Hlý orka á opnunarhátíð Bleiku slaufunnar
Það voru töfrar í loftinu á opnunarhátíð Bleiku slaufunnar í Borgarleikhúsinu. Voru bæði gestir og listafólk sammála um að orkan í salnum hefði verið einstök.
Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar fór fram 30. september í Borgarleikhúsinu. Gestir voru byrjaðir að hita upp fyrir október og skörtuðu sínu fínasta bleika pússi. Húsið opnaði kl. 17:30 og var gestum boðið að kynna sér vörur og þjónustu samstarfsaðila Bleiku slaufunnar undir ljúfri djasstónlist í bleiku anddyri leikhússins.
Stórglæsileg dagskrá hófst kl. 19:00 á stóra sviðinu þar sem Forseti Íslands heiðraði samkomuna með stuttu ávarpi um kærleikann og hlýjuna sem fylgir Bleiku slaufunni. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins nýtti tækifærið og nældi Bleiku slaufuna í einn frægasta bleika jakka Íslands.
Halla fór stuttlega yfir starfsemi félagsins og mikilvægi Bleiku slaufunnar sem árvekni- og fjáröflunarátaks í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er sjónum beint að ólæknandi krabbameinum og áhersla lögð á að hlusta eftir röddum þeirra sem þekkja best þá list að lifa með krabbameini.



Thelma Björk Jónsdóttir, listakona og hönnuður Bleiku slaufunnar í ár, ávarpaði einnig gesti og sagði frá hönnunarferlinu og hugmyndinni á bak við slaufuna. Auglýsing Bleiku slaufunnar var jafnframt frumsýnd, en hún hverfist um reynslu Thelmu Bjarkar, sem greindist með ólæknandi brjóstakrabbamein árið 2024. Var henni þakkað kærlega fyrir sitt mikilvæga framlag.

Eva Ruza var kynnir kvöldsins og sá um að halda uppi stuðinu á milli atriði með sinni hlýju og skemmtilegu nærveru. Íslenski dansflokkurinn sýndi brot úr sýningunni Flóðreka, og Emilíana Torrini söng þrjú lög við undirleik Lay Low, þar með talið Sunny Road sem er einmitt einkennislag herferðarinnar í ár. Auk þeirra komu fram Friðrik Ómar og Jógvan, Sigríður Beinteinsdóttir, Snjólaug Lúðvíksdóttir, hljómsveitin Hipsumhaps og Birgitta Haukdal. Hafði listafólkið oft orð á því hvað orkan í salnum væri góð. Það var líka augljóst að gestir skemmtu sér konunglega, hlógu, klöppuðu og dilluðu sér í takt við mestu stuðlögin.



Sjón er sögu ríkari og við látum því fylgja með nokkrar myndir frá kvöldinu. Á facebooksíðu Bleiku slaufunnar má nálgast enn fleiri myndir.
Myndaalbúm: Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar 2025.
Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið ógleymanlegt. Sjáumst að ári.


