Styrkleikar á Úlfarsfelli 17. - 18. október 2025
100 Úlfarsfellstindar 2025 og Bleika slaufan standa fyrir Styrkleikum í Bleikum október.
Styrkleikarnir fara fram 17. -18. október og eru heill sólahringur af samstöðu og samkennd þar sem öllum gefst tækifæri á að sýna stuðning sinn í verki við þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Styrkleikarnir fara þannig fram að þátttakendur skiptast á að ganga í heilan sólarhring, sem er táknrænt fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini, fólk sem tekst á við krabbamein gerir það allan sólarhringinn.
Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning, safna fé til rannsókna á krabbameinum og til að veita krabbameinsgreindum og aðstandendum ókeypis stuðning, ráðgjöf og þjónustu.
Leikarnir hefjast föstudaginn, 17. október, kl. 16:00 og gengið verður frá bílastæðinu ofan við byggðina í Úlfarsárdal. Þar verður Krabbameinsfélagið einnig með aðstöðu og býður upp á heitt kaffi og kakó.
Við hvetjum alla til að koma klædd eftir veðri, í góðum skóm, með fullhlaðna síma og muna eftir höfuðljósi (vasaljósi) þegar fer að dimma.
Farið er upp frá bílastæðinu fáfarna leið upp á topp og svo hefðbundna leið niður bílveginn aftur niður á bílastæði. Gangan tekur frá 45 mín – 1,5 klst – fer eftir hraða hvers og eins.
Klukkan 20:00 á föstudagskvöldið hvetjum við sem flesta til að sameinast á bílastæðinu og ganga saman leið sem myndar „slaufu“ til stuðnings þeim sem greinst hafa með krabbamein á lífsleiðinni. Þegar upp á Úlfarsfell er komið munum við kveikja á kertum sem þátttakendur geta keypt til stuðnings Krabbameinsfélagsinu til að minnast þeirra sem fallið hafa frá og þakka fyrir þau sem eru enn með okkur.