Beint í efni

Skrán­ing trygg­ir ár­ang­ur

Sigurður Guðjónsson og Oddur Björnsson rannsaka faraldsfræði, greiningu, meðferð og afdrif sjúklinga með þvagvegakrabbamein á Íslandi.

Krabbamein í þvagvegum (þvagblöðru, þvagleiðurum, þvagrás og nýrnaskjóðu) eru tiltölulega algeng, sérstaklega meðal karla. Það er fjórða algengasta krabbameinið hjá íslenskum körlum.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða faraldsfræði sjúkdómsins á Íslandi, hvernig greiningu og meðferð hefur verið háttað hérlendis á síðustu árum og hver afdrif sjúklinga eru þegar horft er á fylgikvilla, endurkomutíðni og lifun.

Verkefnið hefur þróast út frá BS-verkefni Odds Björnssonar, sérnámslæknis í skurðlækningum, en hann gerði afturskyggna rannsókn á afdrifum allra íslenskra sjúklinga sem höfðu undirgengist blöðrubrottnám vegna þvagblöðrukrabbameins á árunum 2003-2012. Grein um það verkefni birtist í Scandinavian Journal of Urology árið 2016.

Verkefnið sem Oddur vinnur sem doktorsverkefni í samvinnu við Sigurð Guðjónsson, þvagfæraskurðlækni og lektor, snýr að öðrum hlutum þvagvega og tekur til allra aðgerða sem gerðar voru á Íslandi á árunum 2003-2016. Grein um verkefnið sem var styrkt af Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins birtist í Scandinavian Journal of Urology í apríl 2021.

Annar angi verkefnisins sem er í undirbúningi í samvinnu við Krabbameinsskrá er að þýða og staðfæra skráningarblöð sem sænska krabbameinsskráin notar fyrir framsýna skráningu (skráningu í rauntíma) á þvagvegakrabbameinum í Svíþjóð. Ætlunin er að hefja framvirka skráningu á þvagvegakrabbameinum hérlendis.

„Á litlu landi eins og Íslandi er mjög mikilvægt að kortleggja faraldsfræði, greiningu, meðferð og afdrif fólks sem greinist með krabbamein til þess að tryggja að árangur sé sambærilegur við það sem gengur og gerist erlendis.“

Verkefnið Þvagvegakrabbamein á Íslandi: Faraldsfræði, greining, meðferð og afdrif sjúklinga hlaut 4,3 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2020.

„Styrkurinn skiptir öllu máli. Hingað til hefur Oddur unnið að verkefninu á kvöldin og um helgar. Í haust klárar hann sitt sérnámsprógramm og vegna styrksins getur hann þá farið í leyfi frá öðrum störfum, hafið doktorsnám og notað 5-6 mánuði samfleytt í þessa rannsókn. Við gerum ráð fyrir að komast langt með verkefnið. Við erum mjög þakklátir og lofum því að skila góðri vinnu.“