Beint í efni
Vísindasjóður - GV

Nota æxl­inga úr æxl­um til að skoða fram­gang krabba­meina

Guðrún Valdimarsdóttir rannsakar áhrif seytinna æðaþelsþátta á framvindu brjóstakrabbameina.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á heimsvísu og horfur sjúklinga versna til muna ef meinvörp greinast. Enn er á huldu hvers vegna og hvernig æxlisfrumur sem hafa dreift sér geta virkjast og meinvarpast eftir mislangan tíma í dvala, en margt bendir til að nærumhverfi æxlisfrumanna hafi þar mikið vægi, sér í lagi æðaþelið. Með rannsóknum á æxlingum sem ættaðir eru úr æxlum brjóstakrabbameinssjúklinga og samræktun þeirra með æðaþelsfrumum er markmiðið að skoða samskipti þeirra ofan í kjölinn. Rannsóknin mun auka skilning á samspili ákveðinna bindla og viðtaka á þessum frumum sem hafa hvetjandi eða letjandi áhrif á framgang brjóstakrabbameins og hvort munur sé á þeim milli ólíkra undirgerða vegna þess að þær svara lyfjagjöf á svo ólíkan hátt. Jafnframt verður rannsakað hvort æðahindrandi lyf hafa áhrif á vöxt æxlinga.

Þekkingin sem skapast verður vonandi skref í þá átt að hver brjóstakrabbameinssjúklingur fái sérhæfðari meðferð til að koma í veg fyrir myndun meinvarpa eftir brottnám frumæxlis. Ferlið frá lífsýnatöku sjúklings til lyfjaskimunar þarf að vera hraðvirkt til að geta boðið upp á skilvirkustu lyfjagjöfina. Þess vegna þarf að fínpússa æxlingarlíkönin frekar með því að flétta nærumhverfi æxlis inn í það, þar með talið æðaþelið sem framleiðir seytiprótein sem bindast viðtökum á æxlinu og hafa áhrif á örlög þess.

Rannsóknin Áhrif seytinna æðaþelsþátta á framvindu brjóstakrabbameins með notkun æðaríks æxlingaprófs og RNA raðgreiningar hlaut 8,4 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2025.