Beint í efni
Úlfarsfell

Geng­ið í slaufu á Úlf­ars­felli

100 Úlfarsfellstindar og Bleika slaufan ætla að endurtaka leika og standa fyrir Styrkleikum í Bleikum október.

Í október í fyrra tóku 100 Úlfarsfellstindar og Bleika slaufan höndum saman og stóðu fyrir Styrkleikum á Úlfarsfelli. Mikil ánægja var með hversu vel tókst til og því var ákveðið að endurtaka leikana og verður fyrsta ferðin farin næstkomandi föstudag kl. 16:00.  

Farið er upp frá bílastæðinu fyrir ofan Úlfarsárdal fáfarna leið upp á topp og svo hefðbundna leið niður veginn aftur á bílastæðið. Gengin er gönguleið sem myndar Bleika slaufu og tekur sú ganga frá 45 til 90 mín, en hver gengur á sínum hraða. 

Úlfarsfell
Úlfarsfell
Úlfarsfell

Töfrarnir í samstöðunni – hvetjum hvort annað 

Töfrarnir við Styrkleikana felast í samstöðunni og því hvetjum við fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði til að mæta saman og vera hvatning hvort fyrir annað. Hver fer fjallið á sínum forsendum, en í fyrra gekk ein vinkona til dæmis jafn margar ferðir og vinkona hennar hafði farið í lyfjagjöf og ein fjölskylda gekk saman til minningar um náinn ástvin. 

 Samhliða göngunni geta einstaklingar og hópar tekið þátt í áheitasöfnun, en allt fé sem safnast rennur til rannsókna á krabbameinum og til að veita fólki með krabbamein og aðstandendum þeirra ókeypis stuðning, ráðgjöf og þjónustu.

Úlfarsfell

Ljósastund sem snertir hjartastrengi 

Þegar rökkvar er haldin ljósastund, sem margir þátttakendur hafa lýst að snerti hjartastrengina á einstakan hátt. Að þessu sinni verður lagt af stað frá bílastæðinu klukkan 20:00 á föstudagskvöldinu og á toppnum verður kveikt á kertum sem þátttakendur geta keypt til stuðnings Krabbameinsfélaginu.  

Við hvetjum öll til að koma klædd eftir veðri, í góðum skóm, með fullhlaðna síma og muna eftir höfuðljósi (vasaljósi) þegar fer að dimma. 

Sjáumst á Úlfarsfelli!