Beint í efni

Viðgerðar­genið BRCA2

Stefán Sigurðsson sameinda­líf­fræðingur rannsakar áhrif stökk­breytinga í BRCA2 á vefja­sértækni og þróun krabba­meina.

Erfðaefni okkar verður stöðugt fyrir áreiti og það verða mörg þúsund skemmdir í hverri einustu frumu á hverjum einasta sólarhring. Sem betur fer höfum við gríðarlega öfluga viðgerðarferla til að takast á við þessar skemmdir og yfirleitt valda þær okkur ekki skaða. Það getur þó gerst og eitt einkenni krabbameina er uppsöfnun á skemmdum sem veldur stökkbreytingum í erfðaefninu DNA.

Margir tengja stökkbreytingu í BRCA2-geninu við aukna áhættu á brjóstakrabbameini. Færri tengja stökkbreytingu í BRCA2-geninu við lungnakrabbamein. Og kannski enn færri vita að BRCA2-genið er viðgerðargen, sem tekur við eðlilegar kringumstæður þátt í DNA-viðgerðum. Stefán Sigurðsson, sameindalíffræðingur og dósent við Háskóla Íslands, rannsakar DNA-viðgerðir.

„Ég er að rannsaka viðgerðargenið BRCA2. Tvær mismunandi stökkbreytingar í BRCA2-geninu valda því að annars vegar myndast brjóstakrabbamein og hins vegar lungnakrabbamein. Í þessu verkefni ætlum við að nota CRISPR-Cas9 erfðatæknina. Þetta er tækni sem gerir okkur kleift að búa til breytingar í erfðamenginu. Við ætlum að nota frumulínur og gera þessar tvær stökkbreytingar og skoða síðan undirliggjandi ferla inni í frumunum sem gæti þá hugsanlega skýrt það hvers vegna þetta þróast annars vegar í brjóstakrabbamein og hins vegar í lungnakrabbamein,“ útskýrir Stefán.

Vonin er sú að með því að skilja betur undirliggjandi ferla væri hægt að beita sértækari meðferðarúrræðum, sem myndi bæta meðferðina.“

Stefán Sigurðsson sameindalíffræðingur hlaut 4 milljóna króna styrk árið 2017 fyrir verkefnið Áhrif stökkbreytinga í BRCA2 á vefjasértækni og þróun krabbameina. 

MYND/Kristinn Ingvarsson