Samanburður aðgerða með brjóstholsskurði og brjóstholssjá
Tómas Guðbjartsson rannsakar hvort árangur hafi batnað, ekki síst hvað alvarlega fylgikvilla varðar og lifun.
Lungnakrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi og það krabbamein sem dregur flesta til dauða. Á undanförnum árum hafa orðið mjög miklar framfarir í greiningu og meðferð þessa mikilvæga krabbameins. Þar má nefna bætta myndgreiningu sem gera kleift að greina meinin fyrr og minna útbreidd.
Einnig hafa orðið miklar framfarir í meðferð, ekki síst í lyfjameðferð en einnig geislameðferð sjúklinga með útbreitt mein þar sem skurðaðgerð kemur ekki til greina. Skurðaðgerð er enn helsta læknandi meðferðin við lungnakrabbameini og sú sem er best rannsökuð.
Á síðastliðnum áratug er komin fram tækni þar sem hægt er að gera 85% aðgerðanna með aðstoð brjóstholssjár (VATS) og í gegnum 3 litla skurði, aðferð sem leysir sársaukafyllri brjóstholsskurð af hólmi. Verkir eru minni, sjúklingar fljótari að jafna sig og legutími styttur.
„Helsta markmið þessarar rannsóknar er að bera árangur þessara brjóstholsaðgerða saman við þær sem gerðar voru með brjóstholsskurði, og meta hvort árangur hafi batnað, ekki síst hvað alvarlega fylgikvilla varðar og lifun.“ segir Tómas.
Verkefnið Nýjungar í skurðmeðferð lungnakrabbameins á Íslandi hlaut 1.920.000 kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2022 og 2,8 milljón króna styrk árið 2023.
Framvinda (mars 2023)
Gangur í verkefninu hefur verið mjög góður á sl. ári. Tveir nemar voru í fullu starfi við rannsóknir á skurðaðgerðum við lungnakrabbamein sl. sumar. Við höfum hafið greinaskrif um innleiðslu VATS-aðgerða fyrir 4 árum síðan og hyggjumst kynna niðurstöðurnar á SATS-þinginu í Odense næsta sumar og á Evrópuþingi hjarta- og lugnaskurðlækna, EACTS, í Vín í október. Framahaldsstyrkurinn mun fara til þess að klára gagnavinnslu fyrir árin 2021, 2022 og 2023, og síðan bera betur saman árangur VATS-aðgerð og opinna aðgerða.