja betur ástæður þess að nýgengi brjóstakrabbameins er stöðugt að aukast
Álfheiður Haraldsdóttir, doktor í lýðheilsuvísindum og sérfræðingur hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins, hlaut nýlega styrk til þriggja ára fyrir rannsókn á mögulegum ástæðum stöðugrar aukningar á nýgengi brjóstakrabbameins á árunum 1980-2020.
Þann 12. janúar síðastliðinn tilkynnti Rannís um styrkveitingu úr Rannsóknasjóði árið 2024. Álfheiður Haraldsdóttir, doktor í lýðheilsuvísindum og sérfræðingur hjá rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins, hlaut við það tækifæri styrk til þriggja ára fyrir rannsókn sem verður unnin á vegum félagsins undir handleiðslu Laufey Tryggvadóttur faraldsfræðings og í samvinnu við annað vísindafólk úr Háskóla Íslands og í Noregi. Markmiðið með rannsókninni er að kanna mögulegar ástæður stöðugrar aukningar á nýgengi brjóstakrabbameins á árunum 1980-2020. Álfheiður kláraði doktorsnám sitt í lýðheilsuvísindum árið 2020 og hafa áhættuþættir kvenna, þ.e.a.s þeir þættir sem vitað er að leitt geti til brjóstakrabbameins síðar á ævinni, átt hug hennar allan frá því í doktorsnáminu. „Doktorsverkefnið mitt var rannsókn á tengslum á milli mataræðis kvenna á mismunandi tímabilum ævinnar og áhættunnar á að greinast með brjóstakrabbamein síðar á ævinni,“ segir Álfheiður. „Inn í rannsóknina fléttuðum við líka upplýsingum um vöxt, sem getur verið birtingarmynd mataræðis. Gögnin voru fengin frá Hjartavernd, Krabbameinsskrá og Heilsusögubankanum.“
Vaxandi aukning á nýgengi brjóstakrabbameins er áhyggjuefni sem brýnt er að bregðast við. Erfitt er að segja til um nákvæmlega hvað veldur þessari aukningu, en að sögn Álfheiðar eru vísbendingar um að áhættuþættir leiki þar hlutverk. „Suma áhættuþætti er flókið og jafnvel ómögulegt að hafa áhrif á, eins og ættarsögu og áhættuþætti sem tengjast hormónum og barneignum. En aðrir þættir sem hafa áhrif á brjóstakrabbameinsáhættu tengjast lífsstíl, eins og líkamsþyngd, hreyfing og neysla áfengis og þar getum við svo sannarlega gripið inn í. Fyrirbyggjandi aðgerðir á borð við að mæta í skimun auka líkur á að meinið greinist snemma, því lægra sem stig krabbameinsins er við greiningu því betri líkur á góðum árangri meðferðar og því hvetjum við konur á skimunaraldri að taka þátt í henni “
Viljum að fólk taki upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu
Rannsókn Álfheiðar gengur út á að auka þekkingu á tengingu vissra áhættuþátta við nýgengi yfir langan tíma. Annað markmið rannsóknarinnar er að rannsaka rekjanlegt áhættuhlutfall í þýði. „Á mannamáli þýðir það að við viljum kanna hversu mikinn hluta af greindum krabbameinum megi rekja til tiltekinna áhættuþátta, yfir 40 ára tímabil“ útskýrir Álfheiður. „Niðurstöðurnar brjótum við niður á tíu ára tímabil í senn og með því að skoða hvernig áhættan breytist í takt við það sem er að gerast hverju sinni teljum við okkur geta aukið skilning á vægi hvers áhættuþáttar fyrir sig.“ Álfheiður nefnir sérstaklega notkun tíðahvarfahormóna í því samhengi, en margföldun í notkun þeirra á undanförnum árum kallar á frekari rannsóknir þar sem þekkt er að notkunin getur aukið áhættu á krabbameinum. „Í kringum aldamótin var notkun tíðahvarfahormóna mjög algeng, jafnvel í fyrirbyggjandi skyni. Síðan sýndu rannsóknir fram á tengsl á milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins.“
Það er enn hægt að taka þátt í Heilsusögubankanum
Rétt eins og doktorsverkefni Álfheiðar mun þessi rannsókn styðjast við gögn sem aflað er í gegnum Krabbameinsskrá og Heilsusögubankann. Álfheiður segir Heilsusögubankann afar mikilvægan gagnabanka og lykilundirstöðu fyrir rannsóknir af þessu tagi. „Heilsusögubankinn byggir á svörum við spurningalistum sem notaður voru árin 1964-2008 á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Þetta eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar sem hafa safnast í gegnum árin og nýtast í rannsóknir sem hjálpa okkur að afla upplýsinga og ákveða áherslur í forvörnum ásamt fleiru í baráttunni við krabbamein kvenna.“ Álfheiður undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að konur haldi áfram að taka þátt í að byggja upp gagnabankann fyrir framtíðarrannsóknir. „Við erum oftast að vinna með gögn aftur í tímann. Í tilviki Heilsusögubankans féll gagnaöflunin niður á milli 2008 og 2020 og það er bagalegt gap fyrir framtíðarrannsóknir“ segir hún og bætir við „en árið 2020 var byrjað að safna svipuðum gögnum á ný og hægt er að taka þátt inn á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.“
Skilar sér á endanum til almennings
Álfheiður leggur áherslu á að styrkurinn frá Rannís sé jafnframt mjög þýðingarmikill fyrir verkefnið, ekki síst sem viðurkenning á mikilvægi þess. „Eins og flestir vonandi vita er Krabbameinsfélagið fjármagnað með styrktarfé,“ segir Álfheiður. „Það á einnig við um þá starfsemi sem fer fram á Rannsókna- og skráningarsetrinu, að undanskildum rekstri Krabbameinsskrár sem er lögbundið verkefni sem Landlæknisembættið tekur þátt í að fjármagna. Allt okkar fjármagn skilar sér á endanum aftur til almennings, hvort sem það er með meiri og betri upplýsingum, bættum forvörnum eða beinni þjónustu. Að fá þetta viðbótarfjármagn inn fyrir þetta tiltekna verkefni er því gríðarlega gott fyrir félagið að öllu leyti og gerir okkur í raun kleift að gera enn betur. Rúsínan í pylsuendanum er síðan þessi mikla viðurkenning sem felst í því að hljóta styrk af þessu tagi, en það segir okkur að við séum að vinna að gagnlegum og þörfum verkefnum í þágu almennings.“