Skoðar sameind fyrir sameind með háþróuðum aðferðum
Pétur Orri Heiðarsson rannsakar ferla sem leiða til krabbameins.
Sortuæxli er alvarlegasta gerð húðkrabbameina en árlega greinast tæplega 50 einstaklingar á Íslandi með sortuæxli og um 11 látast að meðaltali á ári úr sjúkdómnum. Umritunarþátturinn MITF spilar stórt hlutverk í myndun sortuæxla. Þetta prótein hefur löng svæði sem hafa ekki fasta þrívíða byggingu, líkt og mörg prótein, en þessi svæði taka breytingum við myndun æxla.
Til þess að skilja hlutverk þessara svæða við æxlamyndun ætlar Pétur Orri Heiðarsson, dósent við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, að nota háþróaðar smásjáraðferðir sem gerir honum kleift að skoða eina sameind í einu.
„Skilningur á þeim sameindalegu ferlum sem leiða til krabbameina er undirstaða þess að þróa meðferðir gegn þeim. Niðurstöður þessa verkefnis munu ekki aðeins auka skilning okkar á undirstöðum MITF í þróun sortuæxla heldur einnig leiða til almennrar vitneskju um hvernig eftirtjáningarbreytingar á umritunarþáttum hafa áhrif á hegðun þeirra og virkni. Þessar upplýsingar geta skipt sköpum við hönnun meðferða gegn sortuæxlum, t.d. með lyfjaþróun,“ segir Pétur Orri.
Verkefnið Hlutverk óreiðusvæða í starfsemi MITF umritunarþáttarins hlaut 10 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021, 6 milljóna króna styrk árið 2022 og 7,9 milljóna króna styrk árið 2023.
Framvinda (mars 2023)
Umritunarþátturinn MITF gegnir stóru hlutverki í myndun sortuæxla. Þetta prótein hefur löng svæði sem hafa ekki fasta þrívíða byggingu og sem taka við skilaboðum frá boðleiðum, t.d. við myndun æxla. Til þess að skilja hlutverk þessara svæða við æxlamyndun höfum við notað háþróaðar smásjáraðferðir sem leyfa okkur að skoða eina sameind í einu. Við höfum nú þegar stigið stór skref í okkar rannsóknum. Við höfum framkvæmt nákvæma lífupplýsingagreiningu á byggingu próteinsins, þróað aðferðir til þess að einangra það í fjölbreyttu formi, og skoðað eiginleika þess með eðlisefnafræðilegum aðferðum. Við höfum ennfremur gert fjölmargar smásjártilraunir sem mæla byggingu og hreyfingu MITF við bindingu erfðaefnis. Þær niðurstöður hafa lagt grunninn að tölvugerðum sameindalíkönum.
Niðurstöður þessa verkefnis munu ekki aðeins auka skilning okkar á undirstöðum MITF í þróun sortuæxla heldur einnig leiða til almennrar vitneskju um hvernig bygging og hreyfing umritunarþátta stjórnar virkni þeirra og hvernig þeirri virkni er stjórnað af breytingum eftir tjáningu.