Beint í efni
Óásættanleg bið eftir geislameðferð

Óásætt­an­leg bið eft­ir geisla­með­ferð

Krabbameinsfélagið hefur sent heilbrigðisráðherra bréf þar sem skorað er á ráðherra að kanna möguleika á að stytta biðtíma eftir geislameðferð með samstarfssamningi við nágrannaland. Sjúklingar eiga rétt á að sækja heilbrigðisþjónustu erlendis þegar biðtími fer fram úr viðmiðum.

Krabbameinsfélagið sendi Landspítala fyrirspurn um bið eftir krabbameinsmeðferðum í mars síðastliðnum. Í svari spítalans sem barst tveimur mánuðum síðar kom meðal annars fram að bið eftir geislameðferð við sumum krabbameinum er mjög löng, einkum bið eftir geislameðferð við krabbameini í brjóstum og blöðruhálskirtli.

Krabbameinsfélagið hefur skoðað málið frekar í samtölum við bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga. Óhætt er að segja að staðan er sláandi. Í mörgum tilvikum er biðin eftir geislameðferð tvöfalt lengri en það sem hingað til hefur talist ásættanlegur hámarksbiðtími. Of langur biðtími skerðir lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra og veldur miklu álagi og streitu fyrir utan að lengja veikindaferli. Biðtími getur einnig haft neikvæð áhrif á batahorfur sjúklinganna og dregið úr árangri krabbameinsmeðferðar.

Sjúklingar eiga rétt á að sækja heilbrigðisþjónustu erlendis þegar ekki er unnt að veita hana hérlendis eða biðtími fer fram úr viðmiðum. Um kerfisbundinn vanda er að ræða og að mati Krabbameinsfélagsins er brýnt að þegar í stað verði kannaðir möguleikar á aðgengi íslenskra krabbameinssjúklinga að geislameðferð í einhverju nágrannalandanna og að gengið verði frá samningi þar að lútandi tafarlaust.

Hér má lesa bréfið til ráðherra í heild sinni.

Krabbameinsfélagið hefur ítrekað bent á þær áskoranir sem blasa við í heilbrigðiskerfinu og tengjast mikilli fjölgun krabbameinstilvika, nú síðast í ályktun aðalfundar í maí síðastliðnum. Ljóst er að staðan er að raungerast og mun stigmagnast hratt næstu árin. Árangur hér á landi varðandi krabbamein er mjög góður, en mikilvægt er að tryggja að svo verði áfram. Tryggt aðgengi að nauðsynlegri meðferð, á réttum tíma, er þar lykilatriði.