Ráðleggingar til stjórnvalda um aðgerðir til að sporna gegn offitu barna - samnorrænt verkefni
Frá árinu 2022 hafa norrænu krabbameinsfélögin átt í samstarfi um verkefnið „Common Actions for the Prevention of Overweight and Obesity among Children in the Nordic countries (CAPOC)“ sem hefur verið eitt af stefnumótandi verkefnum Samtaka norrænu krabbameinsfélaganna (NCU).
Vaxandi vandi, aðgerðir nauðsynlegar
Fjöldi barna og unglinga í ofþyngd eða með offitu fer vaxandi á Norðurlöndunum og hæst er hlutfallið hérlendis; 25% íslenskra barna eru í ofþyngd eða með offitu. Ástæður þessarar þróunar eru margar og flóknar en stóran hluta má rekja til ýmissa breytinga í samfélaginu sem hafa aukið líkur á þróun offitu.
Börn sem eru of þung eða með offitu eru í verulega aukinni hættu á að vera í sömu stöðu á fullorðinsárum sem eykur hættuna á ýmsum sjúkdómum, meðal annars að lágmarki 13 tegundum krabbameina.
Það er álit stjórnar Samtaka norrænu krabbameinsfélaganna að það að vinna gegn ofþyngd og offitu meðal barna sé eitt það brýnasta í krabbameinsforvörnum og ákvað því stjórnin að hrinda verkefninu í framkvæmd. Starfshópur sérfræðinga í forvörnum hjá danska, íslenska, norska, finnska og sænska krabbameinsfélaginu vann að verkefninu, sem var leitt af danska félaginu. Markmið þess var frá upphafi að hvetja stjórnvöld til að grípa til aðgerða sem unnið geta á móti þessari þróun ásamt því að minna á að ábyrgðin á því að fyrirbyggja ofþyngd og offitu liggur að miklu leyti hjá þeim. Einnig er markmiðið að vekja almenna athygli á stöðu þessara mála og auka meðvitund um mikilvægi þess að brugðist verði við til að stuðla að breytingum til betri vegar.
Vandinn er umfangsmikill, flókinn og margþættur og engin einföld lausn dugar til. Til að breytinga megi vænta þarf fjölbreyttar aðgerðir, aðgerðir sem hafa áhrif á ýmsa samfélagsþætti í því umhverfi sem fólk lifir og hrærist í og hafa áhrif á mataræði og hreyfingu.
Ráðleggingar til stjórnvalda um aðgerðir
Viðamikil skýrsla var unnin út frá víðfeðmri, kerfisbundinni yfirferð á gagnreyndri þekkingu sem gerð hefur verið grein fyrir í yfirlitsrannsóknum (systematic umbrella review) og öðrum gögnum (sk. „grey literature“) sem snúa að niðurstöðum um árangur af stjórnvaldsaðgerðum á sviði efnahagslegra aðgerða, reglna um markaðssetningu óhollra matvæla, reglna um merkingar matvæla, framboðs og aðgengis að hollum mat og stefnumótunar um mataræði og hreyfingu í skólum. Í skýrslunni eru teknar saman og settar fram þær vísbendingar sem nú liggja fyrir um áhrif stjórnvaldsaðgerða víða um heim á áðurnefndum sviðum sem geta mótað og haft jákvæð áhrif á mataræði barna og hreyfivenjur.
Út frá niðurstöðum skýrslunnar voru unnar og settar fram ráðleggingar til stjórnvalda á Norðurlöndum um aðgerðir til að vinna gegn ofþyngd og offitu barna.
Tillögurnar/ráðleggingarnar
Tillögurnar/ráðleggingarnar
Norrænu krabbameinsfélögin ráðleggja stjórnvöldum á Norðurlöndunum að grípa til eftirfarandi aðgerða:
Efnahagslegar aðgerðir
Innleiddar verði efnahagslegar aðgerðir þannig að hollur matur sé hagkvæmari kostur sem dragi úr sölu, kaupum og neyslu óhollrar fæðu og drykkja.
Merkingar á matvöru
Gert verði skylt að merkja að framanverðu öll forpökkuð matvæli og drykki með upplýsingum um næringargildi til að stuðla að fæðuumhverfi þar sem neytendum er auðveldað að taka upplýstar ákvarðanir um val á vöru.
Aðgerðir á vettvangi markaðssetningar
Efld verði löggjöf um markaðssetningu á óhollum mat og drykkjum sem beint er að börnum.
Aðgerðir innan skólaumhverfisins
Stuðlað verði að hollu mataræði og daglegri hreyfingu barna yfir skóladaginn og tryggt að umhverfi í kringum skólana styðji við þessar aðgerðir.
Aðrar aðgerðir
Stuðlað verði að bættu framboði, aðgengi og hagkvæmni heilsusamlegra matvæla og líkamlegri hreyfingu í öllum opinberum stofnunum og á öllum skeiðum barnæsku.
Afstaða almennings
Í framhaldi af ráðleggingunum var sett upp könnun í hverju landi fyrir sig, þar sem almenningur var spurður út í viðhorf sín til þeirra. Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti hér á landi að minnsta kosti þar sem fólk er kerfisbundið spurt út í afstöðu sína til aðgerða stjórnvalda til að draga úr ofþyngd og offitu. Að auki var fólk spurt út í hver það telji bera ábyrgð á að fyrirbyggja ofþyngd og offitu barna.
Könnunin var lögð fyrir almenning í öllum fimm löndunum til fá upplýsingar um afstöðu fólks til þess að yfirvöld grípi til þeirra aðgerða sem ráðlagðar eru í skýrslunni. Þátttakendur, úrtakshópur sem endurspeglaði samsetningu þjóðanna, voru alls 5.008, þar af 1.000 íslenskir.
Þegar niðurstöður frá öllum löndunum eru teknar saman fyrir nokkrar helstu spurningarnar sést að mikill meirihluti (89%) styður tillögu um lækkun virðisaukaskatts á hollum mat og helmingur (49%) styður aukna skattlagningu á óhollan mat og sykraða drykki. Rúmur helmingur (57%) styður að lög séu efld til að vinna gegn hvers kyns markaðssetningu á óhollum mat og drykkjum til barna. Í ofantöldum spurningum var útkoman frá Íslandi nálægt þessum meðaltölum þegar hún er skoðuð sérstaklega.
Í heildina styðja tæplega þrír af hverjum fjórum (72%) að skylt verði að hafa næringarupplýsingar framan á forpökkuðum matvælum og drykkjum til að auðvelda fólki að velja hollari kosti. Á Íslandi var þó enn meiri stuðningur við þetta og langmestur meðal landanna, eða 87%.
Einnig var mikill meirihluti (84%) hlynntur aukinni hreyfingu í skólum og að hún sé hluti hvers einasta skóladags og var stuðningur mestur við þessa ráðleggingu á Íslandi, eða 90%
Fólk var líka spurt út í hver það telji beri ábyrgð á að fyrirbyggja ofþyngd og offitu barna og í heildina voru 91% sem töldu ábyrgðina liggja hjá fjölskyldum og var hlutfallið svipað hjá öllum þjóðunum.
Þegar íslensku svörin eru skoðuð sérstaklega telja 72% ábyrgðina á að fyrirbyggja offitu barna liggja hjá matvælaiðnaðinum, 59% hjá stjórnvöldum, 57% hjá matvöruverslunum. Á Íslandi taldi 21% að ábyrgðin lægi hjá börnunum sjálfum og skar sú niðurstaða sig töluvert úr hinum löndunum en þar voru það frá 32-46% sem töldu ábyrgðina liggja hjá börnunum.
Einnig kom fram að íslenskir svarendur þekktu betur til þess að offita eykur líkur á krabbameinum, eða 43%, samanborið við 28-38% annars staðar.

Kynningarfundur í Kaupmannahöfn
Í nóvember 2024 var haldið fjölmennt málþing í danska þinginu í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn þar sem ráðleggingarnar ásamt helstu niðurstöðum könnunarinnar voru kynntar fulltrúum stjórnvalda allra Norðurlandanna. Að kynningunni lokinni sátu fulltrúar stjórnvalda frá öllum löndunum fyrir svörum. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda var Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri lýðheilsu og vísinda í Heilbrigðisráðuneytinu. Í lokaerindi sem flutt var af framkvæmdastjóra sænska krabbameinsfélagsins voru stjórnvöld landanna eindregið hvött til að grípa til aðgerða gagnvart umræddum vanda, og dregin upp áhrifarík mynd af því hvernig Norðurlöndin gætu verið í fararbroddi annarra þjóða árið 2040 með því að tileinka sér ráðleggingarnar.
