Beint í efni
Þakkarmynd úr auglýsingu 2025

Öfl­ug vit­und­ar­vakn­ing um ólækn­andi krabba­mein

Bleika slaufan í ár var sérstaklega tileinkuð öllum þeim sem þekkja listina að lifa með krabbameini. Saga Thelmu Bjarkar, hönnuðar slaufunnar, hljómaði víða og opnaði hjörtu okkar allra upp á gátt. 

Flest okkar þekkja orðið Thelmu Björk Jónsdóttur, fatahönnuð, listakonu og hönnuð Bleiku slaufunnar árið 2025. Thelma Björk var valin úr hópi ríflega 120 aðila sem sóttu um að fá að hanna slaufuna. Hún greindist með brjóstakrabbamein með meinvörpum árið 2024 og lifir því með ólæknandi krabbameini. Saga hennar, sem hún hefur deilt með okkur af miklu örlæti undanfarnar vikur, varð innblásturinn fyrir átakið í heild sinni. Einstök nálgun hennar á lífið er hvatning fyrir okkur öll að staldra við og dvelja í þakklæti fyrir hvern dag, þó á brattan sé að sækja. 

Takk fyrir stuðninginn í Bleiku slaufunni

Reynslusögur dýrmæt innsýn 

Við fundum svo sterkt fyrir meðbyrnum með átakinu í ár, ekki síst vegna þess að í átakinu áttu algjörlega sviðið raddir þeirra einstaklinga sem reynsluna hafa. Auk Thelmu Bjarkar deildu 8 aðrar konur reynslu sinni af því að lifa með ólæknandi krabbameini með okkur við miklar undirtektir. Þá fengum við að heyra enn fleiri reynslusögur á Bleiku málþingi um langvinnt brjóstakrabbamein. 

Þá er einnig vert að nefna pistil Lóu Bjarkar Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðings og ráðgjafa Krabbameinsfélagsins, sem byggði á reynslu Önnu Eðvaldsdóttur sem nýlega lést úr krabbameini. Pistillinn bar yfirskriftina Lukkudagar lífsins og vísar til þess hvernig Anna taldi síðustu dagana sína, sem hún nálgaðist af þakklæti og reyndi að njóta þeirra fram í fingurgóma. Allar veittu þessar sögur okkur dýrmæta innsýn inn í listina að lifa með krabbameini. 

Takk fyrir ykkar framlag 

Það er óhætt að segja að Bleika slaufan í ár hafi víða snert hjartastrengi og við hjá Krabbameinsfélaginu erum alltaf jafn hrærð yfir viðtökunum. Listinn yfir þau sem eiga þakkir skilið er langur. Thelma Björk og allar þær konur sem létu okkur reynslu sína í té, allt fólkið sem keypti og bar slaufuna, allir þeir fjölmörgu samstarfsaðilar og velunnarar sem lögðu átakinu lið með einum og öðrum hætti, allir þeir sjálfboðaliðar sem gáfu tíma sinn og fyrirtæki sem gerðu starfsfólkinu sínu kleift að láta gott af sér leiða á vinnutíma, allt fólkið sem gekk Úlfarsfellið á Styrkleikum Bleiku slaufunnar og 100 Úlfarsfellstinda og síðast en ekki síst allt listafólkið sem gaf vinnu sína í tengslum við opnunarviðburð Bleiku slaufunnar.  

Það er einungis fyrir ykkar tilstilli að við getum áfram verið öflugur bakhjarl þeirra sem lifa með krabbameini. Þið gerið okkur kleift að halda áfram að berjast fyrir fyrsta flokks krabbameinsþjónustu, fyrir aukinni þekkingu á aðstæðum okkar fólks, fyrir gróskumiklu vísindastarfi, fyrir aukinni vitund um áhættuþætti og fyrir úrræðum og stuðningi við hæfi. Markmið okkar er markmið okkar allra; að færri veikist af krabbameinum, fleiri lifi af og búi við góð lífsgæði með og eftir krabbamein, með sínu fólki. Takk fyrir ykkar ómetanlega framlag - því lífið liggur við. 

Styrkleikarnir Úlfarsfelli 2025